Insúlín

 • InsúlínInsúlín er hormón sem myndast í briskirtlinum og lækkar magn blóðsykurs. Ef menn eru með sykursýki myndast of lítið af insúlíni og þeir þurfa því oft insúlíngjafir til þess að halda blóðsykri eðlilegum. Það er eingöngu hægt að gefa insúlín sem stungulyf og þarf að sprauta sig með því daglega.

  Insúlín er framleitt á ýmsa vegu. Algengast var að það væri unnið úr briskirtlum svína eða nautgripa. Mjög óverulegur munur er á svína- og mannainsúlíni og er nú farið að breyta svínainsúlíni þannig að það verði nákvæmlega eins og mannainsúlín. Fyrir nokkrum árum kom á markaðinn mannainsúlín sem er framleitt í gerlum með erfðatækni. Hér eru nú á markaðnum tvær tegundir af insúlíni: Svínainsúlín sem breytt hefur verið í mannainsúlín (Velosulin) og mannainsúlín framleitt með erfðatækni. Öll insúlín hafa sömu áhrif og ekki er vitað til þess að ein tegund sé betri en önnur.

  Þarfir einstaklinga með sykursýki eru mjög mismunandi og til að hægt sé að veita þeim öllum viðeigandi meðferð er insúlín til í mismunandi gerðum sem verka misfljótt og mislengi. Mismunurinn byggist á því hversu hratt insúlínið berst út í blóðið frá staðnum þar sem því er sprautað.

  Til eru þrjár slíkar gerðir af insúlíni. Hér fer á eftir listi yfir sérlyf í hverri gerð:

  Hraðvirkt insúlín í sprautuformi:

   

  Actrapid® Actrapid® Pen Actrapid® Penfill
  Humalog® Humalog® Mix 25 Humalog® Pen
  Humulin® Regular®

  Meðal-langvirk:

  Humulin® NPH Humulin® NPH Pen Insulatard®
  Insulatard® Pen® Insulatard® Penfill® Monotard®

  Meðal-langvirk en fljótvirk í upphafi:

  Humulin® Mix 30/70 Mixtard® 30/70 Mixtard® 30/70 Penfill®
  Mixtard® 10/90 Pen® Mixtard® 20/80 Pen® Mixtard® 30/70 Pen®
  Mixtard® 40/60 Pen® Mixtard® 50/50 Pen®

  Skammtar eru háðir einstaklingum, sjúkdómsástandi og þeirri tegund insúlíns sem notuð er. Nú er aðeins einn styrkleiki insúlíns á markaðnum, 100 einingar í hverjum ml. Lyfinu á að sprauta strax og það hefur verið dregið upp í sprautuna. Til að losna við húðbreytingar er gott að sprauta lyfinu á nýjan stað í hvert skipti.

  Á undanförnum árum hafa komið fram nokkrar nýjungar í gjöf insúlíns. Sú nýjung sem enn skiptir mestu máli er hinn svokallaði insúlínpenni sem er litlu stærri en venjulegur penni og hefur að geyma sprautu með fyllingu (Penfill, Pen) sem ávallt er tilbúin til notkunar. Önnur merk nýjung sem aðeins er að byrja að ryðja sér til rúms er insúlínpumpan sem hægt er að hafa í vasanum eða hangandi í belti og gefur insúlínið í stöðugri innspýtingu undir húð.

  Aukaverkanir: Stundum verða breytingar á húðinni þar sem lyfinu er sprautað. Ofnæmi fyrir insúlíni kemur fyrir en er mjög sjaldgæft. Við sérstakar aðstæður, t.d. óvenjumikla líkamlega áreynslu eða ef borðað er minna en venjulega, getur verkun insúlínsins orðið of kröftug og þá lækkar blóðsykurinn of mikið. Þetta getur gerst skyndilega með miklum svita, hjartslætti, hræðslu eða skjálfta. Ef slíkt gerist er mikilvægt að borða fljótt sykur í einhverri mynd. Sé það ekki gert í t&iacute ;ma getur viðkomandi fengið insúlínlost og misst meðvitund en þá er mikilvægt að ná strax í lækni.

  Sum lyf geta haft áhrif á verkanir insúlíns og ætti þess vegna að hafa samráð við lækni ef önnur lyf eru tekin samtímis. Mörg lyf sem innihalda insúlín eru viðkvæm fyrir ljósi og er best að geyma þau í pappaumbúðunum. Insúlín á að geyma í kæliskáp en það má alls ekki frjósa og ekki má nota insúlín sem hefur frosið. Ef upplausnin gruggast eða breytir um lit á ekki að nota lyfið.

  Að lokum skal tekið fram að ekki þurfa allir sjúklingar með sykursýki að fá insúlín. Þeir sem veikjast sem börn eða unglingar eru flestir með það sem kallað er insúlínháð sykursýki og þurfa insúlíngjafir það sem eftir er ævinnar. Þeir sem veikjast á fullorðinsárum eru hins vegar oftast með það sem kallað er fullorðinssykursýki og dugir þeim venjulega aðhald í mataræði og lyf á töfluformi.