Inflúensubólusetning

Um þessar mundir er að fara af stað að nýju árleg bólusetning gegn Inflúensu. Það hefur verið töluverð umræða uppá síðkastið um aukaverkanir af bólusetningu gegn svokallaðri Svínaflensu og hefur verið ákveðið hérlendis að skoða  mögulegt orsakasamhengi milli þeirrar bólusetningar og drómasýki. Á norðurlöndunum hafa komið fram nokkur tilvik  og liggur ekki enn fyrir hvað raunverulega veldur. Því  hefur verið hrundið af stað samnorrænni rannsókn á þessu sem tilkynnt var um í gær.

Umræðan um skaðsemi bólusetninga er viðvarandi og yfirleitt meira í formi upphrópana og á tilfinningalegum grunni byggð, ekki skal þó gert lítið úr henni og hefur hún áhrif á samfélagið í heild sinni. Þessari umræðu til stuðnings hafa komið fram samsæriskenningar um að lyfjafyrirtækin hafi nýtt sér ofsahræðslu og áróður til að maka krókinn á sölu bóluefnis gegn svínaflensu á undangengnu ári. Ekki skal sest í dómarasætið í þessu efni en bendi ég á að sóttvarnarlæknir ber ábyrgð á stefnu þeirri sem fylgt er varðandi bólusetningar og gefur út leiðbeiningar sem finna má á vef Landlæknisembættisins. Þann 10 ágúst síðastliðinn lýsti alþjóða heilbrigðismálastofnunin að faraldurinn væri genginn yfir og var því viðbúnaðarstig lækkað.

Mikilvægt er að aðgreina bólusetningu gegn Svínaflensu frá  hefbundinni Inflúensu sem er breytileg frá ári til árs og því þarf nýtt bóluefni gegn þeim stofni sem talinn er munu herja á mannfólkið hverju sinni. Á heimasíðu Influensa.is eru  leiðbeiningar að finna en einnig á vefnum doktor.is. Í  þungum faraldri eykst álag á heilbrigðiskerfið og í samfélaginu verður áberandi aukning á fjarvistum vegna veikinda, frá vinnu og skóla.

Árleg inflúensa kemur verst niður á eldri kynslóðinni og einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma með auknum fjölda dauðsfalla í kjölfar inflúensunnar vegna alvarlegra fylgikvilla hennar. Fyrir flesta er inflúensan hins vegar óþægileg veikindi sem ganga yfir á nokkrum dögum án alvarlegra afleiðinga.

Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega með háum hita, skjálfta, höfuðverk, beinverkjum, þurrum hósta og hálssærindum. Hægt er að verjast inflúensunni með árlegri bólusetningu sem gefur um 60–90% vörn gegn sýkingu. Það er því hægt að fá inflúensu þrátt fyrir bólusetningu, en meðal þeirra sem eru bólusettir dregur bólusetningin úr alvarlegum fylgikvillum sýkingarinnar og lækkar dánartíðni.

Það er því mælst til þess að skilgreindir áhættuhópar verjist Inflúensu með bólusetningu þeim að kostnaðarlausu hjá Heilsugæslunni.

Auk þessa er bólusett á vinnustöðum fyrir þá sem hyggjast verjast þessari skæðu sótt og er óhætt að segja að Íslendingar hafi hingað til verið virkir og látið bólusetja sig.

Því hvet ég þá sem hafa hug á slíku að skrá sig til bólusetningar nú í haust og minnka líkurnar á smiti.