Læknaritari

 • Heiti fagfélags:

  Félag íslenskra læknaritara

 • Stjórn:

  Auður Dúadóttir, formaður
  Hrafnhildur Rafnsdóttir
  Hulda Guðvarðardóttir
  Sif Sigurvinsdóttir
  Kristín Vilhjálsdóttir

  Félag íslenskra læknaritara var stofnað árið 1970. Læknaritarar fengu löggildingu á starfsheiti sínu árið 1986.

  Í félaginu eru starfandi eftirtaldar nefndir:

  Ritnefnd, fræðslu- og skemmtinefnd, kjaranefnd, laganefnd, siðanefnd, skólanefnd og uppstillingarnefnd.

  FÍL er aðili að Samtökum heilbrigðisstétta og á fulltrúa þar. FÍL fulltrúa í Heilbrigðishóp Gæðastjórnunarfélags Íslands. Félagar í FÍL hafa einnig rétt til aðildar að Félagi um heilbrigðislöggjöf.

 • Aðsetur:

  Félag íslenskra læknaritara
  Grettisgötu 89
  101 Reykjavík
  Sími: 525-8340
  Netfang: laeknaritarar@bsrb.is
  Veffang:  http://www.laeknaritarar.sfr.is/
  Skrifstofan er opin á föstudögum frá kl. 14.00 – 16.00

  Félag íslenskra læknaritara var stofnað árið 1970. Læknaritarar fengu löggildingu á starfsheiti sínu árið 1986.

  Í félaginu eru starfandi eftirtaldar nefndir:

  Ritnefnd, fræðslu- og skemmtinefnd, kjaranefnd, laganefnd, siðanefnd, skólanefnd og uppstillingarnefnd.

  FÍL er aðili að Samtökum heilbrigðisstétta og á fulltrúa þar. FÍL fulltrúa í Heilbrigðishóp Gæðastjórnunarfélags Íslands. Félagar í FÍL hafa einnig rétt til aðildar að Félagi um heilbrigðislöggjöf

   

 • Starfssvið (hlutverk):

  Hvað er læknaritari?

  Læknaritari með löggildingu hefur næga faglega þekkingu til að skrá hvers konar læknisfræðilegar skýrslur varðandi sjúkdóma eða slys á fólki.

  Læknaritari er samstarfsmaður lækna í öllum sérgreinum læknisfræðinnar við að útbúa læknisfræðilegar skýrslur sem eru ómetanlegar heimildir varðandi sjúkdóma einstakra sjúklinga og fyrir vísindastörf varðandi sjúkdóma og slys.

  Læknaritari er mikilvægur hlekkur í keðju heilbrigðisstarfsfólks við sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, læknastofur og vísindastofnanir innan læknisfræðinnar.

  Læknaritari þarf að hafa staðgóða þekkingu á líffærafræði, sjúkdómafræði, læknisfræðiheitum, lyfjafræði, læknisfræðilegum aðgerðum og rannsóknum.

  Læknaritari hefur faglega þekkingu og siðfræði að leiðarljósi.

  Læknaritari þarf að þekkja til heilbrigðis- og tryggingalöggjafarinnar, vita um helstu sjúkdóma í nútíma- samfélagi svo og þekktar forvarnir.

  Hvað gerir læknaritari?

  Læknaritari vélritar eftir handriti eða segulbandi læknis sjúkraskýrslur, dagnótur, læknabréf, útskriftir, skoðanir sérfræðinga, aðgerðalýsingar, röntgenlýsingar, dánarvottorð og ýmis vottorð fyrir sjúklinga. Auk þess fyrirlestra, ritgerðir, greinar og önnur atriði vísindalegs eðlis á ensku, íslensku eða norðurlandamálum.

  Læknaritarar hafa umsjón með skráningu sjúkdómsgreininga og aðgerða og að greiningarnúmer séu rétt skráð og þurfa því að þekkja helstu sjúkdómsflokkunarkerfi og aðgerðarflokkunarkerfi.

  Læknaritarar hafa umsjón með spjaldskrám og varðveislu sjúkraskráa og annarra skjala. Þess vegna er þekking á varðveislu upplýsinga, skráningakerfa af ýmsum toga og upplýsingaleit í nútímasamfélagi nauðsynleg.

  Læknaritarar hafa einnig umsjón með umfangsmiklum ársskýrslum um læknisfræðileg efni.

  Læknaritarar starfa víða innan heilbrigðiskerfisins, svo sem á sjúkrahúsum og hinum ýmsu deildum þeirra, t.d. lyflækningadeildum, skurðdeildum, fæðingardeildum, röntgendeildum, geðdeildum, gjörgæsludeildum, göngudeildum sjúkrahúsanna, rannsóknadeildum o.s.frv. Einnig á heilsugæslustöðvum, heimilislæknastofum og stofnunum hins opinbera er fara með stjórnunarmál á heilbrigðissviði.

  Siðareglur læknaritara

  Félag íslenskra læknaritara hefur sett sér eftirfarandi siðareglur:

  Læknaritara er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt hann láti af störfum.

  Læknaritara bera að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og varðveita hæfni sína með námi, sem kann að vera í boði.

  Læknaritari skal stuðla að því af fremsta megni að gögn er varða sjúklinga séu varðveitt á svo traustan hátt að þau verði ekki á vegi óviðkomandi.

 • Menntun:

  Læknaritaranám

  Frá haustinu 1992 hefur Fjölbrautaskólinn við Ármúla/Heilbrigðisskólinn einn skóla séð um menntun læknaritara. Frá upphafi hafa útskrifast u.þ.b. 60 læknaritarar frá skólanum.

  Kennslustjóri: Guðrún Narfadóttir.

  Innökuskilyrði

  Til að hefja nám á læknaritarabraut er krafist stúdentsprófs eða sambærilegrar undirbúningsmenntunar og reynslu. Góð kunnátta í íslensku og ensku er nauðsynleg sem og færni í vélritun. Nýnemar á læknaritarabraut eru teknir inn á haustin.

  Lengd náms og fyrirkomulag

  Nám í læknaritun er 75 einingar og tekur að meðaltali tvö ár. Bóklegt nám er 57 einingar, sem skiptist á þrjár annir. Starfsþjálfun er 18 einingar og fer hún fram eftir aðra námsönn. Læknaritaranemi í bóklegu námi telst lánshæfur hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Fullt námslán miðast við 19 einingar á önn.

  Bóklegt nám

  Bóklegt nám fer fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla/Heilbrigðisskólanum. Kennt er í dagskóla. Flestir áfangarnir eru séráfangar fyrir læknaritaranema en einstaka áfangar eru þó sameiginlegir með nemum á öðrum heilbrigðisbrautum.

 • Starfsþjálfun:

  Starfsþjálfun er 18 einingar og fer fram á sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum undir umsjón löggilts læknaritara. Neminn starfar á þremur mismunandi stöðum, tvo mánuði í senn á hverjum stað. Á starfsþjálfunartímabilinu kynnist neminn öllum verkahring læknaritara og í lok tímabilsins á hann að geta starfað sjálfstætt og af fagmennsku. Læknaritaranemi í starfsþjálfun fær laun er svara til 90% af launum starfandi læknaritara.

 • Réttindi og atvinnumöguleikar:

  Læknaritaranám er viðurkennd starfsmenntun og hljóta nemendur löggildingu að henni lokinni skv. reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Læknaritarar starfa víða innan heilbrigðiskerfisins, svo sem á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, læknastofum og stofnunum hins opinbera er fara með stjórnunarmál á heilbrigðissviði.