Hvernig á tannburstinn að vera?

Tannburstinn á að vera mjúkur með mörgum þéttum hárum. Of harður bursti veldur sliti á tönnum og sárum á tannholdinu. Tannbursti með slitnum og skældum hárum hreinsar lítið sem ekkert. Nauðsynlegt er að skipta reglulega um tannbursta, s.s. á þriggja mánaða fresti.

Sérstök hjálpargögn við tannhirðu

Flestum nægir góður tannbursti, tannþráður eða tannstöngull, ásamt réttri aðferð við tannburstun, til að hreinsa tennurnar. Í sérstökum tilfellum getur þurft önnur hjálpargögn til að auðvelda tannhirðuna.

Rafmagnstannbursti

Rafmagnstannbursti getur hentað sumum betur en venjulegur tannbursti, sérstaklega þeim sem eru með skerta hreyfigetu.

Almennt er æskilegt er að nota venjulegan tannbursta ef það er mögulegt.

Til eru fjölmargar gerðir af rafmagnstannburstum, misþungar og með mismunandi hreyfingum.

Flöskubursti (interdental – bursti)

Flöskubursti er gerður úr stálpinna, þar sem burstahárin eru á öðrum endanum. Vegna lögunarinnar er hann oftast nefndur flöskubursti. Unnt er að beygja flöskubursta þannig að hann nái auðveldlega inn á þá staði sem hreinsa þarf. Til þess að auðvelda notkun eru fáanleg sérstök handföng til að setja á burstann.

Til eru tvær gerðir

 • með jöfnum hárum.
 • með hárum sem mynda odd í endann.

Burstinn er hentugur til að

 • hreinsa vel milli tannróta þar sem venjulegur tannbursti kemst ekki að.
 • hreinsa opnar raufir milli rótanna, þar sem tannholdið hefur rýrnað, þannig að hluti rótarinnar er sjáanlegur.
 • hreinsa þar sem stórt bil er á milli tanna.
Aðferð

Burstinn er færður varlega inn í opið og hreyfður fram og aftur eftir tannflötunum 5-8 sinnum. Athuga ber að bursta mjúklega til að skaða ekki rótaryfirborð eða tannhold.

Einnar tannar bursti (solo – bursti)

Einnar tannar bursti er með litlu hárhöfði sem ætlað er að bursta einn tannflöt í einu.

Hann getur auðveldað tannhreinsun

 • Meðfram tannholdsbrún.
 • Meðfram tönnunum er standa skakkt.
 • Við öftustu tönn í tanngarðinum.
 • Á innri flötum tanna.
 • Á tannholdsbrún við krónur og brýr.
 • Á föstum tannréttingartækjum.

Burstinn þarf að hafa mjúk hár til að skaða ekki tannhold eða tennur. Hann þarf að endurnýja þegar hárin fara að sundrast.

Aðferð

Burstinn er lagður að tönn, hárunum beint að tannholdsbrúninni og burstinn dreginn með mjúkum pensilhreyfingum eftir brúninni 3-5 sinnum.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is