Karlaheilsa og kvenna

Það hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum þeim sem við fengum vegna sérstakra skoðana fyrir karlmenn í tengslum við mottumars. Heilsuvernd hefur boðið körlum uppá sérstakar heilsufarsskoðanir fyrir karlmenn á undanförnum misserum við mjög góðar undirtektir þeirra og eiginkvenna þeirra sem iðulega hugsa vel um sína. Þarna hefur verið lögð áhersla á heildræna nálgun á heilsu einstaklingsins, en einnig er tekin afstaða til þeirra þátta sem talið er eðlilegt samkvæmt klínískum leiðbeiningum að skoða. Ég hef fengið fyrirspurnir um það hvers vegna við stilltum upp sérstöku átaki fyrir karlmenn og sumir hafa meira segja gengið svo langt að segja að verið sé að mismuna kynjunum, en svo er alls ekki.

Vitundarvakning gegn krabbameini hjá körlum er auðvitað nauðsynleg og átak viðlíka því sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir í mars núna síðastliðin 2 ár til fyrirmyndar. Það má þó ekki gleyma því að krabbamein gera ekki vart við sig eingöngu í mars hvað þá heldur að þau sé einskorðuð við karlmenn. Það er engin sérstök árstíðarsveifla tengd slíkum veikindum, né heldur er hún kynjaskipt eftir mánuðum.

Það er því afar mikilvægt að benda á þessar staðreyndir og hvetja til árvekni allt árið um kring fyrir bæði kynin. Skimun gegn krabbameini kvenna hefur verið við lýði um langt skeið og tekur til brjósta, legbols og legháls, þá hefur Hjartavernd um árabil verið í forgrunni hvað snertir rannsóknir og forvarnir gegn hjartasjúkdómum hérlendis.

Ekki hefur verið nein skimun að öðrum tegundum krabbameina beggja kynja hérlendis fyrr en nú að Heilsuvernd hefur tekið upp skipulega leit að krabbameini í ristli og endaþarmi í samvinnu við meltingarsjúkdómadeild Landspítala í Hafnarfirði. Greiningarpróf gegn ristilkrabbameini fæst nú í öllum apótekum Lyfju á landsvísu og er tryggð eftirfylgni og reglubundin skoðun með þeim hætti fyrir einstaklinga sem slíkt kjósa. Þá má benda á að stéttarfélög og sjúkrasjóðir þeirra taka iðulega þátt í kostnaði vegna forvarna og heilsufarsmati hjá viðurkenndum heilbrigðisþjónustuaðilum,  samanber greiðsluþáttöku þeirra við krabbameinsleit kvenna.

Konur hafa því fram að þessu haft forskot hvað snertir þeirra sértæku krabbamein, en ekki önnur algeng mein þeirra eins og t.d. ristilkrabbamein, né hafa þær haft sérstaklega betri aðgang að forvörnum gegn lífstílssjúkdómum en karlar.

Það er að sjálfsögðu jafn mikilvægt fyrir bæði kynin að stunda virkar forvarnir, afla sér þekkingar og fræðslu og láta fylgjast með heilsufarsástandi sínu með skipulegum hætti samanber það sem klínískar leiðbeiningar mæla fyrir um.

Heilsuvernd hefur um langt skeið boðið uppá ítarlegt heilsufarsmat einstaklinga af báðum kynjum og eftirfylgni með lífstílsþáttum og reglubundu eftirliti áhættuþátta með góðum árangri.  Auk þess hefur verið stuðlað að fræðslu og upplýsingagjöf til almennings í gegnum vefsíðuna www.Doktor.is  sem um langt árabil hefur verið fjölsóttasti heilsuvefur landsins.

Hvernig sem þú kýst að haga eftirliti með heilsu þinni þá er ljóst að þú átt ekkert verðmætara !

Það er því hvatning okkar að einstaklingar, karlar sem konur, stundi reglubundið forvarnarstarf.  Með þeim hætti er hægt að greina sjúkdóma fyrr og tryggja betri meðferðarmöguleika,  auk þessa er fjárhagslegur ávinningur í bættri heilsu einstaklinga fyrir einstaklinginn sjálfan sem og þjóðfélagið í heild.