Kynþáttafordómar

Ef marka má skoðannakannanir þá virðist sem kynþáttafordómar fari vaxandi hér á landi um þessar mundir. Sérstaklega á þetta við hjá unglingum. Þegar unglingarnir eru spurðir nánar út í hvað þeir hafi á móti fólki af erlendum uppruna sem búsett er á Íslandi, þá geta þeir sjaldan bent á neitt ákveðið til að rökstyðja eigin fordóma. Þeir eru bara á móti útlendingum, finnst vera of mikið af útlendingum á Íslandi, án þess að þeir viti hvað útlendingarnir eru margir. Þeir eru hræddir um að útlendingar taki vinnu frá íslendingum, að útlendingar taki á einhvern hátt yfir íslenska menningu, spilli henni jafnvel . En þeir geta ekki sýnt nein dæmi þessu til stuðnings. Þetta eru sem sagt fordómar í orðsins fyllstu merkingu, röklausar skoðanir og marklausar fullyrðingar. Það sorglega við þessa fordóma unglinganna er, að það eru einmitt þessi kynslóð sem hefur fengið besta tækifæri frá landnámi til að vera upplýst, með greiðan aðgang að öllum upplýsingum um alla hluti á netinu, upplýsingakynslóðin. Enda hafa skólar haft um það forystu að tölvuvæða nemendur. En kynþáttafordómarnir sem krauma undir niðri sýna svo ekki verður um villst, að það er ekki nóg að tölvuvæða skólana til að hér búi upplýst þjóð. Fartölva handa öllum framhaldsskóla nemendum leysir ekki öll vandamál sem fylgja breyttum þjóðfélagsháttum. Það þarf eitthvað miklu meira til. Það þarf að efla fræðslu á meðal ungs fólks um menningu, trúarbrögð og siði annarra þjóða. Það þarf að efla sögukennslu og kennslu í félagsfræði, trúarbragðafræði og heimspeki, það þarf í stuttu máli að efla fög sem ýta undir víðsýni og skilning á umhverfinu og þeim sem á einhvern hátt eru „öðruvísi” en við. Einu sinni var þetta kallað „húmanismi” eða „mannvísindi”. Þau eiga víst ekki upp á pallborðið í skólakerfinu í dag.

Ísland hefur alla tíð verið land innflytjenda. Fyrstu fjölskyldurnar sem settust hér að voru innflytjendur frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Síðar hafa þeir blandast blóði franskra, portúgalskra og spænskra sjómanna í þúsund ár auk allra þeirra sem hér hafa sest að frá öllum hornum heimsins. Hver nýr innflytjandi hefur auðgað á sinn hátt íslenska menningu. Íslensk menning eins og hún er í dag væri í raun ekki til ef ekki hefði komið til stöðugur innfluttningur fjölskyldna og einstaklinga af erlendu bergi brottnir. Íslendingar hafa líka verið duglegir að flækjast um heiminn og kynna sér framandi siði og venjur. Allt hefur það orðið til að auðga mannlífið og víðsýni stórra hópa í samfélaginu. En það verður ekki fram hjá því horft að draugur kynþáttahatursins reikar um í dimmunni og býður færis. Já, því kynþáttahatrið er eins og gamall draugur sem býður færis í myrkrinu og leggst á mannfélagið þar sem það er veikast fyrir þegar tækifærið býðst. Þessi draugar er eins og púkinn á fjósabitanum sem nærist á lygi og illmælgi, öfund og þröngsýni. Um leið eru fórnarlömb þessa draugs aumkunarverð, því hann dregur úr þeim kjarkinn til þess að takast á við sinn eigin vanda, sín eigin mistök og ófarir. Þess í stað kenna þau öðrum um, útlendingum, innflytjendum, bara ekki sjálfum sér.

Nei, þennann draug þarf að kveða niður og það strax. Fyrsta skrefið er að afnema aðgreiningu íslendinga í „nýbúa” og „innfædda”. Hvenær hætti Snorri Sturluson t.d. að vera nýbúi? Hvenær varð Leifur heppni Íslendingur? Erum við ekki á einhvern hátt öll nýbúar í þessu landi? Fyrst og fremst erum við samt íslendingar, hvort sem við erum hvít eða svört, dökkhærð eða rauðhærð, ættuð frá Írlandi, Noregi, Póllandi eða Kína. Næsta skref er að efla húmanismann á ný í skólunum. Fræðsla er besta særingarmeðalið gegn þessum hvimleiða draug kynþáttafordómanna. Og ef litlir peningar eru til í skólakerfinu, má þá ekki byrja á því að selja nokkrar tölvur upp í kostnað? Eða hvað segir háttvirtur menntamálaráðherra um það?