Konur og krabbamein

Á Íslandi greinast nú á ári hverju um 1000 einstaklingar með krabbamein. Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni (Heilbrigðismál, 1992;1999). Í heildina er lítill munur á körlum og konum, en fyrir og á breytingarskeiði kvenna (15-54 ára) greinast mun fleiri konur en karlar. Að loknu breytingarskeiði (55-69 ára) er nýgengi krabbameins hjá kynjunum nokkuð jafnt en á efri árum (70 ára og eldri) greinist krabbamein hjá helmingi fleiri körlum en konum (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Þriðjungur karla og helmingur kvenna, sem fær krabbamein, er yngri en 70 ára við greiningu.

Á síðastliðnum 40 árum hefur nýgengi krabbameina í heild aukist og dánartíðni lækkað (Heilbrigðismál, 1997b). Mestu breytingarnar felast í fækkun á nýgengi maga- og leghálskrabbameins en aukningu á nýgengi krabbameins í lungum, brjóstum, blöðruhálskirtli og sortuæxla í húð (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Þannig jókst nýgengi um 10,2% hjá körlum og 11% hjá konum á 20 ára tímabili frá 1977 til 1996. Árlega er þetta að jafnaði um 1,0% aukning hjá körlum og 1,1% hjá konum (Jón Hrafnkelsson og Jónas Ragnarsson, 1998). Nýgengi krabbameins er allt að fjórðungi hærra í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi heldur en annars staðar á landinu. Í ljósi fólksfjölgunar og aldurshækkunar á Íslandi hefur því verið spáð að krabbameinstilfellum muni fjölga um 70% hjá körlum og 40% hjá konum til ársins 2010 (Engeland, Haldorsen, Tretli, o.fl., 1993). Krabbamein er sjúkdómur sem ógnar öllum konum. Til þess að skilja það álag sem krabbamein getur valdið konum er mikilvægt að þekkja og skilja faraldsfræði krabbameina hjá konum, áhættuþætti og hugsanlegar forvarnaleiðir. Í þessari grein er ætlunin að gera grein fyrir algengustu tegundum krabbameina hjá konum á Íslandi og helstu forvarnaþáttum.

Nýgengi og lífshorfur kvenna með krabbamein

Á Íslandi greinast nú árlega að meðaltali um 500 konur með krabbamein (Krabbameinsfélagið, 1999). Árlegt nýgengi (aldursstaðlað/100.000 konur) fyrir árin 1987-1993 var 262 (Association of the Nordic Cancer Registries, 1999) (1. tafla) og er nýgengi krabbameins hjá konum á Íslandi hæst í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi og lægst á Norðurlandi vestra Jón Hrafnkelsson og Jónas Ragnarsson, 1999). Meðalaldur kvenna við greiningu er 64 ár en helmingur kvenna greinist yngri en 70 ára. Algengustu krabbamein hjá konum eru í brjóstum, lungum, ristli og eggjastokkum, eru þau um helmingur allra tilfella (2. tafla) (Krabbameinsfélagið, 1999).

Um fjórðungur þjóðarinnar deyr af völdum krabbameina (Heilbrigðismál, 1997b), árlega deyja um 450 manns, heldur færri konur en karlar. Krabbamein er algengasta dánarorsök kvenna á aldrinum 45-54 ára (64%), 55-64 ára (63%) og 65-74 ára (40%) (Sigríður Vilhjálmsdóttir, 1998). Fimm mannskæðustu meinin hjá konum á árunum 1991-1995 voru krabbamein í lungum, brjóstum, ristli, eggjastokkum og brisi. Voru þau orsök um 60% dauðsfalla vegna krabbameina hjá konum (3. tafla) (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Hæst er dánartíðnin af völdum lungnakrabbameina og hefur hún aukist hjá konum á síðastliðnum 40 árum. Dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins hefur hins vegar verið nokkuð stöðug á sama tíma en virðist vera að aukast á síðustu árum. Hormónatengd krabbamein eru því meðal þeirra algengustu hvað varðar nýgengi og dánartíðni krabbameina hjá konum.

Lífshorfur kvenna með krabbamein hafa nærri tvöfaldast á 30 árum (Heilbrigðismál, 1996a). Þannig lifðu 50% kvenna, sem greindust 1986-1990, í 5 ár eða lengur samanborið við 27% kvenna sem greindust á árunum 1956-1960. Í árslok 1998 voru um 7000 einstaklingar með krabbamein á lífi (Heilbrigðismál, 1999), þar af 4013 konur og flestar sem fengið höfðu brjóstakrabbamein eða 1323.

1. tafla. Nýgengi krabbameins hjá konum 1987-1993 (árlegt aldursstaðlað nýgengi af 100.000)

Brjóst 78,3 Nýru 9,1
Lungu 26,6 Legháls 8,6
Ristill 15,4 Húð (sortu) 7,1
Legbolur 13,1 Bris 6,3
Eggjastokkar 12,1 Hvítblæði 6,0
Heilaæxli 11,4 Endaþarmur 5,3
Skjaldkirtill 10,6 Eitlasarkmein 4,5
Magi 10,2

2. tafla. Algengustu krabbameinin hjá konum (árlegur meðalfjöldi nýrra tilfella 1994-1998)

Brjóstakrabbamein 131
Lungnakrabbamein 51
Ristilkrabbamein 35
Eggjastokkakrabbamein 27
Legbolskrabbamein 23
Skjaldkirtilskrabbamein 18
Sortuæxli í húð 18
Heilaæxli 17
Nýrnakrabbamein 15
Leghálskrabbamein 15
Eitlasarkmein 14

3. tafla. Konur látnar árlega 1991-1995

 

Krabbamein Meðalfjöldi Yngri en 70 ára
Lungu 46 24
Brjóst 44 26
Ristill 15 5
Eggjastokkar 14 8
Bris 14 5

Áhættuþættir og forvarnir

Áhættuþættir og forvarnir Áhættuþættir krabbameina eru fjölmargir og sennilega um samspil margra að ræða sem hafa áhrif á myndun og þróun þess (Doll, 1998; Harvard Report, 1996). Áhættuþáttum er yfirleitt skipt í tvennt. Annars vegar þá sem við höfum enn ekki stjórn á eins og aldri og erfðum, en á undanförnum árum hefur komið í ljós að um arfgengi geti verið að ræða í um 5% tilvika. Einnig er vel þekkt að krabbamein fylgi vissum ættum og um flest krabbamein gildir að í um 20% tilvika er það þekkt í ættinni. Hins vegar eru þeir áhættuþættir sem eru á okkar valdi, tengjast lífsstíl og umhverfi, og eru meginorsakir allra krabbameina (4.tafla). Áætlað er að um 80-90% krabbameina orsakist af umhverfisþáttum og lífsstíl og um 2/3 dauðsfalla af völdum krabbameina megi rekja til reykinga, mataræðis og hreyfingarleysis (Harvard Report, 1996).

4. tafla. Áhættuþættir krabbameina

Mataræði 30-50%
Reykingar 30-40%
Reykingar + áfengi/asbest 6-10%
Atvinnuumhverfi 1-5%
Lyf og geislar 1%
Annað 10-15%

Bjartsýnustu menn áætla að hægt verði að hafa stjórn á um 90% krabbameina snemma á þessari öld þegar erfðarannsóknir og líftæknin fara að skila árangri ásamt dauða tóbaksiðnaðarsins sem margir telja hinar einu sönnu forvarnir (Engelking, 1994). Hefðbundnum krabbameinsforvörnum er skipt í þrennt (Mahon, 1995), fyrsta og annars stigs forvörnum, sem verður gerð grein fyrir hér, og þriðja stigs sem eiga við þá sem eru með krabbamein.

Fyrsta stigs forvarnir (primary) taka mið af því að minnka hættu á krabbameini hjá almenningi. Þær eiga að koma í veg fyrir sjúkdóminn áður en merki hans koma í ljós. Felur það í sér að fjarlægja áhættuþætti og orsakir krabbameina, breyta lífsstíl eða að nota verndandi efni (chemoprevention) (Mahon, 1995).

Fyrsta stigs krabbameinsforvarnaráðin eru löngu þekkt og viðurkennd og fullt vægi þeirra talið geta fækkað krabbameinum um 20-30% (Olsen, Andersen, Dreyer, o.fl.,1997) (5. tafla). Á síðustu árum hefur notkun verndandi efna (chemoprevention) fengið aukna athygli og umfjöllun. Efnavarnir/verndandi efni, sem eiga þó ekki einungis við fyrsta stigs forvarnir, fela í sér notkun náttúrlegra eða tilbúinna efna til þess að koma í veg fyrir, stöðva eða hemja myndun krabbameins (Swan og Ford, 1997). Töluverðs ruglings hefur gætt í umfjöllun um efnavarnir, eins og fram kemur í nýlegri grein (Costa og Redmond, 1999), á þann hátt að tilgangur og notkun efnavarna hefur verið óljós. Efnavarnir geta í raun flokkast undir öll forvarnastigin. Fyrsta stigs efnavarnir eiga við heilbrigða einstaklinga sem eru í aukinni hættu á að fá krabbamein, en annars stigs efnavarnir eiga við heilbrigða einstaklinga með forstigsbreytingar eða krabbameinssjúklinga sem eru í aukinni hættu á að fá krabbamein (Costa og Redmond, 1999). Mörg hundruð verndandi efni eru talin geta haft áhrif en einungis örfá þeirra hafa verið prófuð á mönnum, enda flókið til rannsókna þar sem um margra ára ferli er að ræða og til þess þyrfti þúsundir heilbrigðra einstaklinga auk þess sem ýmsar siðfræðilegar spurningar vakna um hugsanlegar hliðarverkanir efnanna. Tvær erlendar rannsóknir hafa t.d. sýnt að neysla á beta-karotíni, sem talið er verndandi efni, jók hættuna á lungnakrabbameini hjá stórreykingamönnum og þeim sem höfðu verið útsettir fyrir asbesti (Omenn, Goodman, Thornquist, o.fl., 1996; The Alpha-Tocopherol, Beta-Carotene Cancer Prevention Study Group,1994). Hins vegar gætti ekki þessara áhrifa hjá þeim sem reyktu lítið né hjá fyrrverandi reykingamönnum og þeim sem höfðu aldrei reykt.

Notkun verndandi efna hefur ekki verið viðurkennd sem stöðluð meðferð til að fyrirbyggja krabbamein og því ekki hægt að mæla með neinu ákveðnu efni til notkunar utan rannsókna hjá heilbrigðum einstaklingum. Hins vegar var tamoxifen (estrógen-antagonisti) nýlega samþykkt af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu (FDA) til að fyrirbyggja hættuna á brjóstakrabbameini hjá konum sem eru í aukinni áhættu (Costa og Redmond, 1999). Sú ákvörðun byggðist á 5 ára eftirliti þar sem kom í ljós að tíðni brjóstakrabbameins var 49% lægri hjá konum í áhættuhóp sem tóku 20mg/dag (Fisher o.fl., 1998). Talið er að meðferð með verndandi efnum muni gegna lykilhlutverki í baráttunni gegn krabbameini á næstu öld.

Fyrsta stigs forvarnir

  • Reykjum ekki
  • Notum áfengi í hófi
  • Virðum öryggisreglur á vinnustað
  • Forðumst geisla
  • Notum estrógen einungis ef nauðsyn krefur
  • Stundum hófleg sólböð, notum sólarvarnir
  • Borðum trefjaríkt fæði, minnkum fituneyslu og forðumst offitu
  • Borðum fjölbreytta fæðu, ávexti og grænmeti daglega
  • Stundum hreyfingu / líkamsrækt reglulega
  • Höfum stjórn á streitunni

Annars stigs forvarnir (secondary prevention) snúa að áhættuhópum og þeim sem eru með forstigseinkenni krabbameins. Þær felast því í að greina krabbamein á forstigi, að stöðva framgang sjúkdómsins og skilgreina einstaklinga/hópa sem eru í hættu (Mahon, 1995).

Áhættuþáttur er einkenni eða sérkenni sem tölfræðilega hefur verið sýnt fram á að tengist aukinni tíðni krabbameins (Mahon, 1995). Oftast er lýst þrenns konar áhættu. „Absolute“-áhætta vísar til fjölda krabbameinstilfella miðað við ákveðinn fjölda einstaklinga. Hlutfallsleg áhætta (relative risk) vísar til samanburðar á tíðni ákveðinnar tegundar krabbameins meðal fólks sem hefur ákveðinn áhættuþátt (t.d. reykir) og þeirra sem hafa hann ekki (reykja ekki). Tengd áhætta (attributable risk) vísar til fjölda krabbmeinstilfella meðal almennings sem hægt væri að fyrirbyggja með því að breyta/fjarlægja áhættuþættina.

Einn þáttur í annars stigs forvörnum er að fræða fólk um einkenni krabbameins og hvetja það til að bregðast við þeim. Konur þurfa sérstaklega að þekkja einkenni brjóstakrabbameins, leghálskrabbameins, krabbameins í eggjastokkum, ristli og húð (6. tafla). Hættumerki krabbameina, sem krabbameinsfélög víða um heim hafa dreift og kynnt, hafa hins vegar verið gagnrýnd og því haldið fram að þau séu í raun einkenni um langt genginn sjúkdóm (Eyre, 1999) og að koma þurfi til einfaldar rannsóknir til að greina krabbamein á frumstigi. Þannig rannsóknir eru hins vegar á tilraunastigi og enn ekki hagkvæmar til þess að nota hjá einstaklingum án sýnilegra ytri einkenna.

Krabbameinsleit hefur það að markmiði að greina sjúkdóminn hjá einstaklingum sem eru án ytri einkenna (Mahon, 1995). Til þess að leitin gagnist fólki þá þurfa leitaraðferðirnar að vera nógu nákvæmar og áreiðanlegar til þess að geta greint sjúkdóminn á forstigi og með-ferðarmöguleikar, sem í boði eru, þurfa að bera árangur. Varðandi skipulagða leit hér á landi sem og á flestum Norðurlöndunum hefur ekki þótt hagkvæmt hingað til að bjóða upp á annað en leit að krabbameini í brjóstum og leghálsi hjá konum og ekki hefur sérstaklega verið mælt með leit að öðrum tegundum krabbameina. Þrátt fyrir að bandarísk sérfræðisamtök og ameríska krabbameinsfélagið hafi um þó nokkurn tíma mælt sérstaklega með reglulegri leit að krabbameini í ristli og reglulegu líkams- og áhættumati m.t.t. krabbameina (Bond, 1999) hefur slíkt ekki verið áberandi í Evrópu en er sums staðar til endurskoðunar (Robinson og Hardcastle, 1998).

Í grein Hakama og Hristova (1997) kemur fram að nægjanlegar sannanir liggi einungis fyrir um gildi leitar að krabbameini í brjóstum, leghálsi og ristli til þess að draga úr dánartíðni. Framtíðarspá til ársins 2017, byggð á upplýsingum úr norrænu krabbameinsskránum, gerir ráð fyrir því að leit muni koma í veg fyrir 4000 dauðsföll af völdum þessara þriggja krabbameina á Norðurlöndunum, flest af völdum leghálskrabbameins (91%) en færri af völdum brjóstakrabbameins (18%) og ristilkrabbameins (18%). Höfundarnir álykta að um 6% af heildarkrabbameinsdauðsföllum á Norðurlöndum megi fyrirbyggja með leit (2% hjá körlum og 9,7% hjá konum) og eru þá konur betur staddar en karlar þó enn sé langt í land með forvarnir.

Einkenni hjá konum

Brjóstakrabbamein
– Hnútur eða fyrirferðaraukning í brjósti eða holhönd
– Breyting á húðlit og áferð, þykknun, appelsínuhúð
– Útferð úr geirvörtu eða inndregin geirvarta
– Breyting á stærð eða lögun brjósts
Leghálskrabbamein
– Óeðlileg blæðing eða blettablæðing, sérstaklega eftir samfarir
– Langvarandi útferð
Eggjastokkakrabbamein
– Þaninn kviður eða verkir
– Óútskýrð, óljós einkenni frá meltingarvegi, eins og ógleði, uppköst, lystarleysi, þyngdartap
Ristilkrabbamein
– Breyting á hægðavenjum, hægðatregða, niðurgangur, „mjóar“ hægðir
– Hægðir blóðugar eða svartar
– Blóðleysi, þyngdartap
– Verkir í kvið og við endaþarm
Húðkrabbamein
– Litabreyting á fæðingarbletti
– Breyting á lögun fæðingarbletts
– Óregluleg lögun fæðingarbletts
– Breyting á yfirborði fæðingarbletts
– Breyting á stærð eða fæðingarblettur stærri en 6 mm
– Húðbreytingar umhverfis fæðingarbletti
– Langvarandi hnútur, bólga eða sár sem grær ekki
– Nýir fæðingarblettir

Brjóstakrabbamein

Brjóstakrabbamein er algengasta tegund krabbameins hjá konum á Íslandi (Krabbameinsfélagið, 1999). Árlega greinast nú að meðaltali 132 konur og hefur árlegt nýgengi brjóstakrabbameins aukist um helming á síðustu fjörutíu árum (1956-60 = 36,4 og 1991-5 = 74,2). Ætla má að tíunda hver kona á Íslandi fái brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni. Meðalaldur kvenna vi&et h; greiningu er 61 ár og þegar skoðuð eru mismunandi aldursskeið sést að líkurnar á að fá brjóstakrabbamein aukast með hækkandi aldri (7. tafla) (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Þegar litið er til lands-hluta er nýgengi brjóstakrabbameins hæst í Reykjavík, í Reykjaneskjördæmi og á Suðurlandi en lægst á Vest-fjörðum (Jón Hrafnkelsson og Jónas Ragnarsson, 1998). Dánartíðni af völdum brjóstakrabbameina stóð lengi í stað en hefur hækkað á undanförnum árum (Heilbrigðismál, 1997b). Árlega deyja nú að meðaltali um 44 konur vegna brjóstakrabbameins og þar af eru 60% yngri en 70 ára. Brjóstakrabbamein er algengasta dánarmein kvenna á aldrinum 45-54 ára (22%) og 55-64 ára (18%) ( Sigríður Vilhjálmsdóttir, 1998). Fimm ára lífshorfur kvenna, sem greinast með brjóstakrabbamein, eru nú um 80% og er það aukning úr 54% frá árunum 1956-60 (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Í árslok 1998 voru 1323 konur á lífi sem greinst hafa með brjóstakrabbamein (Heilbrigðismál, 1999). 7. tafla. Greind brjóstakrabbamein og aldursflokkar 1991-1995

Aldursflokkar Aldursbundið
nýgengi/100.000
Árlegur meðalfjöldi
15-39 ára 12,8 7
40-54 ára 175,0 37
55-69 ára 268,5 41
70 ára og eldri 268,2 31

Í flestum tilvikum eru orsakir brjóstakrabbameins ekki þekktar (Helzlsouer, 1995) en margir áhættuþættir hafa verið greindir (8.tafla). Konur, sem hafa einn eða fleiri áhættuþátt, eru í aukinni hættu miðað við konur sem hafa þá ekki. Hins vegar má einungis rekja innan við 40% tilfella til aðaláhættuþáttanna og þannig eru þeir einungis gagnlegir til að meta áhættu fyrir sumar konur en ekki allar. 8. tafla Áhættuþættir brjóstakrabbameins

Áhættuhópur Samanburðarhópur Margfeldi áhættu
Aldur > 60 <40 4-5
Brjóstakrabbamein áður Nei 2-4
Brjóstakrabbamein í ættinni náskyldir ættingjar móðir/systir/dóttir Nei 2-4
fleiri en tveir náskyldir ættingjar Nei 4-6
Aldur við fyrstu tíðir <12 >14 1,1-2
Aldur fyrsta fæðing >30 <20 1,1-2
Aldur við tíðahvörf >55 <54 1,1-2
Góðkynja sjúkdómur í brjóstum Ekki sýni 1,1-2
Offita (>kjörþyngd) 90% 10% 1,1-2
P-pilla >10 ár, krabbamein<45 ára aldrei notað 1,0-2,0
Estrógen við tíðahvörf >6 ár aldrei 1,1-2,0
Áfengi 1-2 dr./dag aldrei 1,1-2,0
Fituneysla >38% af orku <28% af orku engin tengsl-1,5

Þekktir áhættuþættir eru flestir hormónatengdir og tengjast frjósemis- og blæðingaskeiði konunnar. Langt frjósemistímabil, barnleysi, seinkun barneigna og notkun hormóna eru talin auka líkur á brjóstakrabbameini. Niðurstöður rannsókna benda til að getnaðarvarnapillan hafi minni áhrif á myndun brjóstakrabbameina en talið var en áhættan geti verið meiri hjá konum sem byrja notkun fyrir 20 ára aldur (Tryggvadóttir, Tulinius, Gudmundsdóttir o.fl., 1997). Tengsl tíðahvarfahormóna við brjóstakrabbamein hafa mikið verið rannsökuð og benda niðurstöður til þess að notkun þeirra í 5 ár og skemur hafi ekki áhrif en notkun lengur en í 6-10 ár geti aukið hættuna.

Erfitt er að rannsaka orsakasamband mataræðis og krabbameins (Willett, 1995). Mest hefur athyglin beinst að því hvort mjög fiturík fæða auki hættuna. Þrátt fyrir að tíðni brjóstakrabbameins sé hærri í þeim löndum þar sem fituneysla er meiri, þá er það ekki einhlít ábending um að fiturík fæða auki hættuna, því þær þjóðir sem neyta mikillar fitu eru jafnframt efnahagslega vel settar. Í þeim þjóðfélögum er algengara að konur byrji fyrr á blæðingum, fæði börn sín seint og eigi færri börn, en það eru viðurkenndir áhættuþættir brjóstakrabbameins (Hunter og Willett, 1996; Kohlmeier og Mendez, 1997). Niðurstöður framsýnna rannsókna á 5-10 ára tímabili, sem báru saman fituneyslu kvenna sem fengu brj&o acute;stakrabbamein og þeirra sem fengu það ekki, styðja ekki sambandið þar á milli. Rannsakendur útiloka ekki að samband geti komið í ljós mörgum árum seinna eða að fituneysla barna og unglinga geti skipt máli, en benda á að konur á miðjum aldri geti ekki búist við að minnka hættuna næstu 10 árin eftir að þær minnka fituneyslu. Á sama tíma og heildarfituneysla virðist ekki skipta máli virðist einómettuð fita vera verndandi. Nýlegar rannsóknir í Evrópu sýna að konur, sem neyta eða elda úr ólífuolíu sem inniheldur mikið af einómettaðri fitu, eru í minni hættu en konur í sama landi sem nota lítið af ólífuolíu (Trichopoulu, Katsouyanni, Stuver o.fl., 1995). Margar rannsóknir hafa gefið til kynna að aukin grænmetisneysla geti minnkað hættuna á brjóstakrabbameini um allt að 20% (Hunter, Manson, Colditz o.fl., 1993). Óljóst er hvaða grænmeti nákvæmlega þetta er en bent er á að gulrætur, spergilkál og fleiri káltegundir eigi þar hlut að máli. Margir hafa bent á að áfengi geti aukið hættuna, að tveir drykkir (30g) á dag að meðaltali geti aukið hættuna um 25-40 % (Longnecker, 1994; Smith-Warner, Spiegelman, Yan o.fl., 1998) vegna hugsanlegra áhrifa þess á estrógenaukningu í blóði eða vegna beinna áhrifa alkóhóls á brjóstvefinn.

Rannsóknir benda til að of mikil hitaeininganeysla ásamt skorti á hreyfingu geti aukið hættuna (Harvard Report,1996). Margir hafa greint frá tengslum offitu og brjóstakrabbameins, en hættan virðist einungis aukast hjá konum eftir tíðahvörf. Hjá konum eftir tíðahvörf er fituvefur aðaluppspretta estrógena. Líklegt er að offita í tengslum við aðra áhættuþætti eins og litla hreyfingu auki hættuna. Þrátt fyrir að tengsl hreyfingar og brjóstakrabbameins séu að margra mati óljós (Friedenreich og Rohan, 1995) gefa rannsóknir til kynna að hreyfing geti haft verndandi áhrif (Mittendorf o.fl., 1995; Thune, Brenn, Lund og Gaard, 1997). Niðurstöður norskrar rannsóknar leiddu í ljós að konur, sem stunduðu reglulega líkamsrækt, voru í 37% minni hættu á að fá brjóstakrabbamein en þær sem ekki stunduðu líkamsrækt (Thune, Brenn, Lund og Gaard, 1997). Hættan var minnst hjá konum sem höfðu ekki hafið tíðahvörf, voru yngri en 45 ára og stunduðu líkamsrækt a.m.k. 4 klukkustundir vikulega. Fyrir utan áhrif hreyfingar á líkamsþyngd og offitu er talið að hreyfing minnki magn estrógena í líkamanum. Hreyfing geti því stytt seinni hluta tíðahringsins og lengt hvern tíðahring en hvort tveggja minnkar heildarmagn estrógena, og það hefur áhrif á myndun brjóstakrabbameins.

Talið er að um 15% brjóstakrabbameina séu ættlæg, og sést það á því að konurnar eiga náinn ættingja sem hefur greinst með brjóstakrabbamein. Samkvæmt niðurstöðum íslenskra rannsókna er hætta mæðra og systra þeirra kvenna, sem fá brjóstakrabbamein, 2-3 sinnum meiri en almennt gerist hjá íslenskum konum (Tulinius, Sigvaldason, Ólafsdóttir og Tryggvadóttir, 1992). Af þessum 15% er líklegt að 6-10% beri áhættugen (arfgengt krabbamein). Tvö brjóstakrabbameinsgen, BRCA1 og BRCA2 tengjast stórum hluta brjóstakrabbameina sem erfast. Íslenskar rannsóknir hafa þó leitt í ljós að hætta kvenna, sem bera BRCA2, á að fá brjóstakrabbamein er mun minni en áður var talið, þ.e. 37% í stað 80% (Steinunn Thorlacius o.fl., 1998).

Fyrsta stigs forvarnir miða að því að koma í veg fyrir að brjóstakrabbamein myndist eða þróist áfram (Helzlsouer, 1995) og almennt er mælt með að forðast þekkta áhættuþætti. Ljóst er að forvarnaaðgerðirnar þurfa að vera hagkvæmar og er þá helst að leggja áherslu á mataræði og leiðir til að hafa áhrif á hormónabúskap líkamans. Þrátt fyrir að ýmsar forvarnaaðgerðir hafi verið rannsakaðar er engin ein aðferð árangursrík til þess að koma í veg fyrir sjúkdóminn. Meðal annars hafa áhrif verndandi efna verið rannsökuð, t.d. tamoxifen sem áður hefur verið nefnt, rannsóknir á áhrifum A- og E-vítamína og beta-karótíns eru í gangi, og áhrif mataræðis, sérstaklega fituríks fæðis, hafa verið könnuð. Þrátt fyrir mismunandi niðurstöður og ágreining um hvort hættan stafi af fitunni sem slíkri eða orkuinnihaldi fitunnar hafa dýratilraunir leitt í ljós að mikil fita í fæðu eykur hættu á brjóstakrabbameini. Þá virðast ómega-6 fitusýrur auka myndun krabbameina en ómega-3 fitusýrur draga úr myndun þeirra. Miðað við ofangreindar upplýsingar ættu fyrsta stigs forvarnir að leggja áherslu á að takmarka áfengisneyslu, borða ávexti og grænmeti, stunda líkamsrækt og forðast offitu (Hunter og Willett, 1996).

Leiðbeiningar um leit að krabbameini í brjóstum eru að nokkru leyti mismunandi eftir löndum (Helzlsouer, 1995), sérstaklega m.t.t. brjóstamyndatöku hjá konum yngri en 50 ára. Ameríska krabbameinsfélagið mælir með mánaðarlegri sjálfskoðun brjósta frá tvítugu, árlegri klínískri brjóstaskoðun eftir fertugt, brjóstamyndatöku annað hvert ár fyrir konur 40-49 ára og árlega eftir 50 ára. Svíar mæla með brjóstamyndatöku á 18 mánaða fresti hjá konum 40-54 ára og annað hvert ár 55-74 ára. Ameríska öldrunarfélagið mælir með að regluleg brjóstamyndataka bjóðist konum a.m.k. fram að 85 ára aldri eða svo lengi sem heilsa leyfir. Á Íslandi er mælt með mánaðarlegri sjálfskoðun eftir tvítugt og konur eru boðaðar á tveggja ára fresti frá 40-69 ára í brjóstamyndatöku (Krabbameinsfélagið, 1999). Sjálfskoðun brjósta er einfaldasta leiðin en árangur hennar er umdeildur. Sumir hafa haldið fram að konur séu í 3-4 faldri mi nni hættu á að vera með langt gengið brjóstakrabbamein við greiningu ef þær framkvæma reglulega sjálfsskoðun (Foster, Worden, Costanza og Solomon, 1992; Hill, White, Jolley o.fl., 1988; Wood, 1996) en aðrir benda á að varast beri að draga ályktanir um áhrif sjálfskoðunar á dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins (Day, 1988). Hins vegar, þrátt fyrir augljósa kosti sjálfskoðunar, hafa erlendar og innlendar kannanir sýnt að fáar konur stunda reglubundna sjálfskoðun (Gunnlaugur Geirsson, 1983; Wardle o.fl., 1995) og þar eru hjúkrunarfræðingar engin undantekning (Heyman o.fl., 1991). Í rannsókn meðal evrópskra kvenna á aldrinum 17-30 ára kom í ljós að einungis 6% íslenskra kvenna framkvæmdu reglulega sjálfskoðun (10x eða oftar á ári), 72% sögðust aldrei framkvæma hana (Wardle o.fl., 1995). Í nýlegum upplýsingum frá Krabbameinsfélagi Íslands kemur fram að á 10 ára tímabili (1989-1998) framkvæmdu einungis 35% kvenna á aldrinu 40-69 ára reglulega sjálfskoðun og var það um 10% aukning samanborið við tímabilið 1979-1988 (Elínborg Ólafsdóttir, 1999). Æskilegt er að sjálfskoðun brjósta sé framkvæmd 7-10 dögum eftir blæðingar og konur, sem eru þungaðar eða hættar á blæðingum, hafi ákveðinn dag mánaðarlega.

Brjóstamyndataka er álitin áreiðanlegasta greiningaraðferðin og er talin geta greint æxli 1-2 árum áður en þau verða þreifanleg (Helzlsouer, 1995). Þó hefur verið bent á að sum þreifanleg æxli (10%) sjáist ekki í brjóstamyndatöku. Regluleg myndataka hefur reynst áreiðanlegust fyrir konur 50-69 ára og dregið úr dánartíðni um 25-30% (Antman og Shea, 1999). Umdeilt er gildi hennar hjá yngri og eldri aldurshópum og er almennt ekki mælt með myndatökunni nema helst hjá þeim sem eiga nána ættingja sem hafa fengið brjóstakrabbamein (Antman og Shea, 1999). Þrátt fyrir áherslur á gildi brjóstamyndatöku hefur ekki tekist að ná 80-90% markmiðinu um mætingu í brjóstamyndatöku. Tveggja ára mæting kvenna í brjóstamyndatöku á Íslandi við árslok 1998 var 63% (Krabbameinsfélagið, 1999). Þá höfðu 13,5% kvenna (5629 konur) á aldrinum 40-69 ára aldrei mætt til brjóstamyndatöku.

Lungnakrabbamein

Lungnakrabbamein Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi (Krabbameinsfélagið, 1999) en það er öfugt við Norðurlöndin í heild þar sem það er í þriðja sæti (Association of the Nordic Cancer Registries, 1999). Árlega greinist nú að meðaltali 51 kona með lungnakrabbamein og hefur aukning á árlegu nýgengi þess verið mest miðað við aðrar tegundir krabbameina, úr 6,6 (1956-60) í 32,0 (1991-5). Þannig hefur tíðni lungnakrabbameins meira en fjórfaldast hjá konum á fjórum áratugum. Meðalaldur kvenna, sem greinast með lungnakrabbamein, er 67 ár og á mismunandi aldursskeiðum er aldursbundið nýgengi mest hjá þeim sem eru 70 ára og eldri (9. tafla) (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Miðað við karla hafa konur hærra nýgengi í báðum aldursflokkunum yngri en 70 ára og er það talið skýrast af auknum reykingum kvenna eftir síðari heimsstyrjöldina.

Hjá konum er nýgengi lungnakrabbameina hæst í Reykjaneskjördæmi og í Reykjavík en lægst á Vestfjörðum (Jón Hrafnkelsson og Jónas Ragnarsson, 1998). Árlega deyja nú að meðaltali 46 konur vegna lungnakrabbameins og þar af er rúmlega helmingur yngri en 70 ára. Dánartíðni af völdum lungnakrabbameins hjá konum hefur aukist um 20% á síðustu 20 árum en staðið í stað hjá körlum. Lungnakrabbamein er mannskæðasta krabbameinið hjá báðum kynjum og fimm ára lífshorfur eru um 5-12% (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Í árslok 1998 voru 97 konur á lífi sem greinst hafa með lungnakrabbamein (Krabbameinsfélagið, 1999). 9. tafla. Greind lungnakrabbamein og aldursflokkar 1991-1995

 

Aldursflokkar Aldursbundið
nýgengi/100.000
Árlegur meðalfjöldi
40-54 ára 38,3 8
55-69 ára 131,7 20
70 ára og eldri 194,8 22

Vel er þekkt að reykingar eru stærsti áhættuþáttur lungnakrabbameins og eru reykingar taldar orsök um 30% dauðsfalla af völdum krabbameins (Samet, 1995). Reykingamenn eru í þrettánfalt meiri hættu á að fá lungnakrabbamein heldur en þeir sem ekki reykja og má rekja yfir 90% lungnakrabbameina til reykinga. Áhættan er m.a. háð fjölda sígaretta á ári, aldri þegar reykingar hefjast, fjölda ára sem reykt er, fjölda sígaretta á dag og tíma frá því að viðkomandi hætti (10. tafla).

Samkvæmt könnunum á reykingavenjum hafa íslenskar konur verið í hópi þeirra Evrópukvenna sem reykja mest. Íslenskar konur hafa verið í 10. sæti af 31 þjóð í Evrópu en íslenskir karlar hins vegar í 30. sæti. Kannanir Hagvangs sýna að hlutfall kvenna, sem reykja daglega, hefur minnkað úr 37% árið 1985 niður í 27% 1996 (Heilbrigðismál, 1997a). Niðurstöður íslenskra rannsókna leiða í ljós að konur auka hættu sína á að fá lungnakrabbamein meira en karlar miðað við sömu reykingar (Hrafn Tulinius, Nikulás Sigfússon, Helgi Sigvaldason o.fl., 1997). Hjá rúmlega 3000 Íslendingum, sem greinst höfðu með krabbamein frá 1968-1995, komu í ljós marktæk tengsl reykinga við lungnakrabbamein hjá báðum kynjum. Hjá þeim sem reyktu mest (fleiri en 25 á dag) var hættan, miðað við þá sem ekki reykja, meiri hjá konum (RR=44) en körlum (RR=29). Samræmist það niðurstöðum annarra rannsókna um að konur séu í meiri hættu (Hrafn Tulinius o.fl., 1997).

Reykingar eru eitt helsta heilbrigðisvandamál á Íslandi. Enn reykja um 30% kvenna og hafa reykingar meðal yngri kvenna aukist á undanförnum árum (Hagvangur, 1998). Reykingar eru langhelsta orsök krabbameina sem hægt er að beita forvörnum gegn. Áætlað hefur verið að forða.

10. tafla. Hætta á lungnakrabbameini vegna reykinga

Reykingar Margfeldi áhættu
(relative risk)
Magn>
1-500 sígarettur á ári 4,0
501-1000 9,7
1001-1500 16,6
1501+ 27,4
Byrjunaraldur
Yngri en 15 ára 16,0
16-20 ára 11,4
21 árs eða eldri 6,9
Árafjöldi sem reykt er
1-25 ár 3,7
26-40 ár 13,3
41 ár eða meira 20,9
Daglegur fjöldi
1-20 sígarettur 6,5
21-40 sígarettur 13,0
>41 sígarettur 23,0
Fjöldi ára frá því hætt var
<5 12,8
6-10 8,1
>11 3,5

Reykingar eru langhelsta orsök krabbameina sem hægt er að beita forvörnum gegn. Áætlað hefur verið að forða megi árlega 75 konum á Íslandi frá því að fá krabbamein ef konur reyktu ekki á Íslandi (Olsen, Andersen, Dreyer, o.fl., 1997). Þær staðreyndir, sem faraldursfræðilegar rannsóknir hafa leitt í ljós um orsakir lungnakrabbameins, hafa beint sjónum að fyrsta stigs forvörnum. Annars stigs forvarnir út af lungnakrabbameinum hafa ekki reynst árangursríkar né hagkvæmar hingað til.

RReykingaforvarnir og aðstoð við fólk, sem vill hætta að reykja eru meginleiðirnar í forvörnum. Margar leiðir hafa verið farnar (Risser, 1996; Samet, 1995) sem ekki verða til umfjöllunar hér en ýmsar framsýnar rannsóknir hafa sýnt fram á gildi þess að hætta reykingum m.t.t. lungnakrabbameins (Harvard Report, 1996). Ljóst er að þeim mun yngri sem menn byrja þeim mun meiri er áhættan. Þeir þættir, sem greinilega hafa áhrif á að börn og unglingar byrja að reykja, er aðgangur að tóbaki og verð, þrýstingur frá félögum, auglýsingum, bíómyndum, fyrirmyndum og umhverfinu almennt. Einnig virðast stúlkur með lágt sjálfsálit og þær sem álíta sig ekki hafa stjórn á heilsu sinni vera líklegri til að byrja að reykja (Amos, 1996). Reykingar hjá börnum og unglingum eru lært atferli (Eiríkur Líndal, 1996) og forvarnir þurfa að beinast að mörgum áhrifaþáttum. Þá skiptir þátttaka heimila, skóla og íþróttafélaga, þar sem börn fá sitt uppeldi, ásamt þátttöku stjórnvalda miklu máli.

Óvíst er um áhrif mataræðis og verndandi efna til varnar gegn krabbameini hjá reykingamönnum (Samet, 1995). Bent er á að raunhæfara sé að slíkar leiðbeiningar geti frekar gagnast þeim sem eru hættir að reykja til þess að draga úr hættunni á krabbameini. Sumir hafa þó sýnt fram á að reykingamenn og fyrrverandi reykingamenn, sem auka neyslu á grænmeti, sérstaklega grænu og gulu, minnki hættu á lungnakrabbameini (Zeigler, Mayne og Swanson, 1996). Hins vegar er sá sem reykir, þrátt fyrir að hann borði stærstu hugsanlegu grænmetisskammta, í mun meiri hættu á að fá lungnakrabbamein heldur en sá sem ekki reykir. Umdeilt er hvaða efni nákvæmlega eru verndandi. Löngum var talið að beta-karotín hefði verndandi áhrif og til skamms tíma mæltu Kanadamenn sérstaklega með því að reykingamenn neyttu daglega beta-karótínríkrar fæðu. Í tveimur rannsóknum hefur verið sýnt fram á að neysla þess í stórum skömmtum sem fæðubótarefnis getur aukið hættuna á lungnakrabbameini hjá stórreykingamönnum eins og áður hefur verið getið (Omenn, Goodman, Thornquist o.fl., 1996). Þess vegna ber að varast að mæla almennt með ákveðnum fæðubótarefnum í stórum skömmtum í forvarnaskyni.

Ristilkrabbamein

Nú greinast árlega á Íslandi að meðatali 35 konur með krabbamein í ristli og er það þriðja algengasta krabbameinið hjá konum (Krabbameinsfélagið, 1999). Árlegt nýgengi hefur aukist úr 9,1 (1956-60) í 14,5 (1991-95) og er meirihluti kvennanna 70 ára og eldri (70%). Meðalaldur við greiningu er 73 ár. Nýgengi ristilkrabbameins er hæst hjá konum í Reykjavík og lægst á Vestfjörðum, en lítill munur er á milli landshluta (Jón Hrafnkelsson og Jónas Ragnarsson, 1998). Árlega deyja að meðaltali um 15 konur vegna ristilkrabbameins og þar af er þriðjungur yngri en 70 ára. Fimm ára lífshorfur kvenna, sem fá ristilkrabbamein, eru um 66% og í árslok 1997 voru 218 konur á lífi sem greinst hafa með krabbamein í ristli (Krabbameinsfélagið, 1999).

Helstu áhættuþættir ristilkr abbameins tengjast aldri (>50 ára), mataræði (trefjasnautt, fituríkt, orkuríkt), bólgusjúkdómum í ristli, kirtilæxlum og ættgengi (Shike, 1999; Winawer og Shike, 1995). Talið er að um 90% ristilkrabbameina byrji sem góðkynja kirtilæxli. Kirtilæxli geta erfst (familial adenomatous polyposis) og eru tvær slíkar ættir á Íslandi. Ristilkrabbamein án þess að fyrst komi kirtilæxli getur einnig erfst (LYNC I og II) (Winawer og Shike, 1995). Þekktir eru nokkrir erfðavísar ristilkrabbameins og um 15% þeirra sem greinast bera þá. Líkurnar á að fá sjúkdóminn eru 30 sinnum meiri beri maður erfðavísi. Varðandi mataræði er ristilkrabbamein sjaldgæfara í löndum þar sem kjötneysla er lítil og hjá vestrænum þjóðum meðal þeirra sem borða grænmetisfæðu eins og meðal sjöundadagsaðventista (Potter, 1996). Framsýnar rannsóknir benda til að mikil neysla á rauðu kjöti auki líkurnar og geti það hugsanlega verið vegna dýrafitunnar í kjötinu. Þrátt fyrir mismunandi niðurstöður draga flestir þá ályktun að of mikil fituneysla (meiri en 30% af heildarorkuneyslu) eigi sinn þátt í myndun ristilkrabbameins (Potter, 1996; Winawer og Shike, 1995). Í norrænni rannsókn kom í ljós að tíðni ristilkrabbmeins var hærri meðal Dana en Finna þrátt fyrir svipaða fituneyslu. Hins vegar neyttu Finnarnir meira af trefjum en Danirnir sem bendir til að að trefjarnar hafi á einhvern hátt haft verndandi áhrif (Jensen, MacLennan og Wahrendorf, 1982). Trefjar (a.m.k. 25g/dag) hafa löngum verið taldar verndandi og virðist grænmeti (spergilkál, blómkál, blaðkál, rósakál) og ávextir draga meira úr hættunni en korntrefjar. Þetta vekur upp þá spurningu hvort það eru einhver önnur efni í grænmeti og ávöxtum sem stuðli að vernd. Fólínsýra (fólat), sem finnst m.a. í grænu grænmeti og ávöxtum, hefur verið tengd minni hættu á kirtilæxlum og ristilkrabbameini. Mikil áfengisneysla, sérstaklega í tengslum við fólínsýruskort, er talin auka hættuna (Harvard Report, 1996). Skýrustu niðurstöður um verndandi áhrif hreyfingar hafa komið í ljós í tengslum við ristilkrabbamein (Giovannucci, Colditz, Stampfer og Willett, 1996; Thune og Lund, 1996). Í norskri rannsókn, þar sem 25 þúsund konum var fylgt eftir í 14 ár, kom í ljós að konur, sem gengu eða hjóluðu í a.m.k. 4 tíma á viku, voru í minni hættu á að fá ristilkrabbamein en konur sem stunduðu ekki þessa hreyfingu (Thune og Lund, 1996). Það eru a.m.k. tvær skýringar á því hvernig hreyfing getur verið verndandi. Hreyfing er mikilvæg fyrir ristilinn til að starfa eðlilega og flýtir fyrir losun hægða úr ristlinum og dregur þannig úr snertingu við krabbameinsvaldandi efni. Einnig getur hreyfing aukið HDL (high-density lipoprotein) og þar með dregið úr blóðsykri og insúlíni, en mikið insúlínmagn í blóði er talið geta stuðlað að æxlisvexti í ristli. Af ofangreindu má ætla að fyrsta stigs forvarnir m.t.t. ristilkrabbameins feli í sér að forðast fituríkt fæði og rautt kjöt, borða meira kornmeti, grænmeti og ávexti, hreyfa sig reglulega og forðast offitu (Potter, 1996). Skipulögð leit að krabbameini í ristli er umdeild hjá öðrum en þeim sem eiga ættingja sem hefur fengið ristilkrabbamein (Winawer og Shike, 1995). Tilgangur leitar er að greina kirtilæxli og ristilkrabbamein snemma á læknanlegu stigi. Fimm ára lífshorfur þeirra sem greinast með ristilkrabbamein á byrjunarstigi eru 85% samanborið við 38% sjúklinga á seinni stigum og eru flestir á seinni stigum þegar þeir finna fyrir einkennum. Á Íslandi hefur hingað til ekki verið mælt með skipulagðri leit hjá almenningi, tilraun til leitar var gerð árið 1987 en þótti ekki hagkvæm. Ameríska krabbameinsfélagið mælir hins vegar með árlegri þreifingu, árlegri leit að blóði í hægðum og ristilspeglun á 3-5 ára fresti hjá öllum 50 ára og eldri (Bond, 1999). Leiðbeiningarnar byggjast á leitarrannsóknum þar sem allar þessar aðferðir hafa stuðlað að því að fleiri greinast fyrr en ella og samsvarandi lífslengingu samanborið við tilfelli sem hafa greinst án skipulagðrar leitar (Winawer og Shike, 1995). Talið er að árleg leit að blóði í hægðum geti minnkað dánartíðni ristilkrabbameina um 30% og ásamt ristilspeglun á 5 ára fresti um 40-50% (Bond, 1999; Eddy, 1990).

Eggjastokkakrabbamein

Krabbamein í eggjastokkum er fjórða algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi (Krabbameinsfélagið, 1999). Árlega greinast nú að meðaltali 27 konur og meðalaldur við greiningu er 59 ár. Árlegt nýgengi hefur aukist um tæplega helming á síðustu áratugum, úr 12,3 (1956-60) í 19,1 (1991-95). Krabbamein í eggjastokkum er annað algengasta krabbamein hjá konum á aldrinum 40-54 ára en aldursbundið nýgengi er mest hjá konum á aldrinum 55-69 ára (Laufey Tryggvadóttir, 1998). Nýgengið er hæst á Norðurlandi og lægst á Suðurlandi (Jón Hrafnkelsson og Jónas Ragnarsson, 1998). Árlega deyja um 14 konur vegna eggjastokkakrabbameins og þar af er rúmlega helmingur (58%) yngri en 70 ára. Fimm ára lífshorfur þessara kvenna eru um 75% og í árslok 1998 voru 252 konur á lífi sem hafa verið greindar með krabbamein í eggjastokkum (Heilbrigðismál, 1999). Eggjastokkarnir eru flókið líffæri og lítið er vitað um orsakir krabbameins þar, en mest hefur verið fjallað um tengsl við aldur, fæðingar, notkun frjósemislyfja, ættgengi og erfðir (Daly, Bookman og Lerman, 1995). Líkurnar aukast eftir 55 ára aldur og konur, sem ekki hafa fætt börn, hafa verið ófrjóar og notað frjósemislyf, eru í meiri hættu. Sterkust eru tengslin við ættgengi og fjölda fæðinga. Almennt eru konur, sem hafa fætt 3 börn eða fleiri, í 30-50% minni hættu á að fá eggjastokkakrabbamein samanborið við konur sem aldrei hafa fætt börn. Vel eru þekkt verndandi áhrif getnaðarvarnarpillunnar jafnvel í tilvikum þar sem krabbamein er ættlægt. Þegar náinn ættingi (móðir/systir) hefur greinst með eggjastokkakrabbamein tvöfaldast hættan og konur greinast yngri en ella. Hættan eykst enn frekar þegar um aðrar tegundir krabbameina hefur verið að ræða í fjölskyldunni, eins og krabbamein í brjóstum, ristli og legbol. Þrjár mismunandi erfðamyndir hafa verið greindar sem gefa til kynna hversu flókið ferlið er í myndun eggjastokkakrabbameins. Ein þeirra tengist stökkbreyttum brjóstakrabbameinsgenum BRCA1 og BRCA2 en 45% þeirra kvenna, sem bera BRCA1, og 25% þeirra sem bera BRCA2 eiga á hættu að fá krabbamein í eggjastokka (Narod, Risch og Moslehi o.fl., 1998). Í ljósi áhættuþátta, fjölda kvenna, sem greinast, og aðferða, sem þekktar eru í dag, ættu fyrsta og annars stigs forvarnir að beinast að vel skilgreindum áhættuhópum (Daly, Bookman og Lerman, 1995). Oftast er þá miðað við sjúkdóminn í fjölskyldunni, þ.e. þegar móðir og/eða systir hafa greinst með eggjastokkakrabbamein. Umdeild er sú leið að láta fjarlægja eggjastokkana og óljóst hvaða áhrif það hefur á dánartíðnina. Auk þess hefur verið bent á hugsanlega hættu á kviðarholskrabbameini í kjölfarið. Margir mæla hins vegar með getnaðarvarnarpillunni sem vörn hjá áhættuhópum í ljósi rannsóknarniðurstaðna þar sem fram kom að hættan minnkaði um 40-60% við notkun í 6 ár eða lengur. Sjaldgæft er að eggjastokkakrabbamein greinist á byrjunarstigi enda engar áreiðanlegar aðferðir til snemmgreiningar (Daly o.fl., 1995). Þær aðferðir, sem notaðar eru, þreifing, leggangaómun og mæling á æxlisvísi CA-125, virðast ekki vera áreiðanlegar leitaraðferðir hjá konum almennt en geta gagnast konum í áhættuhóp.

Lokaorð

Krabbameini verður sennilega aldrei útrýmt og þess vegna sjá margar konur ekki gildi þess að beita forvörnum gegn því. Flestir eru þó sammála um að spurningin sé ekki hvort heldur hvenær og hvernig skuli að forvörnum staðið til þess að draga úr tíðni krabbameina og stuðla að því að þau greinist nógu snemma.

Margir halda því fram að hægt sé að fyrirbyggja krabbamein (Harvard Report, 1996; Olsen, Andersen, Dreyer o.fl.,1997). Vísindamenn Harvard-krabbameins-forvarnastofnunarinnar halda því fram að hægt sé að fyrirbyggja krabbamein (Harvard Report, 1996). Sú fullyrðing byggist á því að 2/3 dauðsfalla af völdum krabbameina megi rekja til reykinga, matarræðis, offitu og skorts á hreyfingu, þáttum sem er hægt að breyta. Þeir benda á að þetta sé hins vegar langtímaverk og árangurinn muni sjást smám saman. Þegar allt kemur til alls byggjast forvarnir krabbameina á lífsstílsbreytingum hvers og eins, stefnu og ákvörðunum stjórnvalda, félagslegum breytingum og framtíðarrannsóknum. Breyta þarf hugsunarhætti almennings um krabbamein, mörg krabbamein er hægt að lækna ef þau greinast nógu snemma. Þess vegna er mikilvægt að fara reglulega í skoðun og bregðast við einkennum tímanlega. Flestir telja sig ekki hafa stjórn á því hvort þeir fá krabbamein og allir vilja skiljanlega fá lækningu við krabbameini, en varla til þess að geta haldið áfram óhollum lífsháttum eða til þess að horfa fram hjá einkennum! Framtíðin felst í eflingu forvarna. Hlutverk hjúkrunarfræðinga á þessum vettvangi ætti að vera að aðstoða og fræða konur um gildi þess að breyta um lífsstíl, kenna þeim hver einkenni krabbameina eru og fræða um gildi reglulegrar skoðunar (White og Spitz, 1993). Fræðsluhlutverk hjúkrunarfræðinga gagnvart konum er stórt og ætti að ná til þriggja kynslóða (amma, mæðra og dætra). Hjúkrunarfræðingar ættu að geta boðið upp á einstaklingshæft áhættumat. Við reglubundna upplýsingasöfunun á hvaða starfsvettvangi sem er ættu hjúkrunarfræðingar að geta greint hættuþætti og einkenni hjá hverjum og einum og brugðist við á viðeigandi hátt. Síðast en ekki síst mega hjúkrunarfræðingar ekki gleyma hlutverki sínu sem fyrirmynd og byrja á því að taka til í eigin garði.

Heimildir

Amos, A. (1996). Women and smoking. British Medical Bulletin, 52(1), 74-89.
Antman, K., & Shea, S. (1999). Screening mammography under age 50. Journal of the American Association, 281(16), 1470-1472.
Association of the Nordic Cancer Registries (1999). Cancer in the Nordic Countries. Nordic Cancer Registries. Bond, J.H. (1999). Screening guidelines for colorectal cancer. American Journal of Medicine, 106(1A), 7S-10S.
Costa, A., & Redmond, K. (1999). Chemoprevention of cancer. Oncology Nurses Today, 4(2), 18-20.
Daly, M., Lerman, C., & Bookman, M.(1995). Female reproductive tract: Cervix, endometrium, ovary. Í P. Greenwald, B. Kramer & D. Weed (ritstj.), Cancer prevention and control (bls.509-536). New York: Marcel Dekker.
Day, N. (1988). Self examination of the breast. British Medical Journal, 297, 624.
Doll, R. (1998). Epidemiological evidence of the effects of behaviour and the environment on the risk of human cancer. Recent Results in Cancer Research, 154, 3-21.
Eddy, D.M. (1990). Screening for colorectal cancer. Annals of Internal Medicine, 113, 373-384.
Eiríkur Líndal (1996). Reykingar — upphaf og lok. Heilbrigðismál, 4, 27- 30.
Elínborg Ólafsdóttir (1999). Sjálfsskoðun brjósta 1979-88 og 1989-1998. Krabbameinsfélag Íslands. Óbirtar tölur.
Engeland, A., Haldorsen, T., Tretli, S., Hakulinen, T., Horte, L.G., o.fl. (1993). Prediction of cancer incidence in the Nordic countries up to the years 2000 and 2010. A collaborative study of the five Nordic cancer registries. Acta pathologica microbiologica et immunologica Scandinavica, 38, S1-S124.
Engelking, C. (1994). New approaches: Innovations in cancer prevention, diagnosis, treatment, and support. Oncology Nursing Forum, 21(1), 62-71.
Eyre, H. (1999). Highlights from the American Cancer Society´s 41 st science writers seminars. CA: A Cancer Journal for Clinicians, 49(3), 131-134.
Fisher, B., o.fl. (1998). Tamoxifen for prevention of breast cancer: report of the National Surgical Adjuvant Breast and Bowel Projec t P-I study. Journal National Cancer Institute, 909, 1371-1388.
Foster, R., Worden, J., Costanza, M., & Solomon, L. (1992). Clinical breast examination and breast self-examination. Cancer, 69,S1992- S1998.
Friedenreich, C., & Rohan, T. (1995). A review of physical activity and breast cancer. Epidemiology, 6 (3), 311-317.
Giovannucci, E., Colditz, G., Stampfer, M., Willett, W. (1996). Physical activity, obesity, and risk of colorectal adenoma in women. Cancer Causes and Control, 7, 253-263.
Gunnlaugur Geirsson (1983). Of fáar konur skoða brjóst sín reglulega. Heilbrigðismál, 1, 21-22.
Hagvangur (1998). Ársskýrsla tóbaksvarnarnefndar 1998. Skýrsla Hagvangs. PricewaterhouseCoopers.
Hakama, M., & Hristova, L. (1997). Effect of screening in the Nordic cancer control up to the year 2017. Acta Oncologica, 36(2), 119-128. Harvard Report on Cancer Prevention (1996). Causes of human cancer. Cancer Causes and Control, 7 (S1), S3-S59.
Helzlsouer, K. (1995). Early detection and prevention of breast cancer. Í P. Greenwald, B. Kramer & D. Weed (ritstj.), Cancer prevention and control (bls.509-536). New York: Marcel Dekker.
Heilbrigðismál (1992). Þriðji til fjórði hver Íslendingur fær krabbamein fyrir áttrætt. Heilbrigðismál, 4, 5.
Heilbrigðismál (1996a). Styttist í að annar hver krabbameinssjúklingur læknist. Heilbrigðismál, 1, 18-19.
Heilbrigðismál (1996b). Meðalaldur við greiningu krabbameins er nú 66 ár. Heilbrigðismál, 2, 11.
Heilbrigðismál (1997a). Reykingavenjur Evrópubúa. Staða íslenskra karla er nokkuð góð en konur mega taka sig verulega á. Heilbrigðismál, 1, 33.
Heilbrigðismál (1997b). Dánartíðni úr krabbameini lækkar á ný. Heilbrigðismál, 2, 22-23.
Heilbrigðismál (1999). Krabbamein í brjóstum og blöðruhálskirtli eru algengust. Heilbrigðismál, 2, 21.
Heyman, E., Tyner, R., Pipps, C., Cave, L., & Owen, D. (1991). Is the hospital setting the place for teaching breast self-examination? Cancer Nursing, 14(1), 35-40.
Hill, D., White, V., Jolley, D., o.fl.(1988). Self-examination of the breast: is it beneficial? Meta-analysis of studies investigating breast self-examination and extent of disease in patients with breast cancer. British Medical Journal, 297, 271-275.
Hrafn Tulinius, Nikulás Sigfússon, Helgi Sigvaldason, Kristín Bjarnadóttir & Laufey Tryggvadóttir (1997). Risk factors for malignant diseases: A cohort study on a population of 22,946 Icelanders. Cancer Epidemiology, Biomarkers & Prevention, 6, 863-873.
Hunter, D.J., Manson, J., Colditz, G., o.fl. (1993). A prospective study of vitamins C, E, and A and breast cancer risk. New England Journal of Medicine, 329, 234-240.
Hunter, D.J., & Willett, W.C. (1996). Nutrition and breast cancer. Cancer Causes & Control, 7, 56-58.
Jensen, O.M., MacLennan, R., Wahrendorf, J. (1982). Diet, bowel function, fecal chararcteristic and large bowel cancer in Denmark and Finland. Nutrition & Cancer, 4 (1), 5-19.
Jón Hrafnkelsson & Jónas Ragnarsson (1998). Krabbamein eftir landshlutum. Nýgengi er hæst suðvestanlands. Heilbrigðismál, 2, 15- 17.
Kohlmeier, L., & Mendez, M. (1997). Controversies surrounding diet and breast cancer. Proceedings Nutrition Society, 56 (1B), 369-382. Krabbameinsfélagið (1999). Skýrsla 1999. Krabbameinsfélagið, Reykjavík.
Laufey Tryggvadóttir (1998). Konur, krabbamein og forvarnir. Í Lilja Sigrún Jónsdóttir (ritstjóri), Heilsufar kvenna (bls. 89-94). Reykjavík: Heilbrigðis-og trygginamálaráðuneytið.
Longnecker, M.P.(1994): Alcoholic beverage consumtion in relation to breast cancer: meta-analysis and review. Cancer Causes and Control, 5, 73-82.
Mahon, S. (1995). Prevention and early detection of cancer in women. Seminars in Oncology Nursing, 11(2), 88-102.
Mittendorf, R., Longnecker, M., Newcomb, P., Dietz, A., Greenberg, E., Bogdan, G., Clapp, R., & Willett, W. (1995).Strenous physical activity in young adulthood and risk of breast cancer (United States) Cancer Causes and Control, 6, 347-353.
Narod, S.,Risch,H.,Moslehi,R.,o.fl.(1998). Oral contaceptives and risk of hereditary ovarian cancer. New England Journal of Medicine, 339(7), 424-428.
Olsen, J.H., Andersen, A., Dreyer, L., Pukkala, E., Tryggvadottir, L., o.fl. (1997). Summary of avoidable cancers in the Nordic countries. Acta pathologica microbiologica et immunologica Scandinavica, S76 (105), 141-146.
Omenn, G.S., Goodman, G., Thornquist, M., o.fl. (1996). Risk factors for lung cancer and for intervention effects in CARET, the Beta-carotene and Retinol Efficacy Trial. Journal National Cancer Institute, 88, 1550-1559.
Potter, J.J.(1996). Nutrition and colorectal cancer. Cancer Causes & Control, 7, 127-146.
Risser, N. (1996). Prevention of lung cancer: The key is to stop smoking. Seminars in Oncology Nursing, 12(4), 260-269.
Robinson, M., & Hardcastle, J. (1998). Screening for colorectal cancer. British Medical Bulletin, 54(4), 983-992.
Samet, J. (1995). Lung cancer. Í P. Greenwald, B. Kramer & D. Weed (ritstj.), Cancer prevention and control (bls.537-560).New York: Marcel Dekker.
Shike, M. (1999). Diet and lifestyle in the prevention of colorectal cancer. An overview. American Journal of Medicine, 106(1A) 11S-15S.
Sigríður Vilhjálmsdóttir (1998). Meðalævilengd, dánartíðni og dánarorsakir. Í Lilja Sigrún Jónsdóttir (ritstjóri), Heilbrigði kvenna (bls. 117-127). Reykjavík: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Steinunn Thorlacius, Jeffery P. Struewing, Patricia Hartge o.fl., (1998). Population-based study of risk of breast cancer in carriers of BRAC2 mutation. Lancet, 352 (9137), 1337-1339.
Smith-Warner, S.A., Spiegelman, D., Yan, S., o.fl. (1998). Alcohol and breast cancer in women: a pooled analysis of cohort studies. Journal of the American Association, 279, 535-540.
Swan, D., & Ford, B. (1997). Chemoprevention and cancer: Review of the literature. Oncology Nursing Forum, 24(4), 719-727.
The Alpha-Tocopherol, Beta-Carotene Cancer Prevention Study Group (1994). The effect of vitamin E and beta carotene on the incidence of lung cancer and other cancers in male smokers. New England Journal of Medicine, 330, 1029-1035.
Thune, I., & Lund, E. (1996). Physical activity and risk of colorectal cancer in men and women. British Journal of Cancer, 73(9), 1134-1140.
Thune, I., Brenn, T., Lund, E., Gaard, M. (1997). Physical activity and the risk of breast cancer. New England Journal of Medicine, 336(18), 1269-1275.
Trichopoulu, K., Katsouyanni, K., Stuver, S., o.fl. (1995). Consumption of olive oil and specific food groups in relation to breast cancer risk in Greece. Journal National Cancer Institute, 87, 110-115.
Tryggvadóttir, L., Tulinius, H., & Gudmundsdóttir, G.B. (1997). Oral contraceptive use at a young age and the risk of breast cancer: an Icelandic, population-based cohort study of the effect of birth year. British Journal of Cancer, 75(1), 139-143.
Tulinius, H., Sigvaldason, H., Olafsdottir, G., & Tryggvadottir, L. (1992). Epidemiology of breast cancer in families in Iceland. Journal of Medical Genetics, 29(3), 158-164.
Wardle, J., Steptoe, A., Smith, H., Groll-Knapp, E., Koller, M., Smith, D., & Brodziak, A. (1995). Breast self-examination: attit udes and practices among young women in Europe. European Journal of Cancer Prevention, 4, 61-68.
White, L., & Spitz, M. (1993). Cancer risk and early detection assessment. Seminars in Oncology Nursing, 9(3), 188-197.
Willett, W.C. (1995). Diet, nutrition and avoidable cancer. Environmental Health Perspectives, 103 (suppl. 8), 165-170.
Winaver, S., & Shike, M. (1995). Prevention and control of colon cancer. Í P. Greenwald, B. Kramer & D. Weed (ritstj.), Cancer prevention and control (bls.537-560). New York: Marcel Dekker. Wood, R. (1996). Breast self-examination proficiency in older women: measuring the efficacy of video self-instruction kits. Cancer Nursing, 19(6), 429-436.
Zeigler, R.G., Mayne, S.T., Swanson, C. (1996). Nutrition and lung cancer. Cancer Causes & Control, 7, 157-177.