Hvaða aukaverkanir geta lyf haft?

Hér er ekki hægt að gera grein fyrir öllum þeim aukaverkunum lyfja sem vitað er um. Reynt er að skýra frá algengustu aukaverkunum, stundum með vísbendingu um hversu algengar þær eru, og einnig aukaverkunum sem hafa mikla þýðingu jafnvel þó þær séu sjaldgæfar. Oft er erfitt að sanna að ákveðið lyf geti valdið vissri aukaverkun, einkum þegar aukaverkanirnar eru mjög sjaldgæfar. Þegar einungis er um óljósar grunsemdir að ræða er í flestum tilvikum sneitt hjá því að gera grein fyrir slíku. Vandi höfundanna hvað þetta atriði varðar felst meðal annars í því að veita heiðarlega umfjöllun um aukaverkanir lyfja án þess að hræða lesandann frá því að nota gagnlegt lyf. Í þessari útgáfu höfum við skipt aukaverkunum í algengar og sjaldgæfar.

Algengar köllum við þær aukaverkanir sem ætla má að meira en 1% þeirra sem nota lyfið verði fyrir, en aðrar aukaverkanir teljast þá sjaldgæfar. Stundum er ekkert sagt um aukaverkanir lyfs og þýðir það að ekki er að vænta neinna aukaverkana ef venjulegir skammtar eru teknir.

Algengar aukaverkanir

Yfirleitt er ekki hægt að vita fyrirfram hvort lyf hafa aukaverkanir á neytandann eða þá hverjar. Í flestum tilvikum er einungis vitað á að giska hversu algeng einhver aukaverkun er við notkun ákveðins lyfs. Þannig er venjulega sagt um tíðni aukaverkana að einhver aukaverkun sé mjög algeng, að hún sé algeng, komi fyrir, sé sjaldgæf, sé mjög sjaldgæf eða að henni hafi verið lýst. Að aukaverkun sé mjög algeng getur þýtt að a.m.k. fjórði hver einstaklingur sem tekur lyfið verði var við hana. Að aukaverkun hafi verið lýst þýðir venjulega að nokkur slík tilvik séu kunn í heiminum.

Margar aukaverkanir eru háðar skammtastærðum og þess vegna er mikilvægt að ekki séu teknir stærri skammtar en læknir hefur ráðlagt. Á umbúðum lyfja sem seld eru án lyfseðils eru prentaðar ráðleggingar um skammta og það er einnig mikilvægt að ekki séu teknir stærri skammtar en þar er tilgreint. Stærri skammtar en þeir sem ráðlagðir eru gefa yfirleitt ekki meiri eða betri verkun heldur bara fleiri aukaverkanir. Gott dæmi um þetta er þegar asperín (Magnýl o.fl.) er tekið við verkjum. Ef fullorðnir taka meira en 2 töflur (1000 mg) gefur það ekki betri verkjastillandi verkun en fæst af 2 töflum en búast má við meiri aukaverkunum. Stundum minnkar fólk skammtana sjálft af hræðslu við aukaverkanir. Þetta leiðir oft til þess að verkun lyfsins verður ófullnægjandi eða alls engin.

Mjög alvarlegar eða lífshættulegar aukaverkanir lyfja eru ákaflega sjaldgæfar. Lyf sem geta haft mjög alvarlegar aukaverkanir í för með sér eru ekki leyfð nema þau geri gagn við slæmum eða lífshættulegum sjúkdómum sem engin betri lækning er til við, t.d. hættulegum sýkingum, gigtarsjúkdómum og krabbameini.

Flestar aukaverkanir lyfja eru í rauninni hættulausar þó að þær geti valdið verulegum óþægindum. Margar þeirra hverfa af sjálfu sér þegar lyfið hefur verið tekið í nokkurn tíma. Aðrar er hægt að minnka eða losna við með einföldum ráðum.

Lyf valda oft ýmiss konar óþægindum frá meltingarfærum. Þessi óþægindi eru sjaldan alvarleg og líða oftast hjá, en stundum geta ógleði, uppköst, niðurgangur eða magaverkir verið á svo háu stigi að erfitt sé að halda lyfjameðferðinni áfram. Oft er ráðlagt að taka lyf að morgni á fastandi maga. Þetta er í sumum tilvikum æskilegt en tæpast nokkurn tíma nauðsynlegt og flest lyf má taka inn með mat. Þegar lyf eru tekin á fastandi maga er mikil hætta á að þau erti slímhúðir maga og þarma. Ef lyf eru tekin með mat blandast þau fæðunni og erta minna. Þannig er oft hægt að minnka eða losna alveg við óþægindi frá meltingarfærum með því að taka lyf með mat. Í þeim fáu tilvikum sem ekki má taka lyf með mat eða með vissum fæðutegundum er því lýst í bókinni í lesmálinu um viðkomandi lyf.

Þegar rannsóknir eru gerðar á aukaverkunum lyfja er þess vandlega gætt að tíunda allt sem sjúklingarnir kvarta um meðan á meðferðinni stendur. Ýmis algeng einkenni eins og höfuðverkur, spenna, ógleði o.fl. er því skráð sem aukaverkun nánast allra lyfja, þótt vafasamt geti verið hvort einkennin stafi af lyfinu.

Ofnæmi

Mörg lyf eru þannig að hægt er að fá ofnæmi fyrir þeim. Lyf eru oftast efni sem eru framandi fyrir líkamann og geta framkallað ofnæmissvörun hjá sumum einstaklingum. Þetta er sambærilegt við það að sumir hafa ofnæmi fyrir einhverju í umhverfinu eins og t.d. húsryki, köttum eða frjókornum. Einkenni sem fylgja lyfjaofnæmi geta verið ýmiss konar en útbrot, kláði, nefrennsli og tárarennsli eru algengust. Þessi einkenni eru óháð skömmtum lyfsins, þau geta verið væg eða svæsin og geta í einstaka tilfellum orðið hættuleg. Sá sem hefur fengið ofnæmi fyrir ákveðnu lyfi á að ræða það við lækni sinn, af því að ofnæmi sem einu sinni hefur komið fram helst venjulega mjög lengi, jafnvel áratugum saman. Einmitt þess vegna er líka mikilvægt að oftúlka ekki eitthvað sem getur verið annað en ofnæmi fyrir lyfinu því að það getur orðið til að fólk missi af bestu lyfjunum við tilteknum sjúkdómi.

Áhrif á heilann

Aðrar algengar aukaverkanir lyfja eru sljóleiki og þreyta sem stafa af áhrifum lyfsins á heilann. Slík óþægindi eru oft verst í upphafi meðferðarinnar og hverfa smám saman ef lyfið er tekið lengi. Hversu alvarlegar þessar aukaverkanir eru fer m.a. mikið eftir því hvað viðkomandi einstaklingur starfar. Verst er þetta fyrir þá sem aka bíl eða stjórna öðrum tækjum eða vélum en einnig slæmt fyrir alla sem þurfa að einbeita sér mikið. Í slíkum tilvikum er einnig mikilvægt að forðast áfengi sem getur gert þessar aukaverkanir miklu verri, jafnvel þótt neytt sé mjög lítils magns.