Kallar einn keisaraskurður á annan?

Það er ekki rétt að aftur þurfi að gera keisaraskurð ef kona verður barnshafandi innan tveggja ára eftir að hún fæðir með keisaraskurði. Hins vegar er það svo að eftir einn keisaraskurð er aukin hætta á fylgikvillum sem gera keisaraskurð nauðsynlegan. Það er einnig venjan að eftir að gerðir hafa verið tveir keisaraskurðir er ekki látið reyna á eðlilega fæðingu. Þegar komið er ör á legið eykst hættan á fyrirsætri fylgju, fylgjulosi og legrifu – allt alvarlegir fylgikvillar meðgöngu og fæðingar. Örið getur einnig hindrað framgang höfuðsins í gegn um fæðingarveginn vegna þess að það er stífara en legvöðvinn sjálfur. Örið getur einnig orsakað leiðslutruflun í legvöðvanum þannig að samdrættirnir verði ósamhæfðir og vöðvinn vinni því ekki eins vel og hann þarf.

Ef næsta meðganga gengur hins vegar vel er ekkert því til fyrirstöðu að látið sé reyna á eðlilega fæðingu og töluverðar líkur til að hún takist.  Það er hins vegar skynsamlegt að bíða aðeins með að verða barnshafandi aftur til að gefa líkamanum færi á að gróa vel og byggja sig upp á nýjan leik eftir fyrri meðgöngu. Sé konan vel nærð og í góðu líkamlegu formi eru meiri
líkur á að næsta meðganga og fæðing gangi vel.