Laseraðgerðir á augum – fylgikvillar

Fylgikvillar LASIK og PRK eru fáir og sjaldgæfir. Ekki má þó líta á þessar aðgerðir sem hættulausar – engin skurðaðgerð er án áhættu.

Eftirtöldum fylgikvillum hefur verið lýst eftir sjónlagsaðgerðir með laser:

1. Sýkingarhætta – einn alvarlegasti fylgikvilli augnaðgerða en afar óalgengur eftir sjónlagsaðgerðir með laser. Við notum sýklalyf í formi augndropa til að minnka áhættuna á augnsýkingu.

2. Um 10-20% sjúklinga þurfa tvær lasermeðferðir til að ná tilætluðum árangri. Ekki er unnt að lofa því að viðkomandi losni við gleraugu, en sjónlagsaðgerðir beinast fyrst og fremst að því að gera fólk minna háð gleraugum og snertilinsum. Örsjaldan þarf fleiri aðgerðir til að ná tilætluðum árangri.

3. Sjón án gleraugna eftir aðgerð er oftast betri en sjón með gleraugum fyrir aðgerð en í einstökum tilfellum getur hún verið síðri.

4. Samhæfing augna getur raskast svolítið ef annað augað er meðhöndlað en ekki hitt, t.d. þegar stefnt er að skiptisjón (monovision). Þetta lagast oftast eftir 1-2 vikur en stundum þarf að meðhöndla hitt augað til að ná fyrri samhæfingu.

5. Sjónskerpa í rökkri minnkar stundum eftir sjónlagsaðgerðir. Einnig verður fólk stundum vart við geislabauga og ljósbrot í kringum ljós.

6. Í langflestum tilvikum gengur flipaskurðurinn vel í LASIK. Í einstaka tilfellum getur flipinn losnað frá, skurðurinn orðið ófullkominn eða aflagast. Í örfáum tilvikum getur þetta haft áhrif á lokasjón. Við notum nýja gerð hornhimnuhefils sem minnkar hættuna á slíku.

7. Flestir finna fyrir augnþurrki eftir LASIK og þurfa að nota gervitár tímabundið. Gervitár fá má án lyfseðils í apóteki. Oftast gengur augnþurrkurinn til baka eftir nokkrar vikur.

Athuga skal:

Árangur laseraðgerðar hjá þeim sem eru með mikla nærsýni og mikla fjarsýni kann að vera síðri en þeirra sem eru með vægari sjónlagsgalla.

Árangur aðgerðarinnar getur orðið síðri hjá þeim sem eru með sykursýki, svæsna hvarmabólgu eða alvarlegt ofnæmi.

Viss áhætta felst í því að gangast undir LASIK, líkt og gildir um allar aðgerðir. Það er mjög mikilvægt að þú fáir góðar upplýsingar um áhætturnar áður en þú ferð í aðgerðina. Ef árangur aðgerðarinnar er ekki eins og búist var við eftir aðgerð er hugsanlegt að það þurfi að framkvæma viðbótarlaseraðgerð á því auga (endurmeðferð). Líkurnar á því eru um 10-15%. Líkurnar aukast nokkuð ef um mikinn sjónlagsgalla er að ræða, en eru talsvert minni ef viðkomandi er með lítinn sjónlagsgalla.

MIKILVÆGT: Fólk eldra en 35 ára sem þarf ekki á lesgleraugum að halda við lestur, gæti þurft þess eftir sjónlagsaðgerð. Lítill hluti fólks sem gengst undir sjónlagsaðgerð þarf á fjarlægðargleraugum að halda við vissar aðstæður, svo sem að keyra í rökkri.

ENN OG AFTUR: Ellifjarsýni er ekki læknanleg með LASIK, þar sem ellifjarsýni orsakast af hörðnun á augasteininum, en er ekki vegna hornhimnugalla. Fólk þarf því oftast áfram að nota lesgleraugu, nema ef stefnt er að skiptisjón, þar sem annað augað er lagfært þannig að það sjái vel í fjarska, en hitt augað er lagfært þannig að það sjái vel nærri sér, þ.e. fólk sér í fjarska með öðru auga en skiptir síðan yfir á hitt augað þegar það les.

Þar sem sjónlagsaðgerðir með laser eru tiltölulegar nýjar af nálinni hafa langtímaáhrif þeirra á hornhimnuna ekki verið að fullu rannsökuð. Þær langtímarannsóknir sem gerðar hafa verið hafa sýnt að sjónlag helst vel eftir LASIK og afar sjaldan er þörf á enduraðgerðum ef sjón hefur haldist stöðug í ár eftir aðgerð. Þetta er ólíkt fyrri sjónlagsaðgerðum (t.d. geislalínuskurði eða RK) þar sem sjónin var sveiflukennd og stundum breyttist sjónlag talsvert með tímanum, þannig að fólk varð enn á ný háð gleraugum.

Vefur Sjónlags, lasik.is