Inflúensa

Inflúensa er veirusýking sem kemur árlega hér á landi eins og í öðrum löndum. Hún er þekkt af því að valda mannskæðum faröldrum á nokkurra áratuga fresti en þekktastur þeirra er Spánarveikin (spænska veikin) sem geisaði 1918-1919. Talið er að í þessum faraldri hafi um 20 milljónir einstaklinga látist í heiminum og fleiri hundruð á Íslandi.

 

Það sem einkennir inflúensu umfram aðrar veirusýkingar er að veiran breytir sér reglulega þannig að mótefni sem myndast hjá einstaklingum sem sýkjast duga ekki til fullrar verndar þegar veiran kemur aftur að ári.

 

Oftast er sýkingin í gangi hér á landi á veturna og getur hafist í október (eins og 2003) fram í apríl/ maí. Venjulega tekur 2–3 mánuði fyrir sýkinguna að ganga yfir og hennar verður síðan ekki vart fyrr en að ári liðnu.

 

Í hvert skifti sem inflúensa geisar þá sýkist stór hluti þjóðarinnar, einkum börn og unglingar.

 

Helstu einkenni sýkingarinnar eru:

 

 • hár hiti sem byrjar skyndilega

   

 • höfuðverkur og beinverkir

   

 • hósti, hæsi, nefrennsli og hálssærindi

   

 • kviðverkir og uppköst sem einkum eru áberandi hjá börnum.

   

Venjulega gengur hitinn yfir á 3–5 dögum en slappleiki og hósti geta staðið mun lengur. Yfirleitt ná sjúklingar sér að fullu en gamalt fólk og einstaklingar með langvinna sjúkdóma geta veikst alvarlega og jafnvel dáið.

 

 

 

Besta ráðið til að forðast inflúensu er bólusetning á hverju hausti (sjá vef Landlæknisembættisins http://www.landlaeknir.is) og er virkni bólusetningarinnar um 60-90%.

 

Sóttvarnalæknir mælir með árlegri bólusetningu í september/október hjá eftirtöldum hópum:

 

 • Öllum eldri en 60 ára

   

 • Börnum (eldri en 6 mánaða) og fullorðnum

   

  • með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma (þ.á.m. astma)

    

  • með veiklað ónæmiskerfi

    

  • með langvinna efnaskiftasjúkdóma (þ.á.m. sykursýki)

    

  • börnum og unglingum sem taka aspirin að staðaldri (vegna hættu á Reye heilkenni)

    

 • Einstaklingum sem sýkt geta aðra sem eru í hættu að fá alvarlega inflúensusýkingu

   

  • starfsfólki á sjúkrahúsum sem annast sjúklinga

    

  • starfsfólki á elli- og hjúkrunarheimilum

    

  • heimilsfólki þar sem áhættuhópar dvelja

    

 

 

Á markaði eru lyf gegn veirunni sem eru árangursrík einkum ef þau eru notuð á fyrstu tveimur dögum veikindanna.

 

 

 

Sjúklingum með inflúensu er ráðlagt að halda kyrru fyrir heima, hvíla sig vel og drekka vöka ríkulega . Hitalækkandi lyf eru árangursrík til að lækka hitann og lina óþægindi en forðast ætti að neyta aspirin-lyfja vegna hættu á svokölluðu Reye heilkenni. Reye heilkenni er sjaldgæfur en alvarlegur sjúkdómur í lifur og miðtaugakerfi sem einkum hefur verið lýst hjá einstaklingum með inflúensu og hlaupabólu sem neyta aspirin lyfja.

 

 

Frá landlæknisembættinu