Jólin eru tímabil gleði og eftirvæntingar

Allir Íslendingar þekkja söguna um jólasveinana einn og átta sem koma hrínandi til byggða um hver jól. Þeim vantar allt sem við viljum hafa. Þetta eru makalausir og vinalausir lúserar, atvinnulausir þrasarar, blankir þjófar eða ósáttir nöldurseggir og hafa af engu að gefa. Foreldrarnir eru vonlausir, Leppalúði og vond Grýla. Samt koma þeir á hverju ári til að gleðja okkur og kæta, það bregst ekki.

Jólin veita okkur tækifæri til þess að sýna kærleik og vera hans aðnjótandi. Vandinn við allar væntingarnar sem tengjast jólum er sú sýn sem við höfum á samskipti okkar við aðra. Þessi sýn mótast af eigin þörfum okkar, eins og t.d. þörfin fyrir að vera elskuð eða elskaður, eða þörfin fyrir að fólki líki við okkur. Annað er hvati til makaleitar og hitt er hvati til almennra samskipta við fólk.

Ef við erum með sterkar þarfir geta þær orðið til þess að við sýnum öðrum tilætlunarsemi í samskiptum eða að við finnum til einangrunar ef viðbrögð annarra eru ekki eins og við ætlumst til af þeim. Þannig getum við blindast af okkar eigin þörfum og samskiptin verða þvinguð eða mótuð af stjórnsemi. Engum líður vel í slíkum samskiptum. Það má líkja því við skynjunarvillumyndir, þ.e. myndir sem breytast eftir því hvernig er horft á þær. Þegar við blindumst af eigin þörfum eigum við erfitt með að greina hvort við erum andlitin eða vasinn.

Á jólunum fáum við tækifæri til þess að létta á öllum slíkum háttum, fyrirgefa allt sem okkur fannst vera mikilvægt og áríðandi í dagsins önn. Við fáum tækifæri til að horfa til sáttar og kærleiks í staðinn fyrir að einblína á þá þætti sem skipta okkur máli í daglegu amstri, eins og peninga, viðurkenningu, að sigra eða hver fékk að ráða í það skiptið. Allt skiptir þetta máli en þetta verður alltaf eining í einhverju stærra sem skiptir okkur máli og þetta eitthvað stærra verður okkur oft ljóst um jól.

Afstaða okkar skiptir miklu máli. Bæði afstaðan til okkar sjálfs og til annarra. Við þurfum bæði að virða okkar eigin afstöðu sem og taka mark á áliti annarra. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga gamla máltækið að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig en um leið er mikilvægt að bera virðingu fyrir því hvað þeir vilja. Þá er ekki síður mikilvægt að koma fram við sjálfan sig eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.

Skilaboð jólanna er að missa ekki sjónar af því sem skiptir máli í lífinu og að einblína ekki á allt það sem fylgir daglegu amstri. Veraldlegar eignir, starf og staða í samfélaginu eru hlutir sem skipta máli, en ekki svo mjög að þeir eigi að hafa neikvæð áhrif á sátt okkar í lífinu. Það er vont að skulda en enginn verður sæll af fé miklu. Kærleikur grundvallast á því að sjá heildarmynd og framtíð sem skiptir okkur máli, þar sem gleði og heilbrigð samskipti hafa yfirhöndina. Notum jólin til að gera upp við það liðna og um leið að skapa okkur lífsýn sem skiptir okkur máli fyrir framtíðina.