Lærðu af mistökum þínum

Þriðja geðorðið fjallar um það að halda áfram að læra svo lengi sem við lifum.  Fjórða geðorðið er um mikilvægasta lærdóminn; það að læra af mistökunum. Það er mikilvægt að átta sig á því að  enginn hefur lofað því að lífið verði auðvelt og alltaf sanngjarnt.  Með því að gera ráð fyrir mótlæti er hægt að vinna sér inn smá forskot og láta það ekki koma sér á óvart þegar mótlæti eða erfiðleikar gera vart við sig. Eins er það með mistökin.  Allir gera einhvern tímann mistök, það er eins gott að sætta sig við það strax.  Enginn er fullkominn og það sem betra er: enginn getur ætlast til þess af okkur að við séum fullkomin.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir sem eru óhamingjusamir þurfa ekki að hafa lent í fleiri áföllum eða gert fleiri mistök en þeir sem eru hamingjusamir. Munurinn á þeim sem ná að verða hamingjusamir og þeim sem ekki ná því er meðal annars hugarfarið og það hvernig þeir takast á við vandamál, erfiðleika og mistök. Þeir sem líta á erfiðleika sem eitthvað sem þeir geta sigrast á og að hægt sé að læra eitthvað af mistökum ná frekar að vinna úr þeim á jákvæðan hátt. Þeir sem líta á erfileika sem ógn og dæma sig harðlega þegar þeir gera mistök leyfa mistökunum að draga sig niður. Ef við bregðumst við mistökum með sjálfsvorkunn, neikvæðni og með því að líta á okkur sem fórnarlamb óblíðra örlaga þá höfum við tapað.

Verum tilbúin til að horfast í augu við það að við gerum mistök – hugsum jákvætt og reynum að finna hvað við getum lært af mistökum okkar.  Ef okkur tekst það þá erum við á góðri leið og náum að gera gott úr mistökunum í stað þess að láta þau draga úr okkur kraftinn. 

 

Frá Landlæknisembættinu