Iðjuþjálfi

Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Iðjuþjálfafélag Íslands

Nafn á tengilið:

Lilja Ingvarsdóttir, formaður

 • Aðsetur: Borgartúni 6, 105 Reykjavík
 • Heimasíðu félagsins má finna hér

  Svarað er í síma 588 9770 og 588 1885 á þessum tímum. 
  Fyrirspurnir og/eða ábendingar má líka senda á netfangið sigl@bhm.is
  Faxnr. er: 588 9239

  Starfssvið (hlutverk):

  Iðjuþjálfar láta sig varða heilsu fólks og vellíðan. Sýn þeirra á heilsu tengist þó fleiru en sjúkdómum og meðferð við þeim. Í iðjuþjálfun er sá álitinn búa við góða heilsu sem á þess kost að velja, skipuleggja og stunda þá iðju sem fullnægir hans þörfum og er við hæfi í því samfélagi sem hann býr í. Þess vegna er fjallað um heilsu í samhenginu „færni við iðju“. Þannig getur sá sem býr við langvarandi sjúkdóm eða fötlun verið við góða heilsu svo framarlega sem honum finnst hann ráða við þá iðju sem hann þarfnast og kýs og er eðlilegt að hann stundi. Iðjuþjálfar búa yfir sérþekkingu til að fást við vanda sem upp kemur þegar fólk er hamlað í athöfnum sínum, vegna erfiðleika eða býr við takmarkaða þátttöku í daglegu lífi, leik og starfi.

  En hvað er þá iðja? Til hennar teljast öll þau viðfangsefni sem fólk innir af hendi í þeim tilgangi að annast sig og sína, gegna ýmsum störfum er nýtast samfélaginu og njóta lífsins. Sem dæmi um slík viðfangsefni má nefna að byggja úr kubbum, klæða sig í sokkana, reikna heimadæmin sín, útbúa mat, aka bíl, afgreiða í verslun, vinna við tölvu, spila fótbolta og leika á hljóðfæri. Meðan flest þessi viðfangsefni virðast einföld og jafnvel sjálfsögð fyrir mörg okkar, þá geta þau verið erfið og jafnvel óframkvæmanleg fyrir fólk sem býr við sjúkdóma eða hefur orðið fyrir áföllum af einhverju tagi. Hið sama gildir um þann sem hefur ekki þroskast eðlilega eða er kominn á efri ár. Markmiðið með iðjuþjálfun er að gera fólki kleift að ná meiri færni við iðju og öðlast um leið aukið sjálfstæði og lífsfyllingu.

  Til þess að skjólstæðingar megi auka færni sína beita iðjuþjálfar ýmsum aðferðum eins og þjálfun, kennslu, fræðslu og ráðgjöf. Slík íhlutun fer þó aldrei fram nema að undangengnu nákvæmu mati á getu og áhuga skjólstæðingsins, iðju hans og aðstæðum. Íhlutun felst oft í að kenna fólki nýtt verklag og þjálfa með því breyttar vinnuaðferðir og notkun hjálpartækja sem gera framkvæmd verka mögulega þrátt fyrir skerta getu. Fræðslu er oft beitt í hópstarfi og þá gjarnan í forvarnarskyni þar sem fjallað er um viðbrögð líkama og sálar við vinnuálagi og leiðum til að bæta vinnuaðstöðu, draga úr álagi og hafa stjórn á streitu. Ráðgjöf sem er veitt skjólstæðingum eða aðstandendum þeirra tengist oft endurskipulagningu á daglegri iðju og breytingum á því umhverfi þar sem hún er stunduð. Sem dæmi um slíkt er að gera húsnæði aðgengilegt fyrir hjólastól, setja upp handföng og koma fyrir baðstól í sturtuklefa þannig að aldraður skjólstæðingur komist í bað heima hjá sér, að draga úr hávaða á vinnustað eða breyta uppröðun á tölvu og jaðarbúnaði og veita ráðgjöf um vinnustól til þess að draga úr álagseinkennum. Með þjálfun er markmiðið oft að efla valda eiginleika sem eru nauðsynlegir til að inna ákveðið verk af hendi. Þetta eru eiginleikar sem lúta að hreyfingu, skynjun, hugarstarfi, tilfinningalífi eða félagslegum samskiptum.

  Starfsvettvangur iðjuþjálfa

  Iðjuþjálfar koma að öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar og starfsvettvangur þeirra er bæði innan heilbrigðisstofnanna og úti í samfélaginu. Þeir starfa einnig á ýmsum sviðum félags- og menntamála þ.á m. hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og við málefni fatlaðra. Á stærri stofnunum eins og sjúkrahúsum og endurhæfingarmiðstöðvum má oftast finna sérútbúnar iðjuþjálfunardeildir þar sem aðstaða er til prófunar og þjálfunar í ýmsum þeim verkum er tengjast daglegu lífi. Iðjuþjálfun utan stofnanna getur farið fram á heimilum skjólstæðinga, vinnustað þeirra, skóla, leikskóla eða annars staðar þar sem iðja er stunduð. Slíkri þjónustu er best fyrir komið á vegum bæjar- og sveitarfélaga eða í tengslum við heilsugæslustöðvar, en iðjuþjálfar á þessum vettvangi koma einnig að skipulagningu heilbrigðis- og félagsþjónustu og hönnun umhverfis. Þá færist það í vöxt að iðjuþjálfar starfi hjá einkafyrirtækjum eða á eigin vegum við ráðgjöf um fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir heilsubrest af völdum vinnuálags.

  Í dag starfa 65% iðjuþjálfa hér á landi á vegum hefðbundinna heilbrigðisstofnanna. Rúmlega helmingur þessa hóps starfar á sérhæfðum hæfingar- og endurhæfingarstofnunum og hinir á almennum sjúkrahúsum. Þau 35% sem eftir eru dreifast á fjölbreytilegan starfsvettvang í heilbrigðis- og félagsþjónustu utan stofnanna auk þess sem nokkrir starfa n&uac ute; við kennslu háskólanema á iðjuþjálfunarbraut. Þetta er umtalsverð breyting, því fyrir 10 árum síðan störfuðu 80% allra iðjuþjálfa á hefðbundnum heilbrigðisstofnunum.

  Dæmi um starfsvettvang:

  • Landspítali háskólasjúkrahús
  • Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri
  • Sjúkrahús Akraness
  • Stryktarfélag lamaðra og fatlaðra
  • Reykjalundur Endurhæfingarmiðstöð
  • Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
  • Barna- og unglingageðdeild
  • Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins
  • Stoð- og hjálpartækjafyrirtæki
  • Svæðisskrifstofur málefna fatlaðra
  • Félags- og skólaþjónusta sveitarfélaga
  • Heilsugæsla
  • Hjúkrunaheimili fyrir aldraða
  • Vinnuvernd og ráðgjöf

  Kostnaður meðferðar:

  Kostnaður er mismunandi allt eftir því hvar þjónustan er veitt. Hjá iðjuþjálfum sem reka eigin starfsemi t.d. varðandi vinnuvernd og ráðgjöf greiðir skjólstæðingur sjálfur. Ef þjónusta er veitt innan stofnanna eins og sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila er hún skjólstæðingum að kostnaðarlausu.

  Er starfsemin niðurgreidd af Tryggingastofnun/Verkalýðsfélögum:

  Það er ekki til samningur um greiðslu fyrir meðferð og þjálfun milli Iðjuþjálfafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Einstaka stofnanir hafa þó gert samning um slíkar greiðslur og eru það Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Gigtarfélag Íslands.

  Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

  Já, iðjuþjálfun er löggilt heilbrigðisgrein og fellur undir lög um iðjuþjálfun nr. 75 frá 1977. Rétt til að starfa sem iðjuþjálfi hér á landi og kalla sig iðjuþjálfa hefur sá einn, sem til þess hefur fengið leyfi heilbrigðisráðherra.

  Menntun:

  Til að vinna starf sitt þurfa iðjuþjálfar að búa yfir greinargóðri þekkingu á byggingu og starfsemi mannslíkamans, sálarfræði, félagsfræði og þroskaferli mannsins. Einnig þurfa þeir að hafa þekkingu á ýmsum frávikum, eðli sjúkdóma og öðru því er getur ógnað heilsu fólks og dregið úr möguleikum þess til að stunda iðju. Sérþekking iðjuþjálfa grundvallast á vísindunum um iðju mannsins sem rennir stoðum undir þá hugmyndafræði og aðferðafræði sem iðjuþjálfun byggir á.

  Iðjuþjálfun hefur verið kennd við Háskólann á Akureyri frá haustinu 1997. Fram að þeim tíma höfðu Íslendingar numið iðjuþjálfun erlendis, flestir í Danmörku. Námið er alþjóðlega viðurkennt og fer fram við Heilbrigðisdeild á iðjuþjálfunarbraut sem er eina slíka námsbrautin hér á landi. Námið tekur fjögur ár og lýkur með BSc-gráðu í iðjuþjálfun auk þess sem útskrifaðir nemendur öðlast starfsréttindi sem iðjuþjálfar samkvæmt íslenskum lögum. Námsskráin er samsett úr áföngum sem metnir eru til eininga, en samtals ljúka nemendur 120 námseiningum á þessum fjórum árum. Áfangarnir flokkast sem iðjuþjálfunargreinar, stoðgreinar eða verknám. Stoðgreinar fylla mestan hluta námsins í byrjun en smám saman taka iðjuþjálfunargreinar yfirhöndina og eru orðnar alls ráðandi í námslok. Verknám er í 25 vikur í allt og fer fram undir handleiðslu starfandi iðjuþjálfa víðs vegar um landið. Vegna takmörkunar verknámsplássa geta hámark 18 nemendur verið innritaðir á hvert námsár í iðjuþjálfun.

  Framhaldsnám í iðjuþjálfun er stundað við erlenda háskóla og algengast hefur verið að fólk haldi utan til námsdvalar. Vaxandi möguleikar eru á fjarnámi. Um tuttugu íslenskir iðjuþjálfar hafa lokið meistaragráðu í faginu.

  Hliðargreinar:

  Eins og í öðrum starfsgreinum þá verður til sérhæfing innan fagsins sem tengist ákveðnum sviðum þjónustu og ólíkum hópum skjólstæðinga. Dæmi um þetta er iðjuþjálfun innan líkamlegrar endurhæfingar, iðjuþjálfun fólks með geðræn vandamál, iðjuþjálfun barna, iðjuþjálfun aldraðra, iðjuþjálfun innan vinnuverndar svo eitthvað sé nefnt.

  Annað sem brýnt er að taka fram:

  Það er mikill skortur á iðjuþjálfum á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Í dag vinna flestir þeirra með fullorðnum skjólstæðingum þar sem röskun á færni við iðju má rekja til líkamlegra sjúkdóma eða fötlunar. Samt vantar enn fólk til starfa á þessu sviði og ekki síður er vöntun á iðjuþjálfum til að starfa með geðfötluðum, börnum með ýmis þroskavandamál og í öldrunarþjónustu. Aðeins tæp 10% allra iðjuþjálfa starfa á landsbyggðinni og þar er skorturinn því enn þá meiri en á höfuðborgarsvæðinu.

  Hingað til hefur þjónusta iðjuþjálfa að mestu takmarkast við stofnanir og þeir sem þarfnast slíkrar þjónustu því orðið að innritast annað hvort sem innlagðir sjúklingar eða sem sjúklingar á göngudeild. En oft þarf fólk ekki síður á iðjuþjálfun að halda eftir að dvöl á stofnun lýkur auk þess sem slík þjónusta getur orðið til þess að stofnanadvöl verður óþörf. Iðjuþjál fun nýtist best ef hún er veitt í eigin umhverfi einstaklingsins og því er eðlilegt að starfsvettvangur iðjuþjálfa sé fyrst og fremst utan stofnanna. Að sjálfsögðu verður þjónustan áfram að vera í boði inni á hefðbundnum heilbrigðisstofnunum, en framboðið þar fyrir utan þarf að stóraukast. Það mun gerast í kjölfar þess að fleiri iðjuþjálfar koma til starfa og einnig í samræmi við breytta stefnu í heilbrigðisþjónustu þar sem áhersla er lögð á að færa þjónustuna meira út til fólksins.

  Námið við Háskólann á Akureyri miðast við þarfir íslensks heilbrigðis- og félagskerfis og býr nemendur markvisst undir störf á fjölbreyttum vettvangi. Því munu nýútskrifaðir iðjuþjálfar í auknum mæli sækja í störf á vegum bæjar- og sveitastjórna, við heilsugæslustöðvar og í skóla- og atvinnuþjónustu sem mun opna nýja möguleika fyrir fjölda fólks sem þarf á þjónustu þeirra að halda.

  Frá og með vorinu 2001 munu 15 – 18 iðjuþjálfar útskrifast árlega úr íslenskum háskóla. Þetta er dugmikið fólk með faglegan bakgrunn sem gerir því kleift að hasla sér völl sem iðjuþjálfar víðs vegar um landið. Iðjuþjálfun sem fagstétt á sér bjarta framtíð, og eitt er víst verkefnin eru óþrjótandi.