Keisaraskurður

Samkvæmt gömlum sögnum er nafnið keisaraskurður (e. cesarean/cesarian/caesarean section, cesarean; da. kejsersnit) komið til af því að rómverski keisarinn Júlíus Sesar var tekinn með slíkum skurði þegar hann fæddist.

Vísbendingar eru þó um að móðir hans hafi enn verið á lífi þegar hann var fullorðinn. Þar sem nær útilokað er talið að kona hefði getað lifað keisaraskurð af á þessum tímum er ósennilegt að sagan um Sesar standist. Líklegra er talið að nafn aðgerðarinnar sé sprottið af því að hún hafi fyrst verið framkvæmd á dögum Júlíusar Sesars.

Elsta dæmið sem við höfum fundið um að kona hafi lifað keisaraskurð af er frá Þýskalandi árið 1500. Þá á Jacob Nufer, svínageldingamaður, að hafa framkvæmt aðgerðina á konu sinni eftir að fæðing barns þeirra hafði dregist á langinn.

Önnur heimild segir hins vegar að fyrsta skrásetta heimildin um keisaraskurð á lifandi konu sé frá árinu 1610. Sú kona lést 25 dögum eftir skurðinn.

Þessi grein er fengin af Vísindavef Háskóla Islands