Konur og reykingar

Eiga konur erfitt með að hætta að reykja?

Höfundar pistils vikunnar að þessu sinni eru hjúkrunarfræðingar og starfa allar við endurhæfingu. Í starfi sínu fást þær oft á tíðum við heilsufarsvandamál sem tengjast röngum lífsstíl og eru reykingar þar stór þáttur. Í endurhæfingunni leita í ríkari mæli konur til þeirra með einkenni sem rekja má beint til reykinga. Reynsla höfunda er sú að þessar konur eigi erfitt með að hætta að reykja og telja þær ástæðuna tengjast stöðu kvenna í þjóðfélaginu, sjálfsímynd þeirra og líðan.

Líffræðileg áhrif reykinga

Efnin í sígarettunni eru með þeim eitruðustu sem þekkjast. Nikótín er sterkt ávanalyf (Ragnhildur Magnúsdóttir o.fl., 1996).
Almenn þekkt áhrif reykinga eru; aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum, aukin tíðni krabbameins, lungnasjúkdóma og ýmissa annarra sjúkdóma. Líkamleg áhrif reykinga koma yfirleitt ekki fram fyrr en u.þ.b. 20-40 árum eftir að þær hófust.

Reykingar hafa víðtæk og óæskileg áhrif á allan æxlunarferilinn. Frjósemi minnkar , fylgikvillum á meðgöngu fjölgar og auknar líkur eru á sjúkdómum hjá ófæddum og nýfæddum börnum (Ragnhildur Magnúsdóttir o.fl., 1996). Nikótín fer auðveldlega um fylgju til fósturs. Styrkleiki nikótíns í blóði fósturs verður meiri en í blóði móður og það er lengur að skiljast út hjá fóstri (Gígja Sveinsdóttir o.fl., 1990). Það má því segja að eftir því sem fleiri konur á barneignaraldri byrja að reykja, hlýtur heilsa ófæddra barna að vera í aukinni hættu. Þessi börn sem kynnast nikótíni í móðurlífi verði fyrr háð því ef þau byrja að fikta við reykingar síðar (Wergeland og Strand, 1996).

Tíðahvörf verða 2-3 árum fyrr hjá konum sem reykja en hjá reyklausum konum. Aukin hætta er á beinþynningu þar sem reykingar hafa letjandi áhrif á myndun öestrogens (sem er mikilvægasta hormónið til að hindra beinþynningu). Einnig eykst tíðni leghálskrabbameins. Hjá konum sem reykja og nota P-pilluna eykst hættan á blóðtappa 23 sinnum miðað við konur sem ekki reykja. Hjá konum hefur einnig verið sýnt fram á, að reykingar minnka áhrif insúlins (Vierola, 1997, bls. 53-56). Einnig er vitað að reykingar geta minnkað áhrif ýmissa lyfja hjá konum.
Þeir sem reykja eru stöðugt með kolsýring í blóðinu. Binding kolsýrlings við blóðrauðann er margfalt sterkari en binding súrefnis. Við sígarettureykingar lækkar súrefnismettun blóðrauðans um 3-7%, sem leiðir oft til vægrar hækkunar á blóðgildi, en það tengist aukinni seigju blóðsins og hættu á blóðtappamyndun (Gígja Sveinsdóttir o.fl., 1990).

Sígarettureykingar auka hættu á lungnakrabbameini meira meðal kvenna en karla. Áhættan eykst eftir því sem meira er reykt. Þannig eru konur sem reykja 25 eða fleiri sígarettur á dag í 44 – faldri áhættu, en karlar í 29 – faldri áhættu miðað við þá sem aldrei hafa reykt (Hrafn Túliníus o.fl., 1997).

Dánartíðni hjá konum af völdum reykinga hefur stóraukist. Þriðjung af öllum dauðsföllum hjá konum vegna krabbameins má rekja beint til reykinga og í dag deyja fleiri konur úr lungnakrabbameini en úr nokkrum öðrum sjúkdómi (Yarker, 1993). Áður fyrr var brjóstakrabbamein algengnasta dánarorksök kvenna. Á sama tíma deyja færri karlar úr lungnakrabbameini en áður. Að minnsta kosti ein af hverjum fjórum konum sem reykja munu deyja fyrr en ella vegna fíknar sinnar (Yarker, 1993).

Í rannsókn Gold o.fl. 1996 (sjá í Vierola 1997, bls 81) kom fram að stúlkur eru að jafnaði með minni lungu og þrengri berkjur en strákar. Þess vegna verða áhrif reykinga meiri á lungnavef stúlkna.

Þróun reykinga kvenna í sögulegu ljósi

Í gegnum söguna hafa reykingar tengst sjálfstæðisbaráttu kvenna. Kvenréttindakonur sem flestar voru vel menntaðar og af efnuðu fólki, byrjuðu að reykja um aldamótin. Nokkrum árum síðar voru ungar yfirstéttarkonur farnar að reykja í veislum og þótti það mjög glæsilegt. Fljótlega upp úr 1950 fóru tóbaksframleiðendur að beina auglýsingum sínum markvisst að konum en þær voru hinn óplægði akur (Woodbridge, 1992). Hér á landi er líklegt að reykingar karla hafi náð hámarki á árunum 1960-70 en reykingar kvenna á árunum 1970-80 (Ingileif Ólafsdóttir, 1998).

Í kjölfar aukinnar þekkingar hafa reykingar minnkað hjá menntuðum konum en aukist hjá þeim sem hafa minni menntun og erfiðari félagslegar aðstæður. Samkvæmt WHO (World Health Orginazation) hefur komið fram að þær konur sem telja sig geta haft áhrif á eigið líf og heilsu reykja síður en konur sem finnst þær hafa litla stjórn á lífi sínu (Traquet, 1992).

Í dag beinist áróðurinn að ungu fólki og er einkum höfðað til þeirrar ímyndar að konan eigi að vera há, grönn, frjáls, vinsæl, eftirsóknarverður félagi, sjálfstæð og fullorðin. Þessi kona þorir að ögra umhverfinu.

Okkur finnst athyglisvert að eftir því sem þátttaka kvenna í atvinnulífinu hefur aukist hafa þær jafnframt aukið reykingar. Launuð vinna hefur bæst við hin hefðbundnu ólaunuðu störf og sífellt aukast kröfurnar sem gerðar eru til kvenna. Hlutverkum nútímakonunnar fer sífellt fjölgandi sem óhjákvæmilega hefur í f ör með sér aukna streitu. Hún er móðir, eiginkona, fyrirvinna, dóttir og svo mætti lengi telja. Þessi nútímakona leggur metnað sinn í að standa sig á öllum sviðum.

Daglegar reykingar kvenna (18-69 ára) á Íslandi hafa dregist saman úr 37% árið 1985 í 28% árið 1997. En á sama tíma hafa daglegar reykingar karla (18-69 ára) minnkað úr 43% í 30%. Af þessu má sjá að meira hefur dregið úr reykingum karla en kvenna (Hagvangur, 1997).

Hvers vegna byrja konur að reykja?

Sífellt fleiri konur um allan heim byrja að reykja og hafa afleiðingar þess í för með sér víðtækan heilsufarsvanda fyrir allt mannkynið.

Ástæður þess að ungar konur í hinum vestræna heimi byrja að reykja nú til dags eru fyrst og fremst tengdar útliti, ímynd og áhrifum frá umhverfinu (Stewart o.fl., 1996).

Í könnun Þórólfs Þórlindsonar o.fl. (1997) á reykingum grunnskólanema í 10. bekk, reykti 21% unglinga. Hlutfall 15 ára stúlkna sem reyktu daglega var heldur hærra en pilta á sama aldri eða 23% en 19,9% drengja (Þórólfur Þórlindsson o.fl., 1997).

Tóbaksframleiðendur hafa opinberlega viðurkennt að ungar konur eru aðal markhópur þeirra (Yarker, 1993). Þeir markaðssetja vörur sem eru sérstaklega hannaðar fyrir konur og eiga að höfða frekar til þeirra. Þeir auglýsa sérstaklega í kvennatímaritum (Morain, 1994) og styrkja þau gegn því að ekki komi fram í þeim upplýsingar um skaðsemi reykinga (Woodbridge, 1992).

Unglingsstúlkur eru oft með lítið sjálfstraust og óraunhæfa sjálfsmynd og það er staðreynd að stór hluti þeirra er í stöðugri megrun til að vera ánægðari með sjálfsmyndina (Ingileif Ólafsdóttir, 1998).

Í auglýsingum eru konur sýndar sem kynþokkafullar, glæsilegar, fágaðar, heilbrigðar, vel á sig komnar líkamlega, afslappaðar, sjálfstæðar, uppreisnargjarnar og grannar. Konum er talin trú um að reykingar séu leiðin að þessari tilbúnu kvenímynd. Þessi ranga ímynd kemur fram meira og minna í fjölmiðlum, eins og sjónvarpi, kvikmyndahúsum og á auglýsingaskiltum (Woodbridge, 1992).

Samkvæmt könnun Hagvangs (1998) hefur áróður tóbaksframleiðenda haft áhrif á íslenskar konur á aldrinum 40-49 ára. 32% þeirra reykja sígarettur og virðist ekki fara fækkandi, á meðan 26% karla á sama aldri eru að stórminnka reykingar (sjá línurit nr 1).

Daglegar sígarettureykingar, 15 – 79 ára eftir aldri og kynjum:

Aldur 15-19 20-29 30-39 40-49 50-59 60-69 70-79
Karlar 22% 29% 31% 26% 18% 11% 9%
Konur 17% 28% 30% 32% 29% 18% 21%

Ungar stúlkur eiga erfiðara með að standa á móti félagslegum þrýstingi jafningja en strákar. Íslensk rannsókn hefur sýnt að menntun foreldra og félagsleg staða hefur áhrif á reykingar unglinga. Auknar líkur eru á að unglingar hefji frekar reykingar ef foreldrar þeirra reykja, og eru áhrif móður heldur meiri en föður. Einnig skiptir afstaða foreldra til reykinga máli, þ.e. ef foreldrar eru afskiptalausir, þá fara unglingarnir frekar að reykja (Þórólfur Þórlindsson, 1997). Oft er fyrsta sígarettan reykt í vinahópi. Auknar líkur eru á að unglingar byrji að reykja ef þá skortir heilbrigð áhugamál og hafa lítið fyrir stafni annað en sjoppuhangs. Ef foreldrar hafa litla menntun, lítil fjárráð og eru einstæðir, aukast líkur á að börn þeirra byrji að reykja (Stewart o.fl., 1996). Bresk rannsókn hefur sýnt fram á að félagsleg staða hefur áhrif á reykingar, t.d. reykja 52% ekkna og fráskildra kvenna en 35% giftra kvenna (English, 1986).

Hvers vegna reykja konur?

Komið hefur í ljós að konur reykja af öðrum ástæðum en karlar (Morain, 1994). Meðal annars má þar nefna flókna stöðu þeirra í þjóðfélaginu og ef þær upplifa að þær standi ekki undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar.

Konur nota reykingar til að deyfa tilfinningar sínar, losa um streitu og draga úr félagslegum þrýstingi frá umhverfinu. Einnig nota þær reykingar til að ná betri stjórn á óþægilegum tilfinningum sínum sem þær óttast að umhverfið samþykki ekki, eins og reiði, pirring, vonleysi og þeirri tilfinningu að hafa ekki stjórn á eigin lífi (Stewart, 1996). Þess vegna sækja konur í róandi eða sljóvgandi áhrif nikotíns, en þær nota einnig meira af kvíðastillandi lyfjum en karlar. Fylgni er á milli neyslu ávanabindandi efna eins og áfengis, lyfja og nikótíns (Vierola, 1997, bls. 179).

Konur eru líklegri en karlar til að hafa þörf fyrir að auka félagslegt sjálfsöryggi sitt. Að bjóða sígarettu getur verkað eins og ísbrjótur og athöfnin að reykja gefur konunni eitthvað að gera með höndunum (English, 1986). Undirliggjandi leiði getur leitt til sjálfseyðileggjandi hegðunar eins og reykinga (Woodbridge, 1992).

Konur leiða oft hjá sér heilsuspillandi áhrif reykinga. Þær trúa gjarnan að léttari sígarettur séu „betri en annað hefur komið í ljós. Viðkomandi dregur reykinn dýpra niður í lungnapípurnar og heldur reyknum lengur niðri og veldur það jafnvel meiri skaða (Vierola, 1997, bls. 52). Að hafa mörg hlutverk veldur oft kvíða og spennu. Margar nota reykingar til að draga úr vinnuálagi heima og á vinnustað, „að skreppa í reykingapásu er yfirleitt samþykkt af umhverfinu.

Geta konur ekki hætt að reykja?

Sannfæring margra kvenna að þær séu háðar sígarettunni veldur því að þær reyna ekki að hætta að reykja. Feimni og geðsveiflur eru algengnar hjá ungu fólki. Um svipað leyti og þátttaka í atvinnulífinu er að hefjast eru margir einnig að byrja að reykja. Ef ungar konur læra á þeim tíma að sígarettan dugar vel á geðsveiflur og félagslegt ósjálfstæði þá eru meiri líkur á að þær haldi reykingum áfram (English, 1986).

Komið hefur í ljós að almennur áróður gegn reykingum höfðar síður til kvenna en karla. Flest reykingavarnarnámskeið eru samin með það fyrir augum að henta báðum kynjum, samt er stigsmunur á körlum og konum (Ingileif Ólafsdóttir, 1998). Konum er hættara við að falla þegar þær lenda í erfiðum aðstæðum eins og álagi, deilum, streitu eða sorg. Körlum er aftur á móti hættara við að falla á reykbindindi við jákvæðar aðstæður, t.d. í góðum félagsskap eða samkvæmum.

Reykingavarnarnámskeiðin hafa stuðst frekar við að þátttakendur lifðu reglubundnu lífi, fengju fræðslu og hræðsluáróður og að það þurfi ákveðni og viljastyrk til að hætta. Þessi aðferð hentar ekki konum til að halda reykbindindið. Þær þurfa góðan stuðning frá umhverfinu, t.d. vinum og fjölskyldu, sveigjanleika vegna barna, heimilis og atvinnu. Þær hugsa fremur um heilsu annarra en sína eigin. Þær nota ákveðnina og viljastyrkinn í að hugsa um heimilið og uppfylla kröfurnar sem til þeirra eru gerðar.

Konur þurfa stuðning og skilning til að takast á við fráhvarfseinkenni og brjóta upp reykingamynstrið. Þær þurfa að gefa sér tíma til að byggja sig upp andlega og líkamlega. Einnig þurfa þær að sjá sig sem mikilvæga fyrirmynd í sínu nánasta umhverfi. Það er nauðsynlegt fyrir konur að byggja upp sjálfsöryggi sitt og ákveðni með stuðningi frá öðrum konum til að stuðla að árangursríku og viðvarandi reykbindindi.
Ástæða þess að margar konur byrja aftur að reykja getur verið að óttinn við að þyngjast er áhrifamikil. Sígarettan og róandi áhrif hennar verða svo rótgróin að erfitt er hætta í langan tíma. Ákveðnir atburðir, aðstæður og líðan tengja tilfinningalegt minni við sígarettuna (English, 1986).

Flestir sem hætta að reykja (hátt í 90%) gera það án aðstoðar, en aðrir falla aftur í gamla farið vegna þess að ekki hefur verið unnið úr tilfinningalegum ástæðum fyrir reykingunum (Ingileif Ólafsdóttir, 1998).

Ágrip af því markverðasta samkvæmt áliti hópsins

Okkur finnst sláandi hvað margir byrja að reykja þrátt fyrir áróður og þekkingu á skaðsemi reykinga. Einnig kemur okkur á óvart að konur reykja af öðrum orsökum er karlar og hvernig reykingar tengjast líðan og stöðu þeirra. Sú staðreynd hefur aukið skilning okkar á erfiðleikum kvenna við að hætta að reykja og leiðum til úrbóta.

Okkur finnst merkilegt hvað áróður í fjölmiðlum virðist hafa mikil áhrif á konur og teljum að snúa mætti vörn í sókn og nýta fjölmiðla á jákvæðan hátt í reykingavörnum. Þar þyrfti meðal annars að koma fram að reykingar hafa meiri áhrif á heilsufar kvenna en karla.

Nauðsynlegt er að grípa inn í þá óheillavænlegu þróun sem á sér stað nú á dögum þegar sífellt fleiri unglingar byrja að reykja. Í almennum áróðri gegn reykingum ungs fólks þarf ef til vill í mun meiri mæli að höfða til lítt geðslegra fylgifiska reykinga, s.s. verra útlits og ólyktar af viðkomandi, vegna þess að síðkomin heilsufarsáhrif eru of fjarlæg og vega mun minna meðal unglinga en hópáhrif og lævís áróður tóbaksframleiðenda.
Við bindum miklar vonir við verkefnið „Sköpum reyklausa kynslóð sem er nú hafið í öllum grunnskólum á Íslandi, á vegum Krabbameinsfélags Íslands og Tóbaksvarnarnefndar. Þar er höfðað sérstaklega til hvers aldurshóps fyrir sig (Krabbameinsfélag, 1997).

Nýfædd stúlkubörn á Íslandi eiga að meðaltali rúm 80 ár eftir ólifuð (Sveinn Magnússon, 1986). Íslenskar konur eru með langlífustu konum í heimi. Þessi virðingarstaða gæti verið í hættu vegna reykinga þeirra.

Við erum sammála þeirri framtíðarsýn hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (1997) að kalla á nýjar leiðir til að koma í veg fyrir heilsutjón og efla heilbrigði landsmanna. Núorðið er almenningur fróðari um heilbrigði og leitar eftir upplýsingum til að bæta eigin heilsu. Mikilvægt er að við hjúkrunarfræðingar sem vinnum við endurhæfingu getum nýtt möguleika upplýsingatækninnar til að miðla þekkingu um heilbrigða lifnaðarhætti og efla tóbaksvarnir á okkar vinnustað og í þjóðfélaginu. Í því sambandi ber að huga sérstaklega að hinum fjölmörgu sem sjá sér ekki fært að hætta, þar sem takmarkaður stuðningur er fyrir hendi. Okkur ber að taka þátt í heilbrigðisfræðslu um áhrif reykinga, vera sem ráðgjafar og stuðningsaðilar í sjálfshjálparhópum.

Við teljum einnig nauðsynlegt að bjóða upp á fræðslu og reykingavarnarnámskeið sem eru sérsniðin að þörfum kvenna. Eftir að við byrjuðum á þessu verkefni höfum við nýtt okkur þá þekkingu sem við höfum aflað okkur. Nú skiptum við hópunum eftir kynjum og virðist það gefa góða raun.

Ágreiningsefni

Miklar og líflegar umræður spunnust í hópnum, en um eiginlegan ágreining var ekki að ræða. Þó voru mismunandi áherslur hjá hópmeðlimum tengdar sérsviði hvers og eins sem við nýttum okkur. Samstarfið í hópnum var mjög gott enda erum við konur á líkum aldri, giftar, eigum allar fleiri en eitt barn og störfum á sama vinnustað (þó ekki á sömu deild). Við lítum á viðfangsefnið út frá svipuðu sjónarhorni og teljum okkur skilja hve auðvelt það er fyrir konur að eltast við ákveðna ímynd sem er í tísku á hverjum tíma, hvort sem ímyndin er árið 1920 eða 1998. Vegna reynslu okkar af endurhæfingarhjúkrun erum við sammála um þann vanda sem steðjar að konum í íslensku þjóðfélagi af völdum reykinga.

Ágrip að þróun hópeflis og tillögur um þróun fræðilegrar vinnu

Í fyrsta sinn sem hópurinn hittst var valinn hópstjóri og ritari. Eftir töluverðar umræður varð þetta efni fyrir valinu og vorum við allar sammála um þá ákvörðun, enda tengjast reykingavarnir mikið okkar starfi og áhugasviði. Strax á fyrsta fundi skiptum við með okkur verkum í heimildaleit, ákváðum tiltekinn stað til að hittast á og skipulögðum vikulega vinnufundi fram í tímann.

Fljótlega eftir að samstarf hófst kom í ljós að við höfum mismunandi hæfileika á hinum ýmsu sviðum, meðal annars íslenskukunnáttu, tölvukunotkun, reynslu af viðfangsefninu og stjórnun. Við reyndum að nýta okkur það við vinnu þessa verkefnis. Einnig nutum við góðs af margra ára reynslu okkar allra í teymisvinnu þar sem virk hlustun og tillitssemi gagnvart þekkingu og skoðunum annarra er lykilatriði í góðu samstarfi.

Tillögur hópsins að þróun fræðilegrar hópvinnu

Við þróun fræðilegrar hópvinnu leggjum við til að skýrar línur séu settar fram strax á fyrsta fundi um verkaskiptingu innan hópsins. Hópurinn geri sér grein fyrir og viðurkenni hæfileika hvers og eins. Hver einstaklingur kynni sig í upphafi hópvinnunar, segi frá bakgrunni og reynslu sem tengist viðfangsefninu. Nauðsynlegt er að hrósa hver annarri og mynda þannig jákvætt og gott andrúmsloft innan hópsins. Samstarfið reyndist okkur öllum skemmtilegt, lærdómsríkt og gefandi.

Heimildalisti

Amos, A. (1990). How women are targeted by the
tobacco industry. World Health Forum, 11,(1.)

Amos, A. (1996). Women and smoking. The British
Medical Bulletin, 52,(1.) bls. 74-89.

English, S. (1986). Women and Smoking: A
handbook for action. 78 New Oxford street
London: Health Education Council.

Gígja Sveinsdóttir, Sigurbjörg Ólafsdóttir og Reynir
Tómas Geirsson (1990). Reykingar íslenskra
kvenna á meðgöngu. Læknablaðið, 76, bls.
111-15.

Hagvangur (1997). Spurningavagn Hagvangs hf.
Árskýrsla 1997. Tóbaksvarnanefnd.

Hanson, M.J.S. (1994). Sociocultural and
physiological correlates of cigarette smoking in
women. Health Care for Women International,
15, bls. 549-562.

Hrafn Tulinius, Nikulás Sigfússon, Helgi
Sigvaldason, Krístín Bjarnadóttir, og Laufey
Tryggvadóttir (1997). Risk factors for
Malignant Diseases: A Short Study on a
Population of 22,946 Iclanders. Cancer
Epidemilogy, Biomarkers & Prevention, 6,(.) bls.
863-873.

Ingileif Ólafsdóttir (1998). Ráðstefna um
heilbrigði kvenna. Konur og reykingar,
Reykjavík . 29 janúar.

Morain, C. (1994). Still a long way to go, Baby… .
American Medical News, 4, (.) bls. 11-14.

Ragnhildur Magnúsdóttir, Reynir Tómas Geirsson,
og Soffía G. Jónsdóttir (1996). Áhrif reykinga á
frjósemi, meðgöngu og fóstur. Læknaneminn, 49,
bls. 81-89.

Stewart, M. J., Gillis, A., Brosky, G., Johnston, G.,
Kirkland, S., Leigh, G., Persaud, V., Rootmann,
L., Jackson, S., og Pawliw-Fry, B. A. (1996).
Smoking Among Disadvantaged Women: Causes
and Cessation. Canadian Journal of Nursing
Research, 28, (1.) bls. 41-60.

Sveinn Magnússon ( 1986). Reykingar kvenna
líkjast farsótt. Heilbrigðismál, 34, (1.) bls.8-10.

Vierola, H. (1997). Tobak och Kvinnors Hölsa.
Merne, S. (ritstj. Og þýð.), Stokholm:
Förlagshuset Gothia.

Wergeland, E., og Strand, K., Bjerkedal, T. (1996).
Smoking in pregnancy: a way to cope with
excessive workload?. Scand J Prim Health Care,
14, bls. 21-28.

Woodbridge, M. (1992). Why do women smoke?.
Nursing Praxis in New Zealand, 7, (2.) 19.

Yarker, Y.E. (1993). First International Conference
on Women and Smoking. International Journal of
Smoking Cessation, 2, (2.) bls. 15.

Zang, E.A. og Wynder, E.L. (1996). Differences in
Lung Cancer Risk between Men and Women:
Examination of the Evidence. Journal of the
National Cancer Institude, 88,(3/4). Bls. 183-191.

Þórólfur Þórlindsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Gunnar
Bernburg, og Viðar Halldórsson (1998). Vímuefnaneysla
ungs fólks: Umhverfi og aðstæður. Reykjavík bls. 15 :
Rannsóknarstofnun uppeldis og menntunarmála.