Langvarandi Verkir

INNGANGUR

 

Verkjateymi hefur verið starfandi hér á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ) til margra ára og hafa fjölmargir einstaklingar með langvarandi verki notið góðs af þjónustu þess. Haustið 2000 varð breyting á meðferð verkjasjúklinga á HNLFÍ þar sem verkjateymið lagði út í stefnumótandi vinnu. Hugmyndin byggir á þeirri reynslu og rannsóknum sem sýna að fólk með langvarandi verkjavandamál fari smám saman inn í vítahring sem erfitt er að komast út úr af sjálfsdáðum. Verkjateymið leggur því áherslu á að aðstoða skjólstæðingana við að rjúfa vítahringinn og ná tökum á vandamálunum. Það er því sameiginlegt markmið starfsfólks og skjólstæðinga að bæta andlega og líkamlega heilsu. Hugmyndin er að dvölin hér á Heilsustofnun NLFÍ marki upphafið að breyttum viðhorfum og lífsstíl. Okkar megin markmið er að kenna fólki að finna jafnvægi milli hreyfingar og slökunar, efla líkamsvitund sína og bæta beitingu líkamans. Þannig eykst úthald í daglegu lífi en það er forsendan fyrir að fólk geti einnig gert skemmtilega hluti eftir að vinnudeginum lýkur. Við höfum einnig að markmiði að aðstoða fólk við að leita sér hjálpar við öðrum vandamálum sem ef til vill eru fyrir utan starfssvið okkar sem störfum í verkjateyminu. Þegar litið er á einstaklinginn í heild er oft hægt að greina vandamál og benda á leiðir til að leita lausna.

HUGSANLEGAR ORSAKIR OG AFLEIÐINGAR LANGVARANDI VERKJA

 

Langvinnir verkir eru þekkt vandamál sem margir kannast vel við. Upphaflegu orsakirnar geta verið mismunandi, oft afleiðingar slysa eða sjúkdóma sem leiða til langvinnra verkja. Stundum fær fólk verki án þess að um áverka hafi verið að ræða heldur getur skýringin legið í of miklu eða röngu líkamlegu álagi, eða andlegu álagi. Verkir geta einfaldlega komið smám saman og versnað eftir því sem tíminn líður.

Flestir þeir sem þjást af langvarandi verkjum draga verulega úr líkamsþjálfun eða hætta henni algerlega um lengri eða skemmri tíma. Þegar fólk dregur úr hreyfingu verða áhrifin keðjuverkandi. Oftast er það þannig að ef sárt er að hreyfa sig hættir maður að hreyfa sig. Það eru eðlileg viðbrögð líkamans að koma sér undan verkjum en hreyfingaleysi sem af því hlýst getur komið af stað enn meiri vandamálum. Með tímanum dregur úr þoli og þreki einstaklingsins gagnvart líkamsþjálfun en samtímis minnkar getan til að stunda vinnu innan heimilis sem utan. Margir hætta jafnvel að stunda félagslíf og tómstundaiðju því orkan er hreinlega uppurin þegar starfsdeginum lýkur.

Því lengur sem verkirnir vara verða þeir verulega hamlandi og fólk treystir sér ver til að gera flest það sem áður þótti lítið mál. Margir finna fyrir kvíða vegna minnkandi getu á ýmsum sviðum sem stækkar vandamálið. Það getur síðan leitt til svefntruflana og þar af leiðandi enn meiri þreytu og verkja. Þannig hafa langvarandi verkir einnig með tímanum neikvæð áhrif á andlega líðan sem ennfremur ýtir undir minnkandi félagslega og atvinnulega þátttöku.

Fólk getur í raun einnig þróað með sér langvarandi verkjavandamál í kjölfar ýmiss konar áfalla eða langvarandi streitu sem oft dregur úr löngun eða getu fólks til að viðhalda heilbrigði sínu.

FORSENDUR TIL BETRA LÍFS

 

Þreyta, streita og langvarandi verkir hafa í flestum tilfellum með tímanum áhrif á líkamsstöðu fólks sem leiðir til óþarfa álags á mörg liðamót. Spenna myndast í vöðvum í mjóhrygg og hálsi sem, ásamt breyttri stöðu liða, veldur truflun á blóðrás á þau svæði sem aftur getur viðhaldið eða aukið verkina. Mikilvægt er að leiðrétta stöðuna til að koma í veg fyrir enn stærri vandamál seinna meir svo sem slitgigt í hnjám, mjöðmum og hrygg.

Til að fólk með langvarandi verki geti snúið blaðinu við er nauðsynlegt að komast aftur af stað í líkamsþjálfun. Margir sem það reyna lenda hins vegar í vandræðum því ekki er víst að sú þjálfun sem í boði er á líkamsræktarstöðvum landsins henti þeim. Allt of algengt er að fólk byrji að æfa en gefst upp og sumir gera jafnvel margar tilraunir áður en þeir endanlega gefa þjálfun upp á bátinn. Ein ástæðan er sú að líkamsástand viðkomandi er þannig að jafnvel léttustu tímarnir í leikfimi reynast of erfiðir. Margir fá þau skilaboð frá læknum og öðrum starfsmönnum heilbrigðiskerfisins „að fara út að ganga“. Heilshugar má taka undir þær ráðleggingar því ganga er tvímælalaust hreyfing sem hentar flestum, þarf lítinn búnað og ekki þarf að kaupa kort á dýra líkamsræktarstöð. Hins vegar er algengt að heyra fólk með langvinna verki kvarta yfir að verkirnir versni við göngu. Oft er ástæðan tengd líkamsstöðu viðkomandi því hætt er við að göngulagið sé einnig brenglað. Þegar svo er komið vantar í raun fjöðrun í göngulagið og viðkomandi heldur spennunni í mjóhryggjarvöðvunum í stað þess að slaka á. Með því að halda spennunni í vöðvunum vantar þau jákvæðu áhrif á bakið sem gangan getur gefið. Má þar meðal annars nefna eðlilega hreyfingu á liðina og spennu og slökun til skiptis í vöðvana sem örfar blóðrásina. Til að geta breytt líkamsstöðu sinni og líkamsbeitingu við dagleg störf og þar með talið göngulagi þarf fyrst að efla líkamsvitund viðkomandi.

Líkamsv itund þýðir til dæmis að geta gert greinarmun á því hvort vöðvi er spenntur eða afslappaður og hvort liðamót eru í slakri eða læstri stöðu. Einnig að finna mun á verk annars vegar og spennu eða þreytu hins vegar. Líkamsvitund nær einnig yfir hina andlegu líðan því ef til dæmis um kvíða er að ræða kemur það oft fram í spenntum vöðvum, gjarnan á háls og herðasvæði sem oft leiðir til höfuðverkja. Þegar merki um kvíða finnast er hægt að beita aðferðum til að stjórna kvíðanum og þar með spennuástandinu í líkamanum og vinna þannig á móti afleiðingunum sem í þessu tilfelli væru höfuðverkir. Það er því mikilvægt fyrir fólk í þessari aðstöðu að efla líkamsvitund sína og læra að leita eftir þægilegri, slakri og áreynslulítilli stöðu þar sem liðir og vöðvar eru í jafnvægi.

Samhliða nauðsynlegri líkamsþjálfun þarf fólk að taka á öðrum vandamálum sem upp hafa komið. Þau vandamál eru vissulega einstaklingsbundin og þurfa því mismunandi meðferðarúrræði. Vandamálin geta tengst geðheilsu viðkomandi, því ekki er óalgengt að fólk finni fyrir kvíða og/eða þunglyndi eftir svo miklar hremmingar. Einnig geta komið upp ýmis félagsleg vandkvæði sem vinna þarf á. Sumir þurfa að huga að breyttum starfsvettvangi og svo mætti lengi telja. Fólkið á það þó sameiginlegt að einhvers konar uppgjörs er þörf.

 

VERKJATEYMI HNLFÍ

 

Verkjateymið saman stendur af hópi fagfólks sem allt hefur margra ára reynslu og sumir sérþekkingu á langvarandi verkjatengdum vandamálum. Í teyminu starfa læknir, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, íþróttakennari og sálfræðingur.

HUGMYNDAFRÆÐI VERKJATEYMIS HNLFÍ

 

Verkjateymið hefur um tvær leiðir að velja þegar sjúklingur með langvarandi verkjavandamál knýr dyra á Heilsustofnun. Annars vegar er um að ræða hópmeðferð og hins vegar einstaklingsmiðaða meðferð. Hugmyndafræðin er þó sú sama og byggist á takmörkun á einstaklingsbundinni verkjameðferð þar sem flestir sem til okkar leita hafa þegar leitað sér hjálpar hjá hefðbundnum heilbrigðisstarfsmönnum en einnig margir leitað óhefðbundinna lækninga. Margir hafa reynt sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálarstungur, andalækningar, lyfjameðferðir, sprautur, deyfingar, mataræðisbreytingar, segularmbönd, líkamsrækt og svo mætti lengi telja. Vissulega hafa ofangreindar aðferðir hjálpað fólki ýmist ein aðferð sér eða fleiri saman. Hins vegar kemur nokkuð stór hópur fólks á Heilsustofnun NLFÍ sem ekki hefur fengið bata af því sem í boði er en fyrir því geta legið margar ástæður til grundvallar. Margir hafa dottið út af vinnumarkaðnum, stuðningur fjölskyldu er oft takmarkaður og vandamálin hafa hlaðist upp. Þegar svo er komið dugar einfaldlega ekki að hitta meðferðaraðila tvisvar til þrisvar í viku eins og algengt er heldur þarf að rjúfa vítahringinn og taka á mörgum þáttum samtímis. Með því að fara í burtu frá öllu saman um tíma gefst viðkomandi aðila tækifæri til að líta á vandamálin úr fjarlægð og oft finnast þá lausnir í leiðinni. Verkjameðferðin byggir á breyttum áherslum og er þar verið að beina sjónum fólks inn á nýjar brautir þar sem fólk lærir að bera ábyrgð á eigin heilsu með aðferðum sem það getur sjálft stundað í stað þess að ætla að fá „lækningu“ hjá öðrum.

HÓPMEÐFERÐIN

 

Nánast öll meðferðin fer fram í hóp þar sem áhersla er lögð á fræðslu, þjálfun og slökun. Stundaskráin er þannig saman sett að sem best jafnvægi náist milli þessara þátta. Þó veita sjúkraþjálfarar ráðgjöf á einstaklingsgrunni. Viðtöl eru veitt af hjúkrunarfræðingum, lækni eða sálfræðingi ef þurfa þykir. Ekki er um einstaklingsmiðaða verkjameðferð að ræða heldur er lögð áhersla á að læra inn á sjálfan sig, virða eigin takmarkanir og breyta viðhorfum gagnvart sínum krankleika.

Umræðufundum er stýrt af hjúkrunarfræðingum og lækni teymisins. Tekin eru fyrir ákveðin umræðuefni og gefst fólki kostur á að skiptast á skoðunum og miðla af reynslu sinni. Fólk fær stuðning af að hitta aðra sem eiga við svipuð vandamál að stríða. Það er afar mikilvægt að vita að það eru fleiri í svipaðri aðstöðu. Það er margt hægt að læra af reynslu annarra en eitt af því sem margir upplifa er skilningsleysi frá samfélaginu og jafnvel sínum nánustu.

Fræðsla er í formi fyrirlestra sem fluttir eru af hjúkrunarfræðingum, læknum, sjúkraþjálfurum og sálfræðingi og eru um ýmis málefni. Er þar meðal annars talað um andlega líðan, svefnvandamál, þjálfun, verki og slökun. Fólkið tekur einnig þátt í bak- og verkjaskóla. Þar eru kennd grundvallaratriðin í lið-, vöðva- og blóðrásarfræðum í þeim tilgangi að einstaklingurinn skilji sem best þá áherslu sem lögð er á bætta líkamsvitund og líkamsbeitingu. Síðan er rætt um og æfðar mismunandi líkamsstöður og kenndar æfingar sem stuðla að bættri líkamsbeitingu. Einnig er farið í vinnutilhögun og val á stólum, rúmum og fleiru. Einnig er farið inn á andlegar og líkamlegar orsakir og afleiðingar vöðvaspennu og það sem henni fylgir. Einnig eru kenndar styrkjandi og liðkandi æfingar fyrir bak og kviðvöðva.

Sérstakt námskeið er í líkamsvitund þar sem fólki er kennt að hlusta á líkamann, finna hvernig örlítil breyting á þyngdarpunkti eða líkamsstöðu getur haft áhrif á spennu í vöðvum og álag á liði og jafnframt minnkað eða aukið verki. Margir hafa kvartað yfir að geta ekki nýtt sér gönguferðir vegna verkja en eftir örfáa tíma í líkamsvitund hafa margir getað breytt göngulaginu þannig að unnið er með liði og vöðva í hagstæðari stöðu og þar af leiðandi minnkar spenna og verkir. Bakskóli og líkamsvitund eru kennd af sjúkraþjálfurum teymisins.

Slökunarþátturinn er margþættur. Ýmsar slökunaraðferðir eru kynntar í hóptímum, hægt er að hlusta á slökunarspólur í hátalarakerfi og taka þátt í hugleiðslustund að morgni dags. Auk þess er boðið upp á slökunarböð eða leirböð sem einnig hafa slakandi áhrif. Hugmyndin er að fólk geti prófað mismunandi aðferðir og tekið svo með sér heim það sem best hentar til að stunda áfram.

Þrátt fyrir að fólk sem kemur inn í verkjahóp sé á mismunandi aldri og hafi mismunandi hreyfigetu fara allir í sömu íþróttatímana. Á stundaskránni er ganga sem þó er á fjórum mismunandi stigum, háls- og herðaleikfimi og vatnsleikfimi. Lögð er rík áhersla á að byrja rólega og að finna mörkin sín sjálfur. Það þýðir að fólk getur fylgt tímunum en samt unnið á því álagi sem því hentar. Eru það íþróttakennarar sem sjá að mestu leiti um þennan þátt meðferðarinnar.

Þess má geta að við leggjum mikla áherslu á að fólk hvíli sig og þá sérstaklega í byrjun dvalar því að of mikil meðferð er ekki endilega leið til árangurs. Oft er betra að byrja rólega og er það álit þeirra sem hafa verið þátttakendur í verkjahóp að fyrstu tvær vikurnar hafi reynst erfiðar. Það er margt nýtt að gerast og það tekur tíma að aðlagast. Eftir það er lífið á Heilsustofnun auðveldara og þegar líður undir lok dvalar er fólk tilbúið að leggja fram drög að framhaldinu. Við leggjum ríka áherslu á að fólk finni sér hreyfingu sem því þykir gaman að stunda og hefur ánægju af.

EINSTAKLINGSMIÐUÐ MEÐFERÐ

 

Gengið er út frá sömu hugmyndafræðinni og við meðferð í verkjahóp og er einstaklingsmiðuð verkjameðferð því veitt í lágmarki. Í einstaka tilfellum er þó ekki hægt að komast hjá því að veita slíka meðferð og er þá fólk sett á svo kallaða verkjalínu. Nákvæmlega hvers konar einstaklingsmeðferð er þá veitt er metið af lækni og sjúkraþjálfara teymisins sem vinna náið saman að því að setja fólk í það prógram sem best á við.

Að hluta til er meðferðin svipuð og í verkjahóp. Á stundaskránni er ganga, háls- og herðaleikfimi og vatnsleikfimi. Einnig er bakskóli og að hluta til sömu fyrirlestrarnir og í verkjahóp. Einnig eru sömu slökunaraðferðirnar kenndar en þó eru ákveðnar aðferðir eingöngu kenndar í verkjahóp. Hvorki er boðið upp á umræðufundi né námskeið í líkamsvitund. Hins vegar er boðið upp á tíma í Tai Chi Quan sem er kínversk leikfimi og hentar gjarnan fólki með vandamál út frá liðum og vöðvum.

HVERJUM HENTAR MEÐFERÐIN?

 

Hópmeðferð hentar fólki á vinnufærum aldri sem er tilbúið að taka á sínum andlegu og líkamlegu vandamálum í hópi 8 til 10 einstaklinga með svipuð vandamál. Miðað er við að fólk sé búið að reyna einstaklingsmiðuð meðferðarúrræði og er tilbúið að sleppa þeim meðan á dvöl stendur. Þess má gjarnan geta að margir þeir sem tekið hafa þátt í prógraminu hafa átt erfitt með að sjá fyrir sér að sleppa nuddi, sjúkraþjálfun eða annars konar meðferð meðan á dvöl stendur og hafa varla getað hugsað sér það. Það hefur hins vegar gengið vel í flestum tilfellum vegna þess að nálgunin er önnur. Fólk áttar sig á því að oft er slík meðferð mjög tímabundin lausn og fleytir fólki áfram milli tíma en það fer gjarnan í sama farið aftur. Vissulega tökum við í taumana ef um áberandi versnun er að ræða. Meðferðin er tvískipt og tekur fyrri hlutinn 31 dag en seinni hlutinn eina viku sem fer fram um það bil hálfu ári síðar.

Einstaklingsmiðuð meðferð hentar einnig fólki á vinnufærum aldri sem getur einhverra hluta vegna ekki nýtt sér hópmeðferðina. Má þar nefna fólk með langvarandi verki út frá hrygg sem að mati læknis og sjúkraþjálfara teymisins þarf einstaklingsbundna verkjameðferð. Fólk með langvarandi verki og óuppgerð slysamál. Verkjafólk sem búið er að taka þátt í verkjahóp. Fólk sem enn þarf einstaklingsmiðaða meðferð í kjölfar bakaðgerða, svo sem vegna brjóskloss, mænuþrenginga, spengingu eða annarra aðgerða. Þó þarf að vera liðinn sá tími sem nauðsynlegur er fyrir gróanda og miðað við að fólk geti tekið þátt í fræðslu sitjandi á stól, oftast um 4-6 vikur frá aðgerð. Tímalengd þessarar meðferðar er einnig einstaklingsmiðuð en lang oftast er miðað við fjórar vikur.

MAT Á ÁRANGRI

 

Árangur hópmeðferðar hefur verið mældur frá því í september 2000. Í upphafi og lok dvalar taka sjúkraþjálfarar þol og þrekpróf. Notað er sex mínútna þolpróf á þrekhjóli. Úthald í neðri útlimum er mælt með að fólk tyllir lærum & aacute; stól og réttir úr aftur eins oft og það getur á einni mínútu. Úthald í efri útlimum er mælt með að lyfta handleggjum beinum frá bol og upp í 150° beygju í öxl eins oft og það getur í eina mínútu. Jafnvægi er mælt með að standa á öðrum fæti mest í eina mínútu, fyrst á öðrum fæti svo á hinum. Einnig merkir fólk verkina sína inn á líkamsmynd þar sem notaðar eru tölurnar 0, sem er enginn verkur, til 10, sem er mesti hugsanlegi verkur. Til mælinga er notaður fjöldi merktra punkta og síðan tekið meðaltal af styrk punktanna. Einnig merkir fólk inn á 10 sentimetra langa línu þar sem spurt er um magn verkjanna þegar á heildina er litið. Einnig er prófið Heilsutengd Lífsgæði lagt fyrir í upphafi og lok dvalar. Þetta próf mælir tólf þætti sem hafa áhrif á heilsuna og eru þau notuð til að vinna með andlega og félagslega heilsu fólks. Þegar heilbrigðir einstaklingar svara spurningalistanum ættu svörin að liggja í kringum 50 (sjá Töflu 1.) þar sem það er normalgildi þegar búið er að leiðrétta fyrir aldri og kyni. Eðlilegt er að svörin liggi á bilinu 40-60 þar sem eitt staðalfrávik er 10. Ef einstaklingur er kominn út fyrir þetta bil getum við talað um óeðlilega svörun.

NIÐURSTÖÐUR MÆLINGA Í BYRJUN OG LOK DVALAR

 

Próf og svör 36 einstaklinga liggja til grundvallar þeim niðurstöðum sem fram koma hér. Meðalaldur þeirra var 49 ár (30-63 ára). Sjá má á Töflu 1 hvernig kvarðinn Heilsutengd Lífsgæði kom út hjá þessum 36 einstaklingum í byrjun og í lok dvalar á Heilsustofnun. Allar mælingarnar sýndu marktækan mun. Athygli vekur þó hversu lágar tölurnar eru í byrjun dvalar. Aðeins fjárhagur nær því að vera innan eðlilegra marka og svefn er á mörkunum. Allir aðrir þættir eru langt undir eðlilegum mörkum sem sýnir hversu illa staddir þessir einstaklingar eru. Við sjáum mun betra ástand í lok dvalar og eru þar nokkrir þættir sem eru vel innan eðlilegra marka. Tafla 2 sýnir niðurstöður mælinga á þoli, þreki og jafnvægi sömu einstaklinga. Fyrsta súluparið sýnir úthaldsmælingu efri útlima, annað parið sýnir úthaldsmælingu neðri útlima, fjórða og fimmta sýna jafnvægi á hægra og vinstra fæti og það síðasta sýnir þolprófið. Marktækur munur mældist á úthaldi efri og neðri útlima og á jafnvægi á vinstra fæti. Ekki var marktækur munur á þeim hægri og ekki heldur á þolprófinu. Þess má geta að einn mánuður er oftast of stuttur tími til að sjá marktækan mun á þoli. Tafla 3 sýnir mælingar á verkjum og tölfræðilega marktækur munur kom fram á öllum mælingunum.

NÐURSTÖÐUR MÆLINGA 6 MÁNUÐUM EFTIR DVÖL

 

Sendir eru út spurningalistar til allra þátttakenda í verkjahópum 6 mánuðum og 2 árum eftir dvöl. Sem stendur höfum við svör 16 einstaklinga 6 mánuðum eftir dvöl en ekki nóg til að mæla eftir 2 ár. Meðalaldur svarendanna 16 er 51 ár (33-62 ára). Tafla 4 sýnir Heilsutengd Lífsgæði í byjun dvalar, í lok dvalar og 6 mánuðum eftir dvöl. Marktækur munur er á Lífsgæðum í lok dvalar miðað við komu og sá munur helst 6 mánuðum síðar.

Tafla 5 sýnir styrk verkjanna þegar á heildina er litið og er mælt á 10 sentimetra langri línu. Í byrjun er styrkur að meðaltali 6.9 á skalanum 0-10 en lækkar niður í 4.1 í lok dvalar. 6 mánuðum síðar hefur styrkurinn aukist aftur upp í 5.8. Töflur 6 og 7 sýna fjölda verkjapunkta og meðaltal á styrk verkjanna í byrjun dvalar, í lok dvalar og 6 mánuðum síðar. Punktum sem merktir eru inn á mynd fækkar úr 15.6 niður í 9.5 en fjölgar síðan aftur í 13.2 eftir 6 mánuði. Í byrjun er meðaltal á styrk verkjanna 6.2, 3.7 í lok dvalar og 5.4 eftir 6 mánuði. Þrátt fyrir að ekki mælist alls staðar marktækur munur eftir 6 mánuði má sjá á Töflum 4, 5, 6 og 7 að í engum mælingum var ástand orðið eins slæmt og það hafði verið í byrjun dvalar.

Mynd 1 sýnir dæmi um einstakling sem merkir verkina sína inn á mynd í byrjun og lok dvalar og 6 mánuðum síðar. Tafla 8 sýnir lyfjanotkun eftir dvöl á HNLFÍ og má þar sjá að 9 einstaklingar af 16 notuðu engin lyf. Spurt var um hvort fólk hafi fengið einhverjar verkjameðferðir á þessum 6 mánuðum og sögðust 5 hafa farið eitthvað í sjúkraþjálfun, 3 höfðu fengið sprautur, aðrir 3 höfðu farið í nudd og einn hafði farið í meðferð hjá sálfræðingi. Þessar tölur koma fram í Töflu 9. Spurt var um hversu mikið fólk hafði nýtt sér hreyfingu og slökun eftir dvölina og koma niðurstöðurnar fram í Töflu 10. Allir einstaklingarnir héldu áfram að stunda einhvers konar hreyfingu eftir að dvölinni lauk og 11 af 16 notuðu einhverja tegund af slökun. Einnig var spurt um atvinnuþátttöku og voru flestir í sama hlutfalli og áður en 2 höfðu minnkað við sig og 2 höfðu aukið við sig. Þetta kemur fram í Töflu 11. Tafla 12 sýnir samantekt á árangursmælingunum. Þar kemur fram að mærktækur munur var á nokkrum þáttum bæði í lok dvalar og 6 mánuðum eftir dvölina. Má þar nefna heilsufar, einbeitingu, depurð, þrek, verki, sjálfsstjórn og lífsgæði. Marktækur munur mældist á kvíða, líkamsheilsu, líðan, styrk verkja þegar mælt á línu, fjölda verkjapunkta og styrk verkja í lok dvalar en ekki 6 mánuðum síðar. Ekki mældist marktækur munur á samkiptum, fjárhag og svefni.

LOKAORÐ

 

Þegar kona ein var spurð í lok dvalar hvað hún ætlaði sér svo að gera þ egar heim kæmi sagðist hún ætla að hætta í líkamsrækt. Það kom nú dálítið á okkur sjúkraþjálfarana og íþróttakennarana en hún sagði í framhaldinu að henni þætti leiðinlegt að æfa í tækjasal. Í hennar huga var það líkamsrækt en hún vildi heldur fara í sund og út að ganga auk þess sem hún ætlaði að gera bakskólaæfingarnar. Þarna var hún búin að átta sig á því að það væri vænlegra til árangurs að gera það sem henni þótti gaman að og því líklegra að hún gæti gert þjálfunina að skemmtilegu viðfangsefni. Ég læt þetta verða mín lokaorð og vona að fólk með langvarandi verki finni hjá sér hvatningu til að leita sér leiða til betri lífsgæða.

Höfundur:

Sigrún Vala Björnsdóttir, M.Sc. sjúkraþjálfari

Heilsustofnun NLFÍ, Hveragerði

 

Starfsmenn í verkjateymi HNLFÍ:

Bridget Ýr McEvoy, hjúkrunarfræðingur; s. 483 0327, tölvupóstur: bee@hnlfi.is

Dröfn Guðbjörnsdóttir, íþróttakennari, s. 483 0333, tölvupóstur: drofn@hnlfi.is

Hulda Sigurlína Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur, s. 483 0327, tölvupóstur: hulda@hnlfi.is

Íris Judith Svavarsdóttir, sjúkraþjálfari, s 483 0333, tölvupóstur: iris@hnlfi.is

Kristján G. Guðmundsson, læknir, s. 483 0321, tölvupóstur: kristgud@hnlfi.is

Sigrún Vala Björnsdóttir, sjúkraþjálfari, s. 483 0333, tölvupóstur: svala@hnlfi.is

 

Töflur og fylgiskjöl: