Kjúklingabringur og rautt pestó í smjördegi

Eftir Halldóru Sigurdórsdóttur höfund bókarinnar Leiðin að bættri líðan.

Fyrir fjóra

Þessi réttur er ekki bara einfaldur og fljótgerður heldur einnig afar heppilegur þegar þarf að elda úr afgöngum því að í raun er hægt að nota í hann það grænmeti sem er til í ískápnum þá stundina. Þeir sem eru ekki hrifnir af kjöti eða kjúklingum geta sleppt því og haft því meira grænmeti eða sett skinku og/eða beikon í staðinn. Hægt er að nota svína- eða nautahakk í stað kjúklings. Eins og sést er þetta afar ,,opinn" réttur! Notið hugmyndaflugið.

Efni:

4 smjördegisblöð

Fylling:

2 kjúklingabringur – skornar smátt

1 gulrót – smátt söxuð

1 rauðlaukur – smátt saxaður

1 sellerí stöngull – smátt saxaður

2-3 stórir sveppir -smátt saxaðir eða þurrkaðir sveppir ef til er á heimilinu

½ bolli söxuð rauð paprika

½ bolli valhnetur

½ bolli rifinn parmesan ostur

1 bolli fínt söxuð basilíka (ég klippi hana í bolla með skærum)

3 msk. rautt pestó

1 egg til að pensla með

Aðferð:

Kjúklingabringurnar og grænmetið er steikt á pönnu í olíu. Hnetunum, ostinum, kryddinu og pestó blandað saman við. Það skiptir ekki öllu máli hvaða grænmeti er notað í þennan rétt en hægt er að nota hvaða lauk sem er (vorlauk, púrra), gott er að setja spínat eða hvaða lit af papriku sem er.

Smjördegið er flatt út á hveitistráðu borði. Fyllingin er sett á annan helminginn en passa verður að skilja eftir a.m.k. 1 cm breiða rönd allan hringinn. Hinn helmingur deigsins er settur yfir fyllinguna svo úr verður fallegur koddi. Lokið með því að þrýsta gaffli á þá þrjár hliðar sem eru opnar. Penslið loks með eggi. Það er fallegt að strá rifnum brauðosti og saxaðri basilíku yfir koddana í lokin. Sett inn í 180 °C heitan ofn og bakað í u.þ.b. 20 mín. eða þangað til deigið er orðið fallega brúnt að ofan og neðan.

Meðlæti:

Salat með fetaosti, ólífum og sólþurrkuðum tómötum.

Efni:

1 haus salatblöð rifin niður eða söxuð

½ bolli svartar ólífur

½ bolli söxuð rauð paprika

1 krukka fetaostur (frá með sólþurrkuðum tómötum

Öllu efninu er blandað saman í stóra skál.

Allt krydd og grænmeti í þennan rétt er hægt að fá í heilsuhorni Blómavals.