Hvað gerist við heilahristing?

 Inngangur

Heilinn er gerður úr mjög mjúkum og viðkvæmum vef. Hann er umlukinn heilahimnum og heilavökva sem ásamt höfuðkúpunni vernda hann. Þegar höfuðið verður fyrir áfalli eins og höggi kastast heilinn utan í harðan beinvef höfuðkúpunnar. Þetta getur valdið því að vefir í heilanum rifni eða togni og truflar það boðflutning og starfsemi í heilanum. Skaðinn verður oftast á svæðum djúpt í heilanum en er mjög mismikill eftir tilfellum. Samkvæmt því er heilahristingi skipt í þrjú stig.

þrjú stig heilahristings

Fyrsta stigs heilahristingur er mildur. Einstaklingurinn missir ekki meðvitund en gæti virst dasaður. Annars stigs heilahristingur er svolítið alvarlegri. Einstaklingurinn missir ekki meðvitund en er ruglaðir um skeið og man ekki eftir því sem gerðist. Þriðja stigs heilahristingur er alvarlegastur. Einstaklingurinn missir meðvitund í stuttan tíma og man ekki hvað hefur gerst.

Helsta orsök

Helsta orsök heilahristings er höfuðhögg við bílaárekstur, fall eða líkamsárás. Helstu einkenni eru slæmur höfuðverkur, svimi, uppköst, stækkun annars sjáaldurs, óskýr sjón eða skyndilegt máttleysi í hand- eða fótlegg. Einstaklingurinn getur reynst eirðarlaus, æstur eða pirraður. Oft er skammtímaminnið skert og er einstaklingurinn þá gleyminn og endurtekur oft sömu spurningar, einkum varðandi atburðinn sem leiddi til heilahristingsins. Þessi einkenni geta varað í nokkra klukkutíma og stundum allt upp í nokkrar vikur.

Eftirlit

Það er góð regla að fylgjast með einstaklingi sem hefur fengið höfuðhögg í sólarhring eftir að atburðurinn á sér stað. Ef hann virðist mjög ruglaður, á erfitt með gang, kastar mikið upp eða missir meðvitund á að fara með hann á slysavarðstofuna og láta lækni líta á hann. Oft er sagt að ekki megi leyfa þeim sem hefur fengið heilahristing að sofna. Þetta á einkum við ef um barn er að ræða. Ekki er hætta á ferðum þótt einstaklingur sofni ef auðvelt er að vekja hann, en ef það reynist erfitt eða ógerlegt hefur hann misst meðvitund og nauðsynlegt að koma viðkomandi strax undir læknishendur. Sumt fólk er í meiri hættu en aðrir ef það fær heilahristing. Þar er einkum átt við fólk sem er á blóðþynningarlyfjum eða er með blæðingarsjúkdóma.

Þessi grein er eftir Þuríði Þorbjarnardóttur, líffræðing og birtist á Vísindavefnum