Laseraðgerðir á hornhimnu augans

 

 

Í meira en áratug hefur laseraðgerðum á hornhimnu (LASIK og PRK) verið beitt til að lækna nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Þessar þrjár gerðir sjónlagsgalla eru algengustu augnsjúkdómarnir hér á landi sem og annars staðar og er talið að um þriðjungur Íslendinga þurfi að ganga með gleraugu reglulega vegna þeirra. Aðgerðir við nærsýni náðu nokkrum vinsældum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar í Rússlandi og Bandaríkjunum, þar sem gerðir voru skurðir í hornhimnu sem miðuðu að því að breyta lagi hornhimnunnar, sem er fremsta lag augans. Þessar aðgerðir voru nokkrum annmörkum háðar, meðal annars var sjónin stundum sveiflukennd og eins gat sjónlag breyst með árunum og upphafið áhrif aðgerðarinnar. Með tilkomu lasertækni við upphaf 10. áratugarins jukust möguleikar á að breyta lagi hornhimnunnar til að laga nærsýni með því að fletja hornhimnuna svolítið út. Árangur þessara aðgerða var miklum mun betri og stöðugri. Með bættri tækni þróaðist svo þessi aðgerð. Algengasta aðgerðin nú er svokölluð LASIK-aðgerð, þar sem útbúinn er lítill flipi á auganu og lasernum beitt undir þessum flipa. Flipinn er síðan lagður aftur yfir augað og finnur viðkomandi lítið sem ekkert til eftir aðgerðina. Vinsældir þessarar aðgerðar hafa aukist hröðum skrefum og er þetta orðin algengasta aðgerð sem framkvæmd er í Bandaríkjunum. Aðgerðirnar miðast að því að gera fólk minna háð gleraugum, en í mörgum tilfellum þarf fólk ekki á gleraugum að halda lengur. Nú er unnt að beita laseraðgerðum á þá sem eru fjarsýnir, eða þurfa á plúsglerjum að halda (nærsýnir þurfa mínusgler) og á þá sem eru með sjónskekkju. Þess ber að geta að ekki er unnt að beita lasermeðferð á þá sem eru með lesfjarsýni, eða ellifjarsýni, en hún leggst ofan á þá nærsýni og fjarsýni sem fyrir er eftir fertugsaldurinn. Lesfjarsýnin hefur stundum verið kölluð ,,nærstillingarvandi“, vegna þess að hún vísar til þess að augað er ekki lengur ,,autofocus“ myndavél, heldur ,,fixed focus“ myndavél og getur ekki fókuserað lengur á hluti nálægt sér, nema með hjálp lesgleraugna.

 

 

 

Hér koma nokkrar algengar spurningar um laseraugnaðgerðir:

 

 

 

1. Hvað kostar þessi aðgerð?

 

 

Verð aðgerðanna er mjög sambærilegt við nágrannalönd okkar. Við bjóðum að auki upp á nokkra möguleika til að greiða fyrir hana. Hafa verður í huga að Tryggingastofnun ríkisins greiðir aðgerðina sjaldnast niður líkt og með aðrar aðgerðir. Auk þess er ýmislegt sem fylgir sérhverri aðgerð. Nákvæm forskoðun er framkvæmd fyrir aðgerð og eru sum mælitækjanna ekki til á venjulegum augnlæknastofum. Aðgerðin er síðan framkvæmd með afar nákvæmum og fullkomnum laserbúnaði í umsjá augnlæknis hjá Sjónlagi hf. með sérnám í slíkum laserlækningum að baki. Eftirskoðanir í sex mánuði eftir aðgerð auk viðbótarmeðferða ef nauðsyn krefur fylgja með í verði aðgerðar. Verð á aðgerð (eitt auga) er kr. 142.500 án staðgreiðsluafsláttar.

 

2. Er þetta ekki sárt?

 

 

Nei, flest fólk lýsir þessu sem miklu minna máli en það ímyndaði sér. Fólk er undirbúið vel og gefin létt ,,rólegheitatafla“ fyrir aðgerðina og síðan er deyft vandlega með dropum á augun. Það helsta sem fólk ætti að búa sig undir er að í upphafi sortnar manni fyrir augum í u.þ.b. 30 sekúndur. Þetta er alveg eðlilegt og sjónin kemur strax aftur. Við tölum við fólk allan tímann og leyfum því að fylgjast með. Eftir aðgerð framkvæmum við nákvæma eftirskoðun og fólk fer svo heim að því loknu – gott er að hafa augun sem mest lokuð um kvöldið. Fæstir finna til nokkurra óþæginda og þá er það oftast vægur sviði.

 

 

 

3. Á lasermeðferð við mig?

 

 

Það er afar mikilvægt að velta þessum valkosti vel fyrir sér og bera saman við þá valkosti sem fyrir eru, þ.e. gleraugu og snertilinsur. Gleraugu og snertilinsur eru – þrátt fyrir allt – hjálpartæki líkt og hækjur. Lasermeðferðin er varanleg lækning á sjónlagsgöllum. Þrátt fyrir að aðgerðin sé ein af öruggustu augnaðgerðum sem völ er á er ekkert án áhættu í lífinu. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að auka öryggi aðgerðarinnar. Það gerum við meðal annars með ráðgjöf fyrir aðgerðina og vísum við þriðjungi fólks frá vegna þess að augu þeirra eru ekki nægilega heppileg til aðgerðar. Einnig höfum við yfir að ráða fullkomnum tækjum með nýjustu tækni á þessu sviði. Við leggjum einnig ríka áherslu á að fylgja fólki vel eftir aðgerðirnar, þar eð langflesta fylgikvilla aðgerðarinnar má meðhöndla.

 

 

 

4. Hverjir eru þeir þættir sem gætu komið í veg fyrir aðgerð?

 

 

Í forskoðuninni beinum við sérstaklega sjónum að þessum þáttum. Við tökum sjúkrasögu viðkomandi, þar sem nokkrir sjúkdómar geta komið í veg fyrir aðgerð. Ýmsir augnsjúkdómar geta svo auðvitað komið í veg fyrir aðgerð. Nokkur lyf geta einnig haft áhrif á ákvarðanatöku. Sjónlag einstaklingsins hefur einnig mikið að segja, það eru ákveðin takmörk á hversu nærsýnn eða fjarsýnn einstaklingurinn getur verið. Mikil sjónskekkja getur líka haft áhrif þar á. K&ua cute;pa hornhimnunnar og þykkt hefur einnig mjög mikið að segja og er það mælt með nákvæmum mælitækjum. Loks er svo að geta þess að viðhorf einstaklingsins og væntingar eru mjög mikilvægur þáttur í ákvarðanatökuferlinu. Öll þessi atriði ræðum við vel fyrir aðgerð og leggjum á það ríka áherslu á rólegt og notalegt umhverfi þar sem fólk getur velt fyrir sér valkostunum í ró og næði.

 

 

 

Vefur Sjónlags, www.sjonlag.is