Inflúensa, pistill

Inflúensa

Inflúensa er þekktur smitsjúkdómur, sem gengur í árvissum faröldrum og er sívinsælt umræðuefni hvers vetrar. Af nafni hennar er dregin styttingin flensa, sem almenningur notar gjarna jafnt um inflúensu sem og óskilgreindar pestir. Í vetur hefur gengið óvenju erfiður faraldur og hafa fregnir m.a. borist frá Bretlandi, Hollandi og Noregi um yfirfull sjúkrahús vegna fylgikvilla sýkinnar. Í byrjun desember 1999 varð fyrstu inflúensutilfella vetrarins vart hér á landi og hefur veikin breiðst hratt út og um jólin var hún orðin mjög áberandi og virðist nú í hámarki enda þótt engar tölur liggi fyrir um fjölda sýktra.

Orsakir

Inflúensu veldur veirutegund sem greinist í þrjá stofna A, B og C. Stofn C veldur ekki fjöldasýkingum. Hins vegar valda tegundir A og B faröldrum og er A stofn einkum skæður. Þekktasti inflúensufaraldur sögunnar er Spænska veikin sem fór um heiminn 1918 og varð um 20 milljón manns að bana. Það sem einkum veldur erfiðleikum í viðureigninni við inflúensuveiruna er sá eiginleiki hennar að breyta ónæmismyndandi eiginleikum sínum eða hjúpgerð (ónæmismyndandi eiginleikar veirunnar búa á yfirborði hennar) þannig að sá sem sýkist af inflúensu öðlast ónæmi gegn þeirri ákveðnu hjúpgerð en minna eða ekkert ónæmi gegn öðrum hjúpgerðum. Vegna breytinga, sem eiga sér stað í hjúpgerð veirunnar getur nýtt afbrigði hennar því sýkt sama einstakling ári síðar í nýjum faraldri. Smávægilegar breytingar eiga sér stað í hjúpgerð veirunnar nánast árlega en stærri stökkbreytingar verða á 10 til 40 ára fresti. Þegar slíkar breytingar verða má búast við svæsnustu faröldrunum. Talið er að nýir stofnar veirunnar verði til í Suðaustur Asíu og Kína og eru uppi hugmyndir um að stökkbreytingar A stofnsins eigi sér stað í dýrum t.d. fuglum. Er í því sambandi skemmst að minnast fuglaflensunnar í Hong Kong 1997, sem tókst að kæfa í fæðingu en kostaði samt sem áður nokkur mannslíf.

Talið er að helsta smitleið inflúensu sé með úðasmiti frá öndunarvegi en einnig er talið að veiran geti borist með fatnaði og fleiri hlutum. Því er rétt að minna á mikilvægi reglulegs handþvottar í smitvörnum.

Einkenni

Víðast hvar er inflúensa vetrarsjúkdómur. Misjafnt er hvenær vetrar veikin gerir vart við sig, hér á landi allt frá nóvember fram í apríl. Hún er bráðsmitandi og og er meðgöngutíminn frá því að smitun á sér stað þar til sjúkdómseinkenni koma fram 1-3 dagar. Inflúensa er fyrst og fremst öndunarfærasjúkdómur en með ýmsum almennum einkennum sem bera hratt að. Hiti getur á skömmum tíma farið yfir 40°C og varir oftast í 3-5 daga, hósti, hæsi, nefrennsli, slappleiki, höfuðverkur, beinverkir (sem eru reyndar verkir frá vöðvum), augnverkir, liðverkir, ógleði og uppköst fylgja í mismiklum mæli. Hósti og slappleiki getur varað allt að 2 vikum eftir sýkingu. Sjúklingar eru oftast smitandi í 3-5 daga og börn jafnvel nokkru lengur.

Breytilegt er milli faraldra og einstaklinga hversu áberandi einkennin eru. Svipuð einkenni geta einnig átt við ýmsa aðra sjúkdóma. Í inflúensufaraldri er hætt við að mönnum sjáist yfir aðra sjúkdóma, sem geta verið alvarlegir. T.d. er rétt að benda á að hnakkastífleiki og útbrot eru ekki einkenni inflúensu. Ef sjúklingur er mjög veikur og vafi leikur á sjúkdómsgreiningu er rétt að hafa samband við lækni. Inflúensa er alvarlegur sjúkdómur í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hún gífurleg áhrif á alla starfsemi samfélagsins og veldur miklu fjárhagslegu tjóni vegna veikindaforfalla. Hins vegar fylgja henni alvarlegir kvillar með aukinni dánartíðni, einkum meðal aldraðra og þeirra sem haldnir eru hjarta- og lungnasjúkdómum og öðrum langvinnum sjúkdómum sem skerða mótstöðuaflið. Helstu fylgikvillar inflúensunnar eru lungnabólga af völdum veirunnar og lungnabólga af völdum baktería sem koma í kjölfarið.

Meðferð og forvarnir

Hefðbundin meðferð við inflúensu án fylgikvilla er fyrst og fremst hvíld svo og verkjastillandi og hitalækkandi lyf þegar þörf krefur t.d. parasetamól. Sjúklingum ber að forðast kulda, vosbúð og áreynslu meðan á veikindum stendur. Bólusetning gegn inflúensu er vel þekkt hér á landi og hefur verið mikið beitt. Gefur hún um 70-80% vörn gegn sýkingu. Í næstu viku er reiknað með að á markaðinn hérlendis komi lyf sem hefur reynst árangursríkt við að meðhöndla og einnig í að fyrirbyggja veikindi af völdum A og B stofna veirunnar. Lyfið, Relenza, er innúðalyf, sem hemur fjölgun veirunnar í öndunarfærum. Hefur það verið í notkun á sjúkrahúsum hérlendis um skeið. Lyfið verður að nota eins fljótt og auðið er eftir að einkenna verður vart, helst innan tveggja daga frá upphafi einkenna til þess að ná sem bestum árangri. Þrátt fyrir tilkomu lyfs við sýkingunni verður bólusetning áfram helsta vörnin gegn inflúensunni bæði vegna þess að það er ódýrara og eins vegna þess að þegar miklir faraldrar skella á ræður heilbrigðiskerfið ekki við að sinna nema takmörkuðum fjölda sjúklinga sem kjósa lyfjameðferð.