Kal

Kal getur myndast hvenær sem hiti fer niður fyrir frostmark. Ef aðeins efsta lag húðarinnar frýs kallast það yfirborðskal en nái holdið undir henni að frjósa er um djúpt kal að ræða. Fætur, hendur, eyru og nef eru viðkvæm fyrir kali einkum vegna þess að í þessum líkamshlutum eru engir stórir, hitamyndandi vöðvar. Erfitt er að meta hversu alvarlegt og umfangsmikið kal er fyrr en mörgum klukkustundum eftir að húðin hefur þiðnað.
 
Yfirborðskal er sársaukafullt en vanalega hlíst ekki frekara tjón af því ef húðin nær að hitna aftur. Ítrekað yfirborðskal á sama stað getur þó orsakað þurrk í húðinni sem leiðir til þess að hún springur og verður viðkvæm. Erfitt er að greina á milli yfirborðskals og djúps kals. Yfirborðskal ber ávalt að taka alvarlega þar sem það getur verið vísbending um yfirvofandi djúpt kal. Alvarlegustu afleiðingar kals eru drep og aflimun.

Yfirboðskal

Hvað sérðu?
• Húðin er hvít, gráhvít eða grágul.
• Kalni bletturinn er mjög kaldur og dofinn en í honum gæti verið fiðringur, stingir eða sársauki.
• Yfirborð húðarinnar er stíft eða skorpukennt en vefirnir undir henni mjúkir þegar þrýst er varlega en þétt á þá.

Hvað gerirðu?
• Forðaðu hinum kalna úr kuldanum á hlýjan stað.
• Fjarlægðu allan fatnað eða annað sem þrengir að eða hindrar blóðrásina.
• Hitaðu kalna húðhlutann varlega með því að leggja hann við heitan líkamshluta (t.d. berar hendur, handarkrika eða maga) eða blása á hann heitu lofti.
• Ekki nudda húðina. Þega hún hitnar á ný gæti verið í henni roði og fiðringur.

 

Djúpt kal

Hvað sérðu?
• Kalbletturinn er kaldur og harður viðkomu og gefur ekki eftir ef þrýst er á hann.
• Húðin er föl og gráhvít og ekki hægt að hreyfa vefina undir henni.
• Sársauki hverfur skyndilega úr sárum, köldum bletti.
• Blöðrur geta myndast þegar húðin hefur hitnað á ný.
• Þegar líkamshlutinn hefur þiðnað má flokka kalið líkt og brunasár.

Hvað gerirðu?
• Leitaðu strax læknishjálpar.
• Forðaðu hinum kalna úr kuldanum á hlýjan stað.

• Reyndu að fjarlægja allan fatnað eða annað sem þrengir að og gæti hindrað blóðrásina (t.d. hring).
• Ef langt er í sérhæfða aðstoð skaltu hita líkamshlutann í volgu vatni. Dýfðu kalna líkamshlutanum í volgt vatn (39-40 °C). Ef hitamælir er ekki við höndina má hella svolitlu af vatninu á innanverðan handlegginn eða stinga olnboganum ofan í það til að vera viss um að vatnið sé volgt en ekki heitt. Best er að reyna að viðhalda sama hita á vatninu með því að bæta annað slagið í það meira af heitu vatni. Hitunin tekur um 20 til 40 mínútur. Verkjalyf geta slegið á þann mikla sársauka sem hituninni fylgir. Ef eyra eða andlit er kalið má leggja hlýjan, rakan klút á það svæði og skipta oft um.

Að þíðingu lokinni þarf að
• Flytja hinn kalna á börum því fætur hans verða máttlausir.
• Verja kalna líkamshlutann fyrir snertingu við klæðnað eða rúmfatnað.
• Leggja þurrar, dauðhreinsaðar umbúðir milli táa og fingra til að halda þeim aðskildum og láta þær drekka í sig raka.
• Gefa hinum kalna verkjalyf til að draga úr sársauka og bólgu.
• Koma í veg fyrir annað kal. Ef líklegt er að líkamshlutinn frjósi á ný er betra að þíða hann ekki.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands