Konur eru veikari en karlar

Konur koma veikari til áfengismeðferðar, hafa meiri fráhvarfseinkenni og eru mun lengur að jafna sig en karlar. Þær hafa fleiri einkenni um alvarleika áfengissýki, bæði líkamleg og andleg. Þær eru einnig tilfinninganæmari og undanlátssamari, láta frekar undan þrýstingi og reyna frekar að bera í bætifláka fyrir sjálfar sig en karlar. Greinanlegur munur er á drykkjumynstri karla og kvenna. Konur eru t.d. mun fleiri í dagdrykkju á meðan karlar stunda frekar túradrykkju. Þá misnota konur í meira mæli lyf í tengslum við áfengisneyslu en karlar. Þetta eru helstu niðurstöður rannsóknar sem gerð var á 516 sjúklingum, sem komu til meðferðar á Vog, Teig og deild 33A á Landspítala-háskólasjúkrahúsi..

Rannsóknin var unnin á árunum 2000 og 2001. Í hópnum voru 370 karlar og 146 konur. Konur voru því 28,3% hópsins en það er mjög svipað fyrri hlutfallstölum sem birtar hafa verið um fjölda kvenna í hópi þeirra sem leita sér hjálpar vegna áfengis- og vímuefna. Sjúklingarnir voru á aldrinum 16-76 ára. Meðalaldur kynjanna var nákvæmlega hinn sami eða 35,8 ár.

Ása Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur á Geðdeild LSH, er einn af aðstandendum rannsóknarinnar. Hún segir, að markmið hennar hafi m.a. verið að kanna ástæður þess að leitað er meðferðar við áfengis- og vímuefnavandamálum. Viðtal var tekið við sjúklingana á innlagnardegi og fráhvarfseinkenni mæld fyrstu sjö daga meðferðar. Prófum var dreift á sjö daga og persónuleikakvarðar lagðir fyrir á fimmta degi. Þá var spurningalisti um móttækileika (motivation) fyrir meðferð lagður fyrir á fyrsta og sjöunda degi. Ári eftir útskrift var haft samband við alla þátttakendur og þeim boðið í eftirfylgniathugun.

Ása segir um niðurstöðurnar, að konurnar lýsi marktækt meiri kvíða en karlarnir og þær hafi einnig mun meiri líkamleg einkenni. Þær finni oftar einkenni eins og skjálfta um allan líkamann, handskjálfta, svita, ótta, ofsóknarkennd og örvæntingu.

Í annarri rannsókn sem Ása gerði á konum sem leituð meðferðar á meðferðardeild Landspítala á Vífilsstöðumni var spurt hvaða afleiðingar neyslunnar verða til þess að konurnar ákveða að leita meðferðar í því skyni að hætta neyslu. Þau atriði sem flestar konurnar merktu við eru eftirfarandi:

1. Tíð andleg vanlíðan.

2. Stjórnleysi í drykkju.

3. Depurð/Þunglyndi.

4. Hræðsla við að vera orðin háð áfengi.

5. Ótti.

6. Minnistap.

7. Varnaðarorð annarra.

8. Verulega minnkuð afköst.

9. Vanræksla barna.

10. Timburmenn.

Það kemur einnig fram í niðurstöðunum, að konur í áfengismeðferð finna mun meira fyrir kvíða, skömm, sektarkennd og lítilli sjálfsvirðingu en karlar.

Alkóhólismi er m.a. skilgreindur sem erfðafræðilegur sjúkdómur. Sjúkdómurinn hefur einkenni, eins og allir aðrir sjúkdómar, bæði líkamleg, andleg og félagsleg. Talið er að alkóhólismi erfist, jafnt hjá konum og körlum. Nokkrir veigamiklir þættir eru þó ekki sambærilegir hjá kynjunum og verða hér á eftir raktir nokkrir þeirra.

Líkamleg

Af líkamlegum einkennum, sem greina má fyrst hjá alkóhólistum, eru þolaukning og fráhvarfseinkenni. Síðan koma ýmsir afleiddir sjúkdómar, eins og lifrabólga, hár blóðþrýstingur, vannæring og úttaugabólga, að ótöldum afleiðingum slysa.

Líkamlega eru konur verr af guði gerðar til að þola áfengisneyslu en karlar. Þær þola áfengi verr, verða fyrr drukknar og áfengismagn í blóði mælist hærra hjá þeim en körlum þrátt fyrir sama skammt áfengis á þyngdareiningu. Skýringa hefur verið leitað í þeirri staðreynd að karlar hafa hlutfallslega meira vatnsmagn í líkamanum en konur, en talið er að þarna spili einnig inn í að konur hafa ekki eins mikið af hvötum í magavegg og karlar og því eyðist minna af áfengi hjá konunum.

Hormónar eiga einnig hlut að máli og margar konur tengja neyslumunstur sitt tíðarhringnum. Áfengismagn er t.d. hærra rétt fyrir tíðir og eiga þær því erfiðara með að segja fyrir um áhrif og vara sig á ofurölvun. Fyrirtíðarspenna hefur verið tengd alkóhólisma, þ.e. að konum, sem hafa fundið til fyrirtíðarspennu, sé hættara við alkóhólisma. Þá nota konur oftar ávanalyf samfara áfengisneyslu en karlar, samanber rannsóknarniðurstöðurnar sem getið er hér að ofan. Þetta er ekki góð blanda og verða konur því oft illa drukknar og óútreiknanlegar.

Einn líkamlegan þátt má nefna til viðbótar en það er sú staðreynd að fitumagn er meira í líkama kvenna. Líkami þeirra losar sig því hægar við róandi ávanalyf sem setjast í fituvefina, sama má segja um fleiri efni, t.d. hass. Efnin safnast því upp í líkama þeirra. Fráhvarfseinkennin koma síðar fram, eru lúmskari og standa lengur yfir. Þar af leiðandi verða þær veikari en karlar.

Þá koma fylgikvillar mun fyrr fram hjá konum, t.d. fitulifur, hár blóðþrýstingur og vannæring. Slys eru algeng hjá alkóhólískum konum sem misnota áfengi.

Félagsleg

„Hver skyldi vera að passa börnin hennar í kvöld?“ var spurt í hneykslan fyrir nokkrum árum í tilefni af því að kona sat drukkin á bar í miðri viku. Um jafndrukkinn karl, sem einnig á börn og sat á hinum enda barsins, var aftur á móti sagt með vorkunn: „Ætli fótboltaliðið hans hafi ekki verið að tapa enn einu sinni?“ Þetta atvik segir meira en mörg orð um afstöðu fólks til drukkinna kvenna. Þær hafa átt undir högg að sækja. Það hefur ekki verið talið kvenlegt, jafnvel siðlaust, af konu að drekka of mikið.

Körlum fyrirgefst meira og er mismunandi afstaða til kynferðismála handhægust til skýringar. Drukknum körlum er talið til tekna að komast yfir sem flestar konur og þeir stæra sig af því. Konur, sem gera slíkt hið sama undir áhrifum, eru fordæmdar. Þær fá þann stimpil að vera lauslátar. Löngum hefur það verið svo, að þegar konu er nauðgað og gerandinn er drukkinn er það talið draga úr ábyrgð nauðgarans, en konan er talin ábyrgari, ef hún er drukkin.

Umhverfið er sem sagt ekki eins umburðarlynt gagnvart konum og körlum. Konur sæta því meiri fordómum. Þetta veldur því að konur fá meira aðhald, þ.e. gæta sína betur á að drekka ekki um of á almannafæri, en þær konur sem verða sjúkdómnum að bráð eiga oftar í erfiðleikum með að leita sér hjálpar. Þær drekka oft lengi í felum inni á heimilum sínum, fá síður stuðning frá fjölskyldu, læknum og vinnufélögum. Það hefur verið hylmt yfir neysluna langt fram yfir eðlileg mörk af þessum ástæðum einum.

Þetta hefur þó verið að breytast, a.m.k. hérlendis. Skilningur hefur aukist á þörf kvenna að leita aðstoðar með því að fara í áfengismeðferð. Konum sem leita meðferðar í fyrsta sinn hefur að sama skapi fjölgað nokkuð hlutfallslega síðustu árin. Þessa gætir í dag mest í hópi yngstu kvennanna og voru stúlkur 43% nýrra sjúklinga, sem voru 19 ára og yngri, á Vogi á síðasta ári.

Ábyrgð á börnum og uppeldi þeirra er mun oftar á herðum kvenna sem koma til áfengismeðferðar heldur en karla. Ættingjarnir virðist fremur taka á sig ábyrgðina á börnunum þegar karlar eiga í hlut. Áhyggjur af velferð fjölskyldunnar trufla því oftar konur en karla í áfengismeðferð. Á sama tíma eru konurnar dæmdar harðar, ef þær standa sig ekki á þessu sviði og afskipti barnaverndaryfirvalda tengjast miklu oftar konum en körlum.

Algengara er að áfengissjúkar konur séu giftar áfengissjúkum körlum heldur en að áfengissjúkir karlar eigi drykkfelldar konur. Karlar fara því oftar heim til maka sem hættir að drekka, en konurnar verða að búa við að karlarnir noti áfram vímuefni. Bati kvenna er því oftar háður því hvað karlar þeirra gerir.

Áfengissjúkar konur hafa oft þolað bæði líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi. Þeim er hætt við hvers kyns ofbeldi þegar þær eru drukknar á almannafæri. Þær verða einnig fyrir meira ofbeldi, jafnt fjárhagslegu, líkamlegu og andlegu innan veggja heimilisins heldur en konur sem drekka ekki.

Andleg

Konur lýsa mun meiri andlegri vanlíðan en karlar þegar þær koma til meðferðar, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sem sagt er frá í upphafi greinar þessarar. Konurnar virðast frekar koma í meðferð vegna innri þrýstings en karlar. Kvíði er sú tilfinning sem þær lýsa oftast. Þá er sektarkennd mikil og skömmin er ofarlega á blaði enda skiljanlegt þegar litið er til félagslegu hliðarinnar. Einmanaleiki, einangrun, vonleysi og ótti er einnig ríkur þáttur í andlegum einkennum kvenna.

Hér koma dæmi um þann innri þrýsting sem knúði konur til að leita sér aðstoðar: „Ég er með sektarkennd og kem því í meðferð“. „Ég verð ósátt við sjálfa mig ef ég lýk ekki við meðferðina“. „Ég mun upplifa mig sem misheppnaðan einstakling, takist mér ekki að ljúka meðferðinni.“ „Ég lendi í vandræðum ljúki ég ekki meðferð“.

Ása Guðmundsdóttir, sálfræðingur, hefur unnið í áraraðir með konum í meðferð á Teigi og áður á Vífilsstöðum, geðdeild LSH. Hún segir rannsóknarniðurstöður sýna, að konur séu tilfinninganæmari og undanlátssamari en karlar. Konum er sinnt sérstaklega í áfengismeðferðum hérlendis. Á Teigi fá konur sérvinnuhópa og meðferðarhópa, sérstök kvennameðferð er í boði hjá SÁÁ. Ása segir aðspurð að konur í meðferð séu oftast með mjög brotna sjálfsmynd. Neysluheimurinn sé karlastýrt samfélag, einkum vímuefnaheimurinn, og líf konunnar í þeim heimi þýðir, að sjálfsvirðingin brotnar niður og þær þurfa meiri hjálp til að byggja sig upp að nýju. Ása segir: „Þær hafa beðið skipbrot bæði andlegt og líkamlegt. Oftar en ekki er mikil skömm vegna andlegrar og kynferðislegrar misnotkunar af hálfu karla, og þær geta ekki sigrast á þessari skömm í hópi með körlum. Þá vantar oft heilmikið upp á almenna lífsleikni, sérstaklega hjá konum sem hófu neyslu mjög ungar,“ sagði Ása að lokum.

Að ofangreindu má ljóst vera, að konum er búin mun meiri hætta en körlum af því að ánetjast áfengi eða öðrum vímuefnum. Konur jafnt sem karlar geta leitað fræðslu og hjálpar á áfengisdeild LSH, Teigi við Flók agötu 29 í Reykjavík, ennfremur á göngudeild SÁÁ við Síðumúla. Í AA-samtökunum eru sérstakar deildir eingöngu ætlaðar konum. Þá hafa konur, stofnað hóp sem vinnur að fræðslu og stuðningi við konur gegn áfengis- og vímuefnavandanum, eins og segir í kynningarefni frá þeim. Hópurinn gengur undir nafninu Kjarnakonur og í honum eru konur sem eru óvirkir alkóhólistar, aðstandendur, fullorðin börn alkóhólista og mæður ungra fíkla. Kjarnakonur hittast vikulega, á miðvikudögum kl. 20 til 21.30, í húsakynnum SÁÁ að Ármúla 18 í Reykjavík.

Fríða Proppé, blaðamaður og áfengisráðgjafi. Netfang: fproppe@isl.is

 

Heimildir:

1) „Kynjamunur á ástæðum fyrir komu í áfengis- og vímuefnameðferð og á andlegu og líkamlegu ástandi við komu“. Fyrirlestur á vísindadegi sálfræðinga á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, 20. september 2002.

2) Ása Guðmundsdóttir. The Self-Image and Social Situation of Alcoholic Women. Implications for Treatment (1997). European Addiction Research, 1:59-66.