Í viðjum þagnarinnar

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.

Þögnin er eitt af birtingarformi fordómanna og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Fáir hafa bitrari reynslu af þögninni en samkynhneigðir, lesbíur og hommar, og þekkja betur afleiðingar hennar. Þegar fjallað er um fordóma er því afar mikilvægt að beina athyglinni að samræðunni. Hvernig tölum við saman og um hvað? Veitum því ekki síður athygli um hvað ekki er rætt og spyrjum okkur sjálf af hverju ekki er talað um viðkomandi málefni.

Um samkynhneigða hefur ríkt mikil þögn og gerir enn. Þrátt fyrir mikilsverðar tilraunir til einlægrar umræðu um samkynhneigð nú á dögum glímum við engu að síður við þögnina. Þar sem skiptir hvað mestu máli að um samkynhneigða sé rætt ríkir skerandi þögn sem hefur alvarleg áhrif á þá einstaklinga sem fyrir henni verða. Þegar ekki er rætt um tilvist samkynhneigðra skynja þeir sjálfir, svo og þeir sem næst þeim standa, höfnun og fyrirlitningu í sinn garð. Slík höfnun er afar sár reynsla og erfið, mannfólkið allt þarfnast ákveðinnar viðurkenningar á sjálfu sér. Með umræðunni opnast leið til þess að sýna viðurkenningu og á því er mikil þörf. Skerandi þögnin skekkir sjálfsmynd hvers einstaklings sem fyrir henni verður og gerir hann vanhæfari til að takast á við lífið, en góð líðan hvers og eins er afar mikilvæg til þess að hann fái notið sín í víðasta skilningi. Að lifa við þögn um eiginleika sinn til ásta er ógnvænlegt, í þögninni felast skýr skilaboð um útilokun, að líf viðkomandi sé einskis virði.

Ef þögnin er ekki rofin með vitrænum samræðum verður okkur ekki mikið ágengt í að fræða og upplýsa hvert annað um fjölbreytileika lífsins, hvers hann er megnugur og hversu mikils virði hann er.

Skiptumst á skoðunum, verum ábyrgir samfélagsþegnar og látum okkur varða um tilvist hvers annars – hver sem við erum.