Kírópraktor (hnykklæknir)

Heiti stéttar:

Kírópraktor

Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Kírópraktorafélag Íslands (KÍS)

Nafn á tengilið:

Katrín Sveinsdóttir

Aðsetur:

Hátún 12, Sjálfsbjargarhúsið, 105 Reykjavík. S: 562 5058, kata@centrum.is

Starfssvið (hlutverk):

Kírópraktorar meðhöndla vandamál í stoðkerfi líkamans, þ.e. í liðum, vöðvum og festingum. Flestir leita til kírópraktora vegna verkja í baki (þursabit, vöðvabólga, brjósklos, klemmd taug), og verkja í hálsi, og handleggjum. Meðferðin byggir á liðlosun, snöggu, nákvæmu átaki sem hreyfir liðinn og oft heyrist smellur í liðnum við meðferðina. Einnig er notað staðbundið nudd/þrýstipunktar, teygjur og ráðleggingar um æfingar og líkamsbeitingu. Hver kírópraktor hefur aðeins mismunandi áherslur en í stærstum dráttum er meðferðin eins. Allir sem eiga við vandamál að stríða í stoðkerfi líkamans geta leitað til kírópraktors, jafnt ungir sem gamlir. Áður en meðferð hefst er tekin sjúkrasaga og sjúklingur skoðaður og í framhaldi af því tekur kírópraktorinn ákvörðun um hvort meðferðin henti. Stundum þarf að senda sjúkling annað til frekari rannsókna áður en meðferð hefst eða kírópraktorinn vísar á aðra möguleika ef hann telur meðferðina ekki henta. Mjög misjafnt er hvað þarf að koma oft í meðferð, eða allt frá 4-15 eða 20 skipti. Yfirleitt er meðhöndlað þétt fyrst, 2-3x í viku en síðan lengist smátt og smátt á milli tíma. Margir sem hafa átt við langvarandi vandamál að stríða kjósa að koma síðan reglulega á 1-3 mánaða fresti í fyrirbyggjandi meðferð. Meðferð kírópraktora er mjög árangursrík og oftast fljótvirk.

Kostnaður meðferðar:

Hver meðferðartími kostar  3.000-4.000 kr en fyrsti tíminn 5-8.000 kr, kostnaður við röntgenmyndir er ekki innifalinn.

Er starfsemin niðurgreidd af Tryggingastofnun/verkalýðsfélögum:

Meðferðin er ekki niðurgreidd af Tryggingastofnun, en flest stéttarfélög taka þátt í kostnaði.

Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

Kírópraktorar eru viðurkennd heilbrigðisstétt og starfa samkvæmt reglugerð frá Heilbrigðisráðuneytinu.

Menntun:

Menntun kírópraktora er 5 ára háskólanám að loknu stúdentsprófi (náttúrufr./líffr.deild). Ekki er hægt að stunda námið hér heima en viðurkenndir skólar eru á Bretlandi, í Danmörku, Bandaríkjunum, Ástralíu, Kanada, Frakklandi og Spáni. Í flestum skólum fær nemandi BS gráðu eftir 3 ár og síðan kírópraktorgráðu eftir 2 ár til viðbótar. LÍN veitir framfærslulán en hefur undanfarin ár ekki veitt lán fyrir skólagjöldum. Til að fá starfsleyfi hér á landi þarf að vinna í 12 mánuði hjá öðrum kírópraktor. Þeir sem hafa áhuga á að læra fagið ættu að hafa samband við félagið áður en ákvörðun er tekin um skóla því eru ekki allir skólar t.d. í U.S.A. viðurkenndir.

Hliðargreinar:

Nægir möguleikar eru á áframhaldandi menntun innan greinarinnar, þá aðallega námskeið í nokkrum hlutum, og BS gráðan ætti að vera metin inn í annað tengt háskólanám. Ekki er boðið upp á framhaldsmenntun eða námskeið hér á landi enn sem komið er.

Annað sem brýnt er að taka fram:

KÍS er meðlimur í Evrópusambandi kírópraktora (ECU) og heimssambandi kírópraktora (WFC). WFC er síðan meðlimur í WHO.