Krabbameinsráðgjöfin

Krabbameinsráðgjöfin er símaþjónusta á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Markmiðið er að auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum og ráðgjöf varðandi krabbamein og að veita tilfinningalegan stuðning. Gefnar eru almennar upplýsingar við spurningum um krabbamein, forvarnir, einkenni og meðferð.

Að greinast með krabbamein getur verið erfitt viðfangsefni bæði fyrir þann sem veikist og ekki síður fyrir aðstandendur. Hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá Krabbameinsráðgjöfinni geta hjálpað sjúklingum og aðstandendum með ýmiskonar upplýsingar sem veita svör og yfirsýn. Það getur haft góð áhrif á líðan sjúklinga og aðstandendur þeirra að ræða tilfinningar sínar og áhyggjur. Hjúkrunarfræðingar ráðgjafarinnar eru reiðubúnir til þess að hlusta og ræða um reynslu, líðan og það sem framundan er. Oft má finna úrræði og leiðir til að aðstoða með einu samtali.

Hægt er að hringja í síma Krabbameinsráðgjafarinnar til að fá svör við einstökum spurningum eða til að ræða málin þegar hugsanirnar verða of margar og flóknar. Oft geta samræður við fjölskyldu og vini verið hjálplegar til að átta þig á hlutunum, en þeir tímar koma að mikilvægt er að ræða málin við hjúkrunarfræðing sem getur gefið faglegar upplýsingar.

Við ráðgjöfina starfa 5 hjúkrunarfræðingar, sem hafa þekkingu og reynslu af vinnu með krabbameinsjúklingum. Þeir geta ekki gefið upplýsingar sem snúa að læknisfræðilegum þáttum hvað varðar einstök sjúkdómstilfelli – það getur einungis læknirinn sem meðhöndlar viðkomandi sjúkling. Starfsfólk ráðgjafarinnar getur hjálpað við að skilgreina þær spurningar sem fá þarf svör við.

Kostur við ráðgjöfina er að innhringjandi getur setið heima og hringt þegar þörf er á. Þegar hringt er þarf viðkomandi ekki að segja til nafns en ráðgjafinn svarar með nafni. Að hringja nafnlaust gerir að verkum að hægt er að ræða ýmis vandamál og vangaveltur sem upp geta komið, sem annars þætti óþægilegt að ræða. Þegar símtali líkur er það í höndum notandans hvernig hann nýtir þær upplýsingar sem hann hefur fengið.

Hjúkrunarfræðingur er við símann alla virka daga frá klukkan 15 – 17. Símanúmerið er 800-4040 og er það gjaldfrjálst númer. Einnig er hægt að leggja inn fyrirspurn á símsvara allan sólarhringinn eða senda tölvupóst á netfangið 8004040@krabb.is

 

 

Fyrir hönd starfsfólks Krabbameinsráðgjafarinnar:
Ingibjörg J. Friðbertsdóttir
Hjúkrunarfræðingur