Kyrrseta jafnast á við reykingar (sitting is the new smoking).

Inngangur

Þú getur ekki hlaupið frá því: Því lengri meiri tíma sem þú eyðir í kyrrsetu, því verri verður heilsan og líftíminn styttist, sama í hversu góðu formi þú ert. Nýjustu rannsóknir sýna að regluleg hreyfing dugir ekki til ef við eyðum stórum hluta æfinnar í kyrrsetur. Ein rannsóknin sýndi að við sitjum að meðali 64 klst. á viku, 28 tímum eyðum við standandi og 11 tímum á ferðinni (ekki í markvissri hreyfingu). Við sitjum í vinnunni, í bílnum, við matarborðið, fyrir framan sjónvarpið. Kyrrsetunni getum við líkt við reykingar,  reykingar eru óhollar þó að þú sért mjög duglegur að stunda markvissa hreyfingu með þeim.

Kyrrseta

Hingað til hefur verið talað um að regluleg hreyfing dugi til að halda góðri heilsu. Nýjustu rannsóknir sýna að þetta dugar ekki. Við þurfum að tileinka okkur fjölbreytta hreyfingu við allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Ef þú vinnur við tölvu og þarft að eyða þar mörgum stundum, taktu þá hlé reglulega, gakktu um, náðu í vatn, jafnvel eins mínútna hlé gerir gagn.

Kyrrsetan eykur líkur á hjartasjúkdómum, sykursýki og jafnvel krabbameini. Líkaminn hægir á sér við kyrrsetuna og ákveðnir vöðvar verða minna aktívir. Kyrrsetan ýtir jafnvel undir þunglyndi.

Ertu staðinn upp? Gott því að það er það sem þú þarft að gera oftar ef þú stundar kyrrsetu af miklum móð. Bjóddu vinnufélaganum í göngufund (walk the talk), slíkir fundir virka ekki eingöngu sem heilsueflandi heldur ýta þeir undir hugmyndaauðgi og lausnarmiðaða hugsun. Farðu og talaðu við vinnufélagana í stað þess að senda þeim tölvupóst. Gakktu um gólf þegar þú tala í símann. Hristu þig og teygðu á leiðinni á salernið. Notaðu hvert tækifæri til að breyta um vinnustöðu og stundaðu heilsueflingu líka í vinnutímanum.

O.Lilja Birgisdóttir

Iðjuþjálfi hjá Heilsuvernd.