Klínískar lyfjarannsóknir – hvers vegna?

Í þessari umfjöllun minni langar mig stuttlega að lýsa því rannsóknar- og þróunarferli sem alþjóðleg lyfjafyrirtæki stunda við framleiðslu á nýjum lyfjum og fjalla auk þess um þátt okkar Íslendinga í því ferli.

Ætla má að það taki að meðaltali um 10 ár að koma lyfi á markað, frá uppgötvun efnisins til samþykktar á markaðsleyfi. Mörg lyf eru tilnefnd en aðeins örfá útvalin til að standast þróunarferlið, en á hverju stigi fyrir sig er staldrað við og það metið, hvort halda skuli áfram rannsókn eða ekki. Nýtt lyf þarf að uppfylla þrjú skilyrði: 1. það þarf að gagnast þeim sjúklingum sem lyfið taka, 2. það þarf að vera öruggt og 3. það þarf að skila hagnaði fyrir fyrirtækið. Rannsóknarferlið er dýrt ferli og skýrir að stórum hluta verðlagningu lyfja. Lyfjafyrirtæki eru eins og hver önnur fyrirtæki að þessu leyti, varan þarf að vera góð til að hún gagnist kaupandanum og seljist.

Ferlið hefst á forklínískum rannsóknum á lyfjafræðilegum eiginleikum lyfsins, eiturefnaáhrifum, öryggisþáttum og verkun, en þessar rannsóknir eru framkvæmdar með tilraunum á dýrum.

Eftir u.þ.b. þriggja ára þróunarferli er sótt um leyfi til klínískra rannsókna á hinu nýja lyfi. Það ferli greinist í fjóra fasa og tekur um sjö ár.

Fasarnir fjórir

Fasi I – Á þessu stigi eru heilbrigðir einstaklingar fengnir til þátttöku og kannað hvernig lyfið hegðar sér í mannslíkamanum. Þetta geta verið 6-12 stakar rannsóknir en í allt eru 50-150 manns rannsakaðir í þessum fasa. Í upphafi eru gefnir lágir skammtar, sem síðan eru smáauknir og áhrif lyfsins á líkamsstarfsemi metin á hverju stigi fyrir sig. Blóðþéttni lyfsins er mæld, prótínbinding, útskilnaður lyfsins, aukaverkanir o.fl. Þar sem um heilbrigða einstaklinga er að ræða er ekki verið að athuga lækningaráhrif lyfsins á einstaklinginn.

Fasi II – Á þessu stigi eru gerðar rannsóknir á sjúklingum, 20-50 manns í hverri rannsókn, á um 100-200 sjúklingum í allt. Nú eru áhrif lyfsins metin á tiltekinn sjúkdóm. Áfram eru eiginleikar lyfsins og hegðun þess í mannslíkamanum athuguð en nú er það borið saman við niðurstöður rannsóknanna í fasa 1, hvort lyfið hafi æskilega verkun á ákveðinn sjúkdóm og sé öruggt fyrir sjúklinginn. Einnig eru athugaðar milliverkanir við önnur lyf og jafnvel áhrif lyfsins í sérvöldum hópi. Rannsóknir á passandi skammtastærð eru gjarna metnar á þessu stigi, þ.e. hvaða skammtur lyfs gefi besta verkun, með sem fæstar aukaverkanir.

Fasi III – Ef lyfið sýnir enn góðar niðurstöður eftir það sem á undan er gengið er kannað hvernig lyfið raunverulega virkar á stóran hóp sjúklinga. Venjulega eru um 100-500 sjúklingar í þessum rannsóknum og á þessu stigi er hið nýja lyf gjarnan borið saman við hefðbundna lyfjameðferð (og/eða lyfleysu) með svokölluðum tvíblindum rannsóknum. Tvíblind rannsókn er samanburðarrannsókn milli tveggja eða fleiri lyfja þar sem hvorki sjúklingur né rannsakandinn veit hvaða rannsóknarlyf sjúklingurinn er að taka á rannsóknartímanum. Með tvíblindum rannsóknum næst hlutlaust mat á raunverulegum áhrifum lyfsins. Niðurstöður rannsókna í fasa III eru síðan lagðar til grundvallar umsóknar um markaðsleyfi fyrir hið nýja lyf. Yfirvöld í hverju landi fyrir sig meta niðurstöður fyrirliggjandi rannsókna þegar sótt er um markaðsleyfið.

Fasi IV – Hér er átt við þær rannsóknir sem gerðar eru eftir að lyfið er komið á markað, oftast til að veita markaðssetningu lyfsins fulltingi.

Klínískar lyfjarannsóknir á Íslandi

Klínískar lyfjarannsóknir í fasa III á vegum erlendra lyfjafyrirtækja hafa verið framkvæmdar hér á landi í samstarfi við íslenska lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk um árabil og ætla má að á hverjum tíma taki hundruð Íslendinga þátt í slíkum rannsóknum. Þetta samstarf lyfjaframleiðenda við íslenskar heilbrigðisstéttir og heilbrigðisyfirvöld hefur verið gott og árangursríkt. Klínískar lyfjarannsóknir eru framkvæmdar skv. ICH – GCP staðlinum, sem er fjölþjóðlegur siða-, vísinda- og gæðastaðall og tekur til hönnunar, stjórnunar, framkvæmdar og tilkynningaskyldu klínískra rannsókna sem gerðar eru á fólki.

Til að lyfjarannsókn sé framkvæmd hér á landi þarf samþykki frá vísindasiðanefnd, Lyfjastofnun og Persónuvernd, en markmið þessara stofnana er að tryggja að öryggi sjúklings sé ekki á nokkurn hátt ógnað með þátttöku í viðkomandi rannsókn. Þegar slíkt samþykki fæst eru læknar á viðkomandi sérsviði fengnir til samstarfs um framkvæmd rannsóknarinnar. Sjúklingar sem gefst kostur á að taka þátt í klínískum rannsóknum fá ítarlegar upplýsingar um eðli og tilgang rannsóknarinnar hjá lækninum. Að því búnu skrifar sjúklingurinn undir upplýst samþykki sem felur í sér að sjúklingurinn gefur leyfi til að heilbrigðisupplýsingar hans séu notaðar í tiltekna rannsókn. Þessi samningur er þess eðlis að sjúklingurinn getur hætt í rannsókninni hvenær sem hann óskar, án nokkurra eftirmála. Meðferðin er sjúklingi að kostnaðarlausu og fær hann afburða heilbrigðisþjónustu meðan á rannsóknartíma stendur.

Ávinningurinn

N&yac ute; lyf koma ekki á markað af sjálfu sér. Ljóst er að með þátttöku í klínískum lyfjarannsóknum erum við þátttakendur í framþróun læknisfræðinnar sem án efa mun nýtast komandi kynslóðum. Með vísindalegum vinnubrögðum og faglegum metnaði er það markmið okkar sem vinnum við klínískar rannsóknir að tryggt sé að lélegt lyf verði ekki samþykkt og að góðu lyfi verði ekki hafnað á grundvelli ófullnægjandi rannsókna.

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu.