Ill persónuleikaröskun eða bara smá aprílgabb.

 

 

Fyrsti apríl er dagurinn þegar allir mega ljúga og blekkja. Það er nokkurskonar alþjóðleg samþykkt að slíkt megi á þessum degi, allt undir hatti skemmtunar. Á þessum degi er lygin (sem yfirleitt er illa séð) notuð til að sprella í fólki þannig að allir hafi gaman af. Meira að segja ríkisfjölmiðlar ljúga í von um að einhverjir sakleysingjar láti blekkjast og hlaupi fyrsta apríl.

 

En fyrst það má ljúga á þessum eina degi ársins, má þá ekki ljúga hina dagana? Jú, í raun ljúgum við nánast stanslaust alla daga, bæði að okkur sjálfum og öðrum. Sumir telja að við ljúgum að meðaltali 150-200 sinnum á dag, en fer þó eftir því hvernig við skilgreinum lygi.

Að skilgreina lygi er nokkuð erfitt því ástæður fyrir því að við ljúgum geta verið margar og einnig er erfitt að finna út hvenær gabb verður að lygi og hvenær hvít lygi verður að “svartri” lygi. Í víðri skilgreiningu má segja að við ljúgum nánast stanslaust. Við segjum fólki að það líti vel út þótt okkur finnist annað og þegar fólk spyr um nýju peysuna eða nýja hárið þá segir maður eins og Stuðmenn “Mikið líturðu vel út beibí, frábært hár!”.

Dýr nota einnig lygi og blekkingar. Rannsóknir hafa til að mynda sýnt að simpansar geta blekkt til að fá banana og að önnur dýr nota blekkingar til að bjarga ungviðinu eða flokknum frá rándýrum. Út frá sálfræðinni er lygin í þessu samhengi alveg bráðnauðsynleg. Félagsleg samskipti okkar ganga út á ákveðin skipti þar sem fólk skiptist á að hrósa og fá hrós. Þannig styrkjum við hvert annað og stuðlum að auknu sjálfstrausti og vellíðan. Oftast trúum við því sem fólk segir um okkur, sérstaklega það sem er jákvætt, án þess að hugsa mikið um hverjar líkurnar eru á því að viðkomandi segi satt. Ef við segðum alltaf sannleikann þá værum við gangandi stórslys, særandi þennan og hinn með leiðindar athugasemdum. En þessi hvíta lygi hefur þann tilgang að gleðja fólk og því afar nauðsynleg til að mannleg samskipti gangi vel fyrir sig.

Lygi er þó einnig notuð í öðrum tilgangi, til dæmis til að forðast refsingu, auka völd eða eignast peninga. Þá eru blekkingar notaðar og sannleikanum hagrætt eða upplýsingum sleppt viljandi úr. Slíkar lygar voru umræðuefni ameríska geðlæknisins M. Scott Peck í bók hans People of the Lie frá árinu 1983. Þar fjallar hann um lygi sem notuð er til að fegra sjálfan sig og hylma yfir illvirki sín. Slík tegund af lygi er einmitt aðal einkenni þess sem Dr. Peck vildi kalla Evil Personality Disorder, eða Ill persónuleikaröskun. Slík röskun er þó ekki inní alþjóðlegum greiningarkerfum en lygin er eitt af einkennum annarra raskana innan þessara greiningarkerfa eins og andfélagsleg persónuleikaröskun og hegðunarröskun. Þá telja margir að um einhverskonar hvatvísi sé um að ræða sem getur orðið til ávanahegðunar.

En það er nokkuð langt bil á milli lyga til að hylma yfir illvirki og smá aprílgabbs. Bilið er þó kannski ekki eins langt og það lítur út fyrir að vera. Kannski er þetta bara spurning um ávana. Við höfum til dæmis vanið okkur á þessa “hvítu” lygi í daglegum samskiptum. Hún er hvít af því hún gerir engan skaða (teljum við) og er vel meint. Hún er aftur á móti eitthvað sem við höfum vanið okkur á og er orðin það sjálfráð að við tökum ekki lengur eftir því að við erum að ljúga eða fegra sannleikann. Á sama hátt er lygin sem notuð er í hagnaðarskyni orðin sjálfráð. Dr. Robert Hare, sem er amerískur sálfræðingur, hefur lagt stund á rannsóknir á siðblindu (psychopathy) og í bók sinni, Without Conscience: The disturbing world of the psychopaths among us, lýsir Dr. Hare því hvernig siðblindingjar ljúga án þess að blikna og taka varla eftir því þegar upp kemst um lygina. Lygin er orðin svo sjálfráð að þeir eru nánast ekki meðvitaðir um að þeir eru að ljúga og má þá segja að þetta sé orðið ákveðið karaktereinkenni.

Það hættulegasta (og það besta) við lygina er að það er nánast ómögulegt að vita hvort fólk er að blekkja eður ei. Rannsóknir á börnum hafa til dæmis sýnt að ekki er hægt að greina milli barna sem ljúga og ljúga ekki við tilteknar aðstæður á rannsóknarstofu. Í Bandaríkjunum hefur lygamælirinn verið notaður í mörg ár. Auknar rannsóknir á áreiðanleika slíks apparats hafa aftur á móti leitt til þess að stór hluti amerískra sálfræðinga eru á móti notkun hans í réttarkerfinu. Nokkuð auðvelt hefur nefnilega reynst að ljúga sig í gegnum slíkt tæki. Á sálfræðilegum prófum eru oft notaðir lygakvarðar en þeir meta í raun ekki hvort próftaki sé lygari heldur hvort hann sé að segja ósatt á prófinu. Sálfræðin hefur því ekki getað fundið út hvernig hægt er að sjá í gegnum lygina.

Á fyrsta apríl getum við því átt von á að vera blekkt án þess að við fáum rönd við reist. Það er þó í gamni gert og fellur undir skilgreininguna “hvít& rdquo; lygi þar sem tilgangurinn er góður. En ef það er hægt að blekkja okkur á fyrsta apríl þegar við erum viðbúin öllu, hvernig er það þá alla hina daga ársins? Ég held að við séum flest okkar nokkuð auðveld bráð fyrir þá sem nota lygi og blekkingar sér til framdráttar. Höfum því varann á alla daga ársins nema fyrsta apríl, því þá eru einmitt líkur á viðurkenndum lygum í vernduðu umhverfi.

Brynjar Emilsson

Sálfræðingur