Langvarandi og útbreiddir stoðkerfisverkir – er til raunhæf lausn?

Verkjalína hefur verið starfrækt á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ) til margra ára og hafa fjölmargir einstaklingar notið góðs af. Haustið 2000 varð breyting á meðferð verkjasjúklinga á HNLFÍ þar sem verkjalínuteymið lagði út í stefnumótandi vinnu. Hugmyndin byggir á þeirri reynslu og rannsóknum sem sýna að fólk með langvarandi verkjavandamál fari smám saman inn í vítahring sem erfitt er að komast út úr af sjálfsdáðum. Verkjalínuteymið leggur því áherslu á að aðstoða skjólstæðingana við að rjúfa vítahringinn og ná tökum á vandamálunum. Það er því sameiginlegt markmið starfsfólks og skjólstæðinga að bæta andlega og líkamlega heilsu.

Breyttur lífsstíll

Hugmyndin er að dvölin hér á Heilsustofnun NLFÍ marki upphafið að breyttum viðhorfum og lífsstíl. Okkar megin markmiðið er að kenna fólki að finna jafnvægi milli hreyfingar og slökunar, efla líkamsvitund sína og bæta beitingu líkamans. Þannig eykst úthald í daglegu lífi en það er forsendan fyrir að fólk geti einnig gert skemmtilega hluti eftir að vinnudeginum lýkur. Við höfum einnig að markmiði að aðstoða fólk við að leita sér hjálpar við öðrum vandamálum sem ef til vill eru fyrir utan starfssvið okkar sem störfum á verkjalínunni. Þegar litið er á einstaklinginn í heild er oft hægt að greina vandamál og benda á leiðir til að leita lausna.

Hverjir hafa gagn af meðferðinni?

Þeir sem helst hafa gagn af meðferð á verkjalínu er fólk á vinnufærum aldri með langvarandi stoðkerfisverki. Verkir og önnur einkenni geta verið af ýmsum þekktum eða óþekktum ástæðum en oft er upphafleg orsök einkenna ekki lengur til staðar þó verkir haldi áfram. Fólk á það sameiginlegt að vera búið að þjást lengi og flestir eru þegar búnir að leita sér hjálpar hjá hefðbundnum heilbrigðisstarfsmönnum en einnig margir leitað óhefðbundinna lækninga. Margir hafa reynt sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálarstungur, andalækningar, lyfjameðferðir, sprautur, deyfingar, mataræðisbreytingar, segularmbönd, líkamsrækt og svo mætti lengi telja. Vissulega hafa ofangreindar aðferðir hjálpað fólki ýmist ein aðferð sér eða fleiri saman. Hins vegar kemur nokkuð stór hópur fólks á Heilsustofnun NLFÍ sem ekki hefur fengið bata af því sem í boði er en fyrir því geta legið margar ástæður til grundvallar. Margir hafa dottið út af vinnumarkaðnum, stuðningur fjölskyldu er oft takmarkaður og vandamálin hafa hlaðist upp. Þegar svo er komið dugar einfaldlega ekki að hitta meðferðaraðila tvisvar til þrisvar í viku eins og algengt er heldur þarf að rjúfa vítahringinn og taka á mörgum þáttum samtímis. Með því að fara í burtu frá öllu saman um tíma gefst viðkomandi aðila tækifæri til að líta á vandamálin úr fjarlægð og oft finnast þá lausnir í leiðinni. Verkjalínan byggir á breyttum áherslum og er þar verið að beina sjónum fólks inn á nýjar brautir þar sem fólk lærir að bera ábyrgð á eigin heilsu með aðferðum sem það getur sjálft stundað í stað þess að ætla að fá „„lækningu“ hjá öðrum.

Uppbygging meðferðarinnar

Hópmeðferðir eru meginuppistaða meðferðar á verkjalínu þar sem áhersla er lögð á fræðslu, þjálfun og slökun. Reynt er að setja stundaskrána þannig saman að sem best jafnvægi sé milli þessara þátta. Á umræðufundum eru tekin fyrir ákveðin efni en þar gefst fólki kostur á að skiptast á skoðunum og miðla reynslu sinni. Fólk fær stuðning af að hitta aðra sem eiga við svipuð vandamál að stríða og það er afar mikilvægt að vita að það eru fleiri í svipaðri aðstöðu. Það er margt hægt að læra af reynslu annarra en eitt af því sem margir upplifa er skilningsleysi frá samfélaginu, jafnvel sínum nánustu. Umræðufundunum er stýrt af hjúkrunarfræðingum og lækni teymisins.

Fræðsla

Fræðsla er í formi fyrirlestra sem fluttir eru af hjúkrunarfræðingum, læknum og sjúkraþjálfurum og eru um ýmis málefni. Er þar meðal annars talað um andlega líðan, svefnvandamál, þjálfun, verki og slökun.

Fólkið tekur einnig þátt í bak- og verkjaskóla. Þar eru kennd grundvallaratriðin í lið-, vöðva- og blóðrásarfræðum með þeim tilgangi að einstaklingurinn skilji sem best þá áherslu sem lögð er á bætta líkamsvitund og líkamsbeitingu. Síðan er rætt um og æfðar mismunandi líkamsstöður og kenndar æfingar sem stuðla að bættri líkamsbeitingu. Einnig er farið í vinnutilhögun og val á stólum, rúmum og fleiru. Einnig er farið inn á andlegar og líkamlegar orsakir og afleiðingar vöðvaspennu og það sem henni fylgir. Í lok hvers tíma eru gerðar styrkjandi og liðkandi æfingar fyrir bak og kviðvöðva. Sérstakt námskeið er í líkamsvitund þar sem fólki er kennt að hlusta á líkamann, finna hvernig örlítil breyting á þyngdarpunkti eða líkamsstöðu getur minnkað spennu í vöðvum og álag á liði og jafnframt minnkað verki. Margir hafa kvartað yfir að geta ekki nýtt sér göngutúra vegna verkja en eftir örfáa tíma í líkamsvitund hafa margir getað breytt göngulaginu þannig að unnið er með liði og vöðva í hagstæðari stöðu og þar af leiðandi mi nnkar spenna og verkir. Bakskóli og líkamsvitund eru kennd af sjúkraþjálfurum teymisins.

Einstaklingsmeðferð hjá sjúkraþjálfara felst í vikulegum viðtölum, ráðgjöf og einstaklingsmiðaðri líkamsþjálfun. Stuðningsviðtöl hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni eru veitt eftir þörfum. Ekki er um einstaklingsmiðaða verkjameðferð að ræða heldur er lögð áhersla á að læra inn á sjálfan sig og breyta viðhorfum gangvart sínum krankleika.

Slökun

Slökunarþátturinn er margþættur. Ýmsar slökunaraðferðir eru kynntar í hóptímum, hægt er að hlusta á slökunarspólur í hátalarakerfi og taka þátt í hugleiðslustund að morgni dags. Auk þess er boðið upp á slökunarböð eða leirböð.

Hreyfing

Hreyfing er sett inn á stundaskrána í samræmi við getu hvers og eins en flestir fara í gönguferðir, vatnsleikfimi, háls og herðaleikfimi og í tækjasal. Þó er lögð rík áhersla á að byrja rólega og að finna mörkin sín sjálfur. Eru það íþróttakennarar sem sjá að mestu leyti um þennan þátt meðferðarinnar.

Mat á árangri

Frá því í haust hefur verið unnið að aðferðum til að mæla árangur meðferðarinnar. Sú vinna er enn í fullum gangi en nokkur próf hafa verið í notkun frá áramótum og hafa sjúkraþjálfarar unnið að þeim og lagt þau fyrir. Í upphafi og lok dvalar taka sjúkraþjálfarar þol og þrekpróf. Notað er sex mínútna þolpróf á þrekhjóli. Úthald í neðri útlimum er mælt með að fólk tyllir lærum á stól og réttir úr aftur eins oft og það getur á einni mínútu. Úthald í efri útlimum er mælt með að lyfta handleggjum beinum frá bol og upp í 150° beygju í öxl eins oft og það getur í eina mínútu. Jafnvægi er mælt með að láta standa á öðrum fæti mest í eina mínútu, fyrst á öðrum fæti svo á hinum. Einnig merkir fólk verkina sína inn á líkamsmynd þar sem notaðar eru tölurnar 0, sem er enginn verkur, til 10, sem er mesti hugsanlegi verkur. Til mælinga er notaður fjöldi merktra punkta og síðan tekið meðaltal af styrk punktanna. Einnig merkir fólk inn á 10 sentimetra langa línu þar sem spurt er um magn verkjanna þegar á heildina er litið.

Árangur sjö einstaklinga

Sjö þeirra einstaklinga sem hafa lokið dvöl sinni á verkjalínu hafa gengist undir ofangreind próf. Aðeins er hægt að birta hér meðaltalstölur enda eru þær unnar úr gögnum frumrannsóknar sem ekki er komið á það stig að heita vísindaleg rannsókn. Tölurnar geta gefið okkur vísbendingar um árangurinn og er fróðlegt að sjá hve úthald í neðri og efri útlimum hefur aukist á tiltlölulega stuttum tíma eða um 30% í efri útlimum og 43% í þeim neðri (sjá Töflu 1.) Ekki sést breyting á þolprófstölum nema í tveimur tilvikum enda um of stuttan tíma að ræða til að sjá marktækan mun. Allir bættu sig í að standa á öðrum fæti. Þegar litið er á verkjamatið (sjá Töflu 2.) má einnig sjá tölur sem lofa góðu. Þannig má sjá að fjöldi punkta sem merkt er inn á myndina eru 5,4 færri í lok dvalar miðað við komu. Styrkur verkjanna á skalanum 0-10 er að meðaltali 3,3 minni í lokin miðað við komu. Þegar spurt var um magn verkja á skalanum 0-10 þegar á heildina er litið minnkaði meðaltalið úr 6,2 í 2,0 eða um 4,2 sem verður að teljast verulegur árangur. Þessar frumniðurstöður eru mjög hvetjandi fyrir okkur til að halda áfram þróunarvinnunni.

Tafla 1. Úthald í efri og neðri útlimum

AldurFjöldi daga milli prófaÚthald efri útlima (%)*Úthald neðri útlima (%)*

Meðaltal 51 23,7 30 43
Staðalfrávik 12 3,3 24 33
Minnst 32 18 0 14
Mest 66 29 69 100

* Aukning á fjölda skipta í prósentum

Tafla 2. Verkjamat

Fj.pkt. Byrjun* Fj.pkt. Endir* MeðaltalByrjun** MeðaltalEndir** VASByrjun*** VASEndir***
Meðaltal 10,7 5,3 5,4 2,1 6,2 2,0
Staðalfrávik 6,1 55,3 21,5 1,6 2,0 1,6
Minnst 6 0 3,8 0 3,7 0
Mest 22 15 8,5 5,0 8,5 4

* Fjöldi þeirra punkta sem merktir eru inn á líkamsmynd í upphafi dvalar og í lokin.

** Styrkur þeirra verkja sem merktir eru inn á skalanum 0-10 deilt með fjölda í upphafi dvalar og í lokin.

*** VAS (visual analog scale) er 10 sentimetra löng lína þar sem merkt er eitt strik þar sem spurt er um magn verkja þegar á heildina er litið.

Lokaorð

Þess má í lokin geta að við leggjum mikla áherslu á að fólk hvíli sig og þá sérstaklega í byrjun dvalar því að of mikil meðferð er ekki endilega leið til árangurs. Oft er betra að byrja rólega og er það álit þeirra sem hafa verið þátttakendur á verkjalínu að fyrstu tvær vikurnar hafa reynst erfiðar. Það er margt nýtt að gerast og það tekur tíma að aðlagast. Eftir það er lífið á Heilsustofnun auðveldara og þegar líður undir lok dvalar er fólk tilbúið að leggja fram drög að framhaldinu. Við leggjum ríka áherslu á að fólk finni sér hreyfingu sem því þykir gaman að stunda og hefur ánægju af. Þegar ein konan hjá okkur var spurð í lokin hvað hún ætlaði sér svo að gera þegar heim kæmi sagðist hún ætla að hætta í líkamsrækt. Það kom nú dálítið á okkur sjúkraþjálfarana og íþróttakennarana en hún sagði í framhaldinu að henni þætti leiðinlegt að æfa í tækjasal og hún vildi heldur fara í sund og út að ganga auk þess sem hún ætlaði að gera bakskólaæfingarnar. Þarna var hún búin að átta sig á því að það væri vænlegra til árangurs að gera það sem henni þótti gaman að og því líklegra að hún gæti gert þjálfunina að skemmtilegu viðfangsefni. Ég læt þetta verða mín lokaorð og vona að fólk með langvarandi verki finni hjá sér hvatningu til að leita sér leiða til betri lífsgæða.

Birt með góðfúslegu leyfi Heilsustofnunnar NLFÍ, vefur þeirra er hnlfi.is