Kólesteról og yngra fólk

Rannsókn sem birtist í Annals of Family Medicine nýlega bendir til þess að ekki sé nægjanlega vel staðið að forvörnum með tilliti til áhættuþátta fyrir hjarta og æðasjúkdómum og þá sérstaklega kólesteróli. Þessar niðurstöður sem byggja á bandarísku þýði og Dr. Elena V. Kuklina, einn af stjórnendum rannsóknarinnar og læknir á hjartasviði í Center for Disease Control and Prevention, kemst að þeirri niðurstöðu að einungis um helmingur einstaklinga láti skoða þennan áhættuþátt. Einnig telur hún að mögulega þurfi að færa niður aldursmörk þeirra sem ber að skoða en sá hópur sem rannsóknin beindist að var á aldrinum 20-45 ára Hingað til hafa verið gefnar út leiðbeiningar af hálfu The National Cholesterol Education Program Adult Treatment Panel III sem miða við að allir á aldrinum frá 20 ára ættu að láta fylgjast með kólesteróli hjá sér. Enn er rifist um hvar eigi að setja mörkin en ljóst er að það er eitthvað sem ekki verður leyst í þessari grein. Hins vegar liggur fyrir að hvað varðar forvarnir eru mörkin og vitneskjan um það hvenær og á hvaða aldri beri að láta fylgjast með skilgreindum áhættuþáttum sjúkdóma alltaf að færast niður á við. Það er áhugavert að bera þetta saman við okkur hér á Íslandi sem höfum náð feikna góðum árangri í baráttunni við hjarta og æðasjúkdóma á undanförnum árum með upplýstri umræðu og fræðslu af hálfu fagaðila , breyttu mataræði og auðvitað afar góðum meðferðarmöguleikum. Við erum þó meðvituð um það að yngra fólk er auðvitað í blóma lífsins og telur sig alla jafna hraust og ekki þurfa sérstaklega að velta vöngum yfir sjúkdómum. Þetta er almennt rétt, en lítum á nokkrar staðreyndir úr ofangreindri rannsókn; einungis 50% þeirra sem eru skilgreindir í áhættuhópi létu fylgjast með sér, 59% þeirra voru með undirliggjandi hjarta og æðasjúkdóm eða fleiri en 1 áhættuþátt. Líklega stöndum við eitthvað betur að vígi hérlendis, en hugsanlega minna en við höldum. Ungt fólk á Íslandi er að þyngjast, okkur tekst ekki að hafa hemil á fjölda þeirra sem reykja á yngsta aldursbilinu eins og rannsóknir sýna og sennilega eru áhættuþættirnir illa eða ekki skoðaðir hjá þessum hópi. Hér er skynsamlegt að beita nálgun með heilsufarsmælingum  einstaklinga.