Karlar á réttum kili um jólin

Þessa dagana er ég oft spurður að því hvort ekki sé annatími hjá sálfræðingum. Mér hefur vafist tunga um tönn þegar ég hef reynt að svara þessari spurningu. Það liggur í loftinu að jólunum fylgi stress og ýmiss konar vanlíðan. Þá hef ég tekið eftir að umræðuþættir þessa dagana fjalla um s.k. jólakvíða.

Ég hef spurt aðra sálfræðinga hvort þeir yrðu varir við meiri eftirspurn eftir þjónustu eða hvort viðfangsefnin væru öðruvísi á aðventu og í kringum jólin. Niðurstaðan varð að svo væri ekki. Fólk er á kafi í jólaundirbúningi, föndurgerð, innkaupum, þrifum, jólatónleikum eða öðru félagsstarfi. Hins vegar bar félögum mínum saman um það að eftir jólin tækju við meiri annir. Þá gerðist það að þau mál sem höfðu verið sett á ís yfir hátíðarnar knúðu dyra á ný.

 • Er til eitthvað sem heitir jólakvíði?Samkvæmt mínum kokkabókum er jólakvíði sem viðurkenndur kvilli ekki til. Hann virðist vera eitt af þessum fyrirbærum sem fer að lifa sjálfstæðara og stærra lífi en ástæða er til. Það er hins vegar staðreynd að mörgum líður illa yfir jólin, þeir eru daprir, kvíðnir og upplifa erfið samskipti. Yfirleitt á þessi líðan sér rætur í vanda sem á sér langa sögu eða er til í einhverju almennara samhengi en jólin eru. Við vitum vel að jólin eru erfið fyrir þá sem minnast látinna ættingja og vina, hafa upplifað óreglu og óhamingju á þessum tíma eða hafa úr litlu að spila.

  Í hugum flestra eru jólin tími friðar, gleði og góðra samskipta. Allt samfélagið miðar að því að þetta megi verða að veruleika. Á jólum eiga flestir frí, við njótum þess besta sem við getum leyft okkur, við sendum kveðjur og gefum gjafir, minnumst trúarlegs tilefnis jólanna og hlustum í söng og lestri á boðskap um gleði og frið. Jólin eru því andstaða algengrar vanlíðanar s.s. spennu, óróleika og kvíða; dapurleika sorgar og leiða og ekki síst togstreitu af öllu tagi milli fólks.

  Flestir eru sammála um að reyna hafa flest sem best yfir jólin. Í þessu skini er mörgum málum ýtt til hliðar. Þar sem hjónabandið gengur illa og skilnaður blasir við er algengt að fresta honum fram yfir jól. Flestum finnst það ómögulegt að þessi hátíð barnanna verði eyðilögð með átökum og leiðindum milli foreldranna. Ágreiningur innan fjölskyldu er settur til hliðar og menn finna friðsamlegan flöt á samskiptunum. Í stað þess óróleika sem kann að vera í sálinni reynir fólk að efla með sér hugarró og kærleiksþel. Margir ná að breyta þeytingi aðventunnar yfir í kyrrðarstund með góðri tónlist eða góðum bókum. Flestum tekst þetta vel. Jólin ná að laða fram það besta í okkur og minna okkur á hvað það er sem skiptir mestu máli.

 • Þarf að hafa áhyggjur af körlum?Þessar spurningar um annir sálfræðinga fyrir jólin urðu mér tilefni vangaveltna um breytingar á skjólstæðingum sálfræðinga, ekki frá árstíð til árstíðar heldur frá áratugi til áratugar og hvaða þróun gæti verið framundan. Mér verður ekki síst hugsað til þeirra hræringa sem eru að verða í íslensku efnahagslífi og þeirra einstaklinga sem hafa verið að missa vinnuna eða horfa fram á þrengingar á þeim vettvangi. Ég held að karlar geti farið mun ver út úr slíkum hremmingum en konur.

  Mikill meirihluti þeirra sem leita til sálfræðinga hafa verið konur. Það hefur verið þeim auðveldara að viðurkenna vanda sinn og leita lausna með hjálp fagfólks. Karlar hafa verið sjaldséðnari en létu stundum til leiðast þegar um hjónabandserfiðleika var að ræða. Konur hafa sótt í sig veðrið, aflað sér betri menntunar og sækja að æ fleiri hefðbundnum karlavígjum og hafa ekki bundið sig við eitt hlutverk. Lykilinn að þessum árangri margra kvenna kann að vera að finna í sveigjanlegri og fjölþættri sjálfsmynd þeirra.

 • Hlutur sjálfsmyndarAð mati margra fræðimanna ákvarðar sjálfsmynd okkar hvað við gerum og hvernig við gerum hlutina. Jákvæð sjálfsmynd einkennist af sjálfstrausti og tiltrú en léleg sjálfsmynd af vonleysi og vanmáttarkennd. Sjálfsmynd er hins vegar sjaldnast ein og stöðug. Á henni eru margir fletir og hún kann að breytast frá einum kringumstæðum til annarra. Heilbrigð sjálfsmynd er hóflega fjölþætt, hún verður að geta tekið breytingum og hún má ekki vera of einföld. Mönnum verður að þykja sæmilega mikið til hennar koma en geta um leið vikið henni til hliðar ef því er að skipta. Þá þarf hún að vera jákvæð en ekki neikvæð.

  Hvað kemur að því að skapa sjálfsmynd? Ýmislegt er hægt að telja til s.s. skapgerð, alhæfingar okkar út frá eigin reynslu, samskipti okkar við vini og fjölskyldu, sigrar okkar og áföll og síðast en ekki síst sú vinna sem við vinnum. Hefðbundin sjálfsmynd karla hefur löngum verið talin byggjast á og snúast í kringum þá vinnu sem þeir stunda. Konum hefur verið tamara að skilgreina sig á fjölbreyttari hátt t.d. eiginkona, móðir og fyrirvinna.

  Tvennt má greina í vinnuumhverfi okkar sem er líklegt til að snerta sjálfsmynd margra. Nú blasir við niðursveifla í kjölfar mikillar uppsveiflu og uppsagnir fjölda manns eru að verða daglegt brauð. Hitt er að stö&eth ;ugar breytingar eru að verða ríkari þáttur í öllum störfum. Breytingar eru lykilorð stjórnenda í dag. Það hlutverk að miðla þekkingu og reynslu til nýrrar kynslóðar er óðum að missa vægi sitt.

 • Áhrif uppsagnaÞað er aldrei auðvelt að ráða vel við ný verkefni eða nýja tækni eða verða fyrir því að vera sagt upp. Fyrir karlmann á miðjum aldri sem hefur fyrst og fremst skilgreint sig í ljósi þess starfs sem hann stundar er líklegt að sjálfsmynd hans sé í mikilli hættu.

  Tilfinning hans fyrir eigin vægi og gildi hefur beðið skipbrot. Fyrir marga hefur það aldrei verið inn í myndinni að verða sagt upp. Þá er líklegt að einhverjir af yngri mönnunum hafi orðið svo ákafir í uppsveiflunni að þeim hafi fundist í eitt skipti fyrir öll að þeir hafi sigrað heiminn og ekkert gæti breytt þeirri stöðu. Fjölmargir úr báðum þessum hópum voru löngum stundum í vinnunni, hún var þeirra líf og yndi, hún var uppistaðan í sjálfsmynd þeirra. Hægt væri að týna til fjölmargar tilfinningar sem láta fljólega á sér kræla þegar uppsögn er orðin að veruleika s.s. reiði og skömm, biturð og doði. Sumir kunna að leggjast í niðurrífandi sjálfsgagnrýni og miklar efasemdir um eigið ágæti jafnframt því að draga sig í hlé frá öðru fólki. Aðrir kunna að fyllast örvæntingu, leggjast í þunglyndi og finna erfiða sjálfvígsþanka sækja að.

 • Hvað er til ráða?Barátta þess sem skilgreinir sig fyrst og fremst út frá vinnu sem er ekki lengur fyrir hendi kann að vera löng og ströng. Hvað er þá til ráða? Margt af því sem hjálpar er það sama og hjálpar í öðrum erfiðleikum eins og góður stuðningur og skilningur þeirra sem næst standa. Menn verða að leyfa sér að vera aumir um stund og gefa sér tíma til þess að blása út um eigin líðan og allt það sem hrærist innra með þeim. Það er engin algild regla til um það hvað þetta þarf að taka langan tíma en varnaðarmerki um of langan tíma gætu verið sjálfsvorkunn sem er að festast í sessi eða viðvarandi biturleiki. Það skiptir líka miklu að sú óvirkni sem gjarnan fylgir í kjölfar þess að missa vinnuna verði ekki of löng og fari að verða vandi í sjálfu sér. Þá er afar mikilvægt að greina vel á milli sinnar eigin persónu og þeirra aðstæðna sem leiddu til uppsagna. Þegar mesti sársaukinn er liðinn hjá er e.t.v. hægt að draga einhvern lærdóm af öllu fyrir sjálfan sig og hefja endurskilgreiningu á eigin hæfni og eiginleikum. Þá er eðlilegt að fram fari endurmat á eigin gildum og viðhorfum ásamt uppstokkun á þeim markmiðum og draumum sem áður réðu ferð. Niðurstaðan gæti verið, góð líðan, nýr farvegur og nýr þróttur. Það má líka lýsa þessari baráttu í ljósi sjálfsmyndar viðkomandi sem gæti orðið sterkari, bæði fjölþættari og sveigjanlegri.
 • Tækifæri um jólinJól og aðrar hátíðir gefa okkur tækifæri til margra hluta. Þrátt fyrir allt ytra glys og glamur kalla jólin fram okkar innstu og innilegustu tilfinningar. Þau hjálpa okkur að staldra við og leggja rækt við það sem er okkur kærast. Þeir sem hafa beðið skipbrot kunna að kljást við þunga undiröldu slæmrar líðan. Slíkt er jafnan erfitt að lægja. Sá tími sem fer í hönd skapar hins vegar umgjörð sem getur laðað fram bæði von og trú á að þeim takist að komast á réttan kjöl. Vonandi verða jólin sem flestum tækifæri til þess að ná góðri sátt við eigin stöðu og efla bjartsýni á betri tíð á nýju ári.

Þessi grein var skrifuð í desember 2001