Hvernig eru lyf afgreidd?

Hvernig eru lyf afgreidd?

Í lyfjaskránni er greint frá pakkningastærðum lyfjanna. Samkvæmt reglugerð um afgreiðslu lyfja er læknum skylt að ávísa lyfjum í skráðum pakkningastærðum, nema sérstaklega standi á, þannig að ekki þurfi að rjúfa pakkningar þeirra þegar þau eru afgreidd. Sérlyf eru tilbúin til sölu en sum önnur lyf þarf að búa til í apótekum í hvert sinn sem beðið er um þau.

Þau lyf sem heimilt er að selja án lyfseðils eru kölluð handkaupslyf eða lausasölulyf. Þau eru merkt í lyfjaskránni með „Án lyfseðils. Í lausasölu er oft hámark á því magni sem afgreiða má í sömu pakkningunni (t.d. Panodil og Paratabs, hámark 30 töflur). Þetta er gert til að komast hjá hættulegum eiturverkunum ef meira magn væri afgreitt og tekið inn allt í einu.

Sumum lyfjum mega læknar aðeins ávísa upp að vissu magni. Þetta á einkum við um svefnlyf, róandi lyf og verkjalyf.

Lyf eru eftirritunarskyld þegar mikil hætta er á ávana og fíkn við langvarandi og mikla notkun. Lyfseðlar, þar sem ávísað er eftirritunarskyldum lyfjum, eru afhentir lyfjaeftirliti ríkisins og aftan á þeim skal vera eiginhandaráritun og kennitala þess sem lyfið á að fá eða þess sem sækir það.

Um mitt árið 1992 tók gildi reglugerð um gerð lyfseðla og afgreiðslu lyfja. Samkvæmt þessari reglugerð er heimilt að gefa út fjölnota lyfseðla, þ.e.a.s. lyfseðla sem afgreiða má eftir allt að fjórum sinnum. Þessir lyfseðlar henta vel við ávísun á lyf, ef ekki er þörf á tíðu lækniseftirliti, t.d. getnaðarvarnalyf, mígrenilyf, gyllinæðarlyf, húðlyf, gigtarlyf og astma- og ofnæmislyf. Það er þó mat læknisins hverju sinni hvort rétt sé að gefa út fjölnota lyfseðil. Notkun þessara seðla getur sparað fólki heimsóknir til læknis og einnig gert því kleift að dreifa kostnaði af lyfjakaupum með því að minni skammtur er keyptur í einu. Fjölnota lyfseðill gildir í eitt ár frá útgáfudegi, en einnota lyfseðill gildir í þrjá mánuði. Eftir þann tíma er óheimilt að afgreiða lyf út á hann.

Hvernig er greitt fyrir lyf?

Lausasölulyf eru að jafnaði ekki niðurgreidd af Tryggingastofnun þótt læknir gefi út lyfseðil fyrir þeim.

Ýmsir lyfjaflokkar eru ekki niðurgreiddir af Tryggingastofnun og má þar nefna sýklalyf, róandi lyf, svefnlyf, hóstalyf, hægðalyf, nef- og hálslyf, vítamín, sníklalyf og bóluefni (nema skyldubólusetningar).

Lyf við nokkrum sjúkdómum eru sjúklingum að kostnaðarlausu. Þetta eru einkum lyf við Parkinsonssjúkdómi, sykursýki, dreyrasýki, þvaghlaupi, flogaveiki, krabbameini og gláku.

Hvernig eru lyf merkt?

Þegar lyf er afgreitt í apóteki er það merkt með merkimiða sem á er letrað nafn eiganda, skammtur sem læknir ákvað, dagsetning, upphafsstafir læknisins og kvittun lyfjafræðings.

Tölvur hafa í auknum mæli verið teknar í notkun við afgreiðslu lyfja og dregur það úr hættu á rangri afgreiðslu. Tölvukerfið prentar út límmiðana sem festir eru á lyfjapakkningarnar. Dæmi um miða úr tveimur slíkum kerfum eru sýnd hér fyrir neðan.

Hverjir eiga rétt á lyfjaskírteini?

Þeir sem haldnir eru alvarlegum og langvinnum sjúkdómum sem krefjast stöðugrar lyfjameðferðar eiga rétt á að læknir þeirra sæki um lyfjaskírteini fyrir þá. Um er að ræða eftirtalda sjúkdóma: Hjartasjúkdóma, skjaldkirtilssjúkdóma (of eða vanvirkni), astma, alvarlegt psoriasis eða exem, vissa alvarlega bólgusjúkdóma og alvarlega geðveiki.

Hvernig fær fólk lyfjaskírteini?

Til að fá lyfjaskírteini þurfa þeir, sem uppfylla skilyrðin hér að framan, að leita til læknis sem útfyllir læknisvottorð og sendir til Tryggingastofnunar ríkisins, sem síðan sendir skírteinið heim til sjúklingsins.

Fást lyfjaskírteini vegna sýklalyfja?

Að jafnaði verða allir að greiða sýklalyf að fullu. Þó er ein mikilvæg undantekning frá þessu. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt (ekki skylt) að gefa út lyfjaskírteini vegna sýklalyfja ef um síendurteknar alvarlegar sýkingar er að ræða, þar sem meðferð þarf að standa lengi. Skírteini eru ekki gefin út fyrr en sex mánuðum eftir að meðferð hefst. Þetta er einkum mikilvægt fyrir foreldra barna með langvarandi eyrnabólgur og fyrir fólk sem fær síendurteknar þvagfærasýkingar.

Hvað eru gul lyfjakort?

Í sérstökum tilvikum eru gefin út gul lyfjakort. Þau eru sjaldgæf. Gul lyfjakort veita rétt til að fá tiltekin lyf sem annars þyrfti að greiða að fullu afgreidd gegn hlutfallsgreiðslu.

Hver er gildistími lyfjaskírteina?

Lyfjaskírteini eru gefin út til tiltekins tíma, venjulega til tveggja ára í senn.

Er hægt að fá bætur vegna mikils lyfjakostnaðar?

Þótt sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins annist að öllu jöfnu greiðslu lyfjakostnaðar þá kemur stundum til kasta annarrar deildar, lífeyristryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins, að veita fólki bætur vegna mjög mikils lyfjakostnaðar. Ekki er skylt að veita slíkar bætur, aðeins heimilt, og aðstæður metnar hverju sinni. Ef lyfjakostnaður lífeyrisþega verður mjög mikill geta þeir sótt um uppbót á lífeyri. Ef lyfjakostnaður vegna veikinda barns er mjög mikill getur læknir barnsins sent tryggingayfirlækni umsókn um bætur. Við ákvörðun slíkra bóta er m.a. tekið mið af tekjum foreldra barnsins.

Má selja lyf án lyfseðils?

Þau lyf sem heimilt er að selja án lyfseðils eru kölluð handkaupslyf eða lausasölulyf. Þau eru merkt í lyfjaskránni með „Án lyfseðils“. Oft er það magn sem selja má í einu takmarkað og er þess þá getið undir málgreininni afgreiðsla sem er neðst í lyfjaskrá hvers lyfs. Lyf sem seld eru án lyfseðils eru yfirleitt ekki greidd af Tryggingastofnun þótt læknir gefi út lyfseðil fyrir þeim.