Kynheilbrigði unglinga

Ungt fólk á Íslandi byrjar fyrr að hafa kynmök, hlutfallslega fleiri standa frammi fyrir þungun og færri nota getnaðarvörn við fyrstu kynmök en í ýmsum nágrannalöndum. Margt ungt fólk er að taka áhættu með ótímabæra þungun og kynsjúkdóma. Eftir því sem einstaklingurinn er yngri, óöruggari með sig og viðhorf sín til kynlífs og hvernig á að setja mörk á hegðun annarrra er flóknara að stunda ábyrgt kynlíf. Kynmök eru iðulega höfð undir áhrifum áfengis og jafnvel annarra fíkniefna. Þá hefur einstaklingurinn enn minni stjórn, hegðunin verður kærulausari og lítt hugað að varúðarráðstöfunum varðandi óráðgerða þungun og kynsjúkdóma .

Í ljósi þessa er brýnt að vinna að forvörnum með ungu fólki á sviði kynheilbrigðis. Mikilvægt er að unglingurinn fái fræðslu um kynferðismál, nái að vinna með viðhorf sín og öðlist færni í tjáskiptum. Að geta rætt um notkun getnaðarvarna við kynlífsfélaga reynir ekki bara á þekkingu heldur einnig viðhorf og færni í mannlegum samskiptum.

Samstarf er nauðsyn

 

Forvarnarstarf á þessu sviði krefst samstarfs þeirra sem vinna með börnum, unglingum og foreldrum. Kynfræðslu á heimilum og skólum þarf að efla. Góð samskipti foreldra og barna skila sér oftast í ábyrgri kynhegðun á unglingsárunum. Mismunandi er eftir skólum hvernig staðið er að kynfræðslu og hvort kennslan styðst við heildrænt kynfræðsluefni eins og Kynfræðsla: Lífsgildi og ákvarðanir eða er bundin við fá efnisatriði. Kynfræðsla á framhaldsskólastigi hefur hingað til ekki verið eftir neinu heildrænu kynfræðsluefni. Aðgengi að getnaðarvörnum er ekki nógu greitt og ungu fólki finnst þær vera of dýrar. Efla þarf kynheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk, hafa greiðari aðgang að öllum tegundum getnaðarvarna ásamt góðri fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvörnina sem nota á. Það eykur líkur á ánægju með getnaðarvörnina og að hún sé notuð markvisst.

Skilaboð samfélagsins eru líka mikilvægur þáttur forvarnarstarfs. Brýnt er að fjölmiðlar leggi sig fram við að koma upplýsingum á framfæri um ábyrga kynlífshegðun ungs fólks. Í upplýsingaflóði um kynlíf í fjölmiðlum virðist áherslan frekar á það sem miður fer en á ábyrgð, heiðarleika, virðingu og traust í samskiptum.

Sóley S. Bender
dósent við hjúkrunarfræðideild og
doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands.

 

23.2.2003
Frá Landlæknisembættinu