Konur og reykingar

Skaðsemi reykinga hjá konum og körlum er vel þekkt. Aukin tíðni lungnakrabbameins er þar ofarlega á blaði og reykingar eru algengasta ástæða langvinnra lungnateppusjúkdóma. Einnig er aukning á æðakölkun í slagæðum, m.a. í hjarta og heila, með meðfylgjandi hættu á hjarta- eða heilaáföllum.

 

Reykingar hafa sértæk áhrif á heilsu kvenna. Þannig er ungum konum sem reykja hættara við minnkaðri frjósemi og fósturlátum en þeim sem ekki reykja og börn kvenna sem reykja eru að meðaltali minni en börn þeirra sem ekki reykja. Auknar líkur eru á að tíðahvörf hefjist fyrr hjá konum sem reykja og sömuleiðis virðast þær fá meiri tíðahvarfaeinkenni en þær sem ekki reykja. Þá er töluvert aukin hætta á beinþynningu hjá konum sem reykja. Fimmföldun á aldursstaðlaðri dánartíðni lungnakrabbameins hjá konum á síðustu fjórum áratugum og tvöföldun hjá körlum sýnir að reykingar hafa tekið sinn toll hér á landi  Það virðist sem hámarki sé nú náð þó tíðni sé enn mikil hjá báðum kynjum.

 

Ástæður þessað konur reykja eru auðvitað misjafnar. Ávani og fíkn í nikótín vega þungt en auk þess eru áhyggjur af líkamsþyngd oft nefndar. Meðalþyngdaraukning við að hætta að reykja er þó aðeins um 3 kg. Konur eru gjarnan hvattar til hætta reykingum í tengslum við meðgöngu eða móðurhlutverkið. Það er þó ekki síður mikilvægt fyrir eldri konur að átta sig á því að reykingar skaða konur á öllum aldri og það er alltaf heilsufarslegur ávinningur af því að hætta.

 

Ef ég væri reyklaus……

 

 

Ef Reyklausi dagurinn nýtist til að konur sem reykja hugleiði reykingar sínar þá er það vel.

 

Þættir sem þar skipta máli eru til dæmis:

 

  • Hefur hún hugleitt að hætta að reykja? 
  • Er þetta heppilegur tími til þess? 
  • Ef svo er ekki, mun sá tími koma og þá hvenær? 
  • Konur sem hafa hætt að reykja en byrjað aftur hafa gagn af því að velta fyrir sér hvaða aðferð þær beittu síðast til að hætta svo að meiri líkur séu á að næsta tilraun beri árangur. 

Það er ekki óalgengt að þurfa fleiri en eina tilraun til að tileinka sér reyklaust líf. Aðferðir til að styðja einstaklinga til reykleysis hafa verið í þróun á síðustu árum og fleiri úrræði eða meðferðarmöguleikar eru í boði en áður .

 

Margar eldri konur sem reykja vissu ekki af skaðsemi reykinga þegar þær byrjuðu að reykja. Síðar kom í ljós að skaðsemi reykinga fyrir konur var enn meiri en fyrir karla. Í dag er þekkingin til staðar, meðferðarmöguleikum fjölgar og vonandi hvetur það æ fleiri til að takast á við tóbaksfíknina og hefja reyklaust líf á ný.

 

Tenglar: www.krabbameinsskra.is

 

             www.reyklaus.is

Frá  Landlæknisembættinu