Hvað er tóbak?

Tóbaksins gleði er líkamans ógleði

Reykingamaðurinn reykir ekki til að skaða heilsu sína – hann vill sitt níkótin. Eiginleikar nikótínsins hafa gert hafa það verkum að tóbaksnotkun hefur breiðst út um allan heim. Nikótín kætir og hressir án þess að vera sljóvgandi. Og menn ánetjast því – sem tryggir áframhaldandi tóbaksnotkun og leiðir til tóbaksfíknar. Fylgikvillar reykinga eru fjölmargir. Og margir þeirra mjög alvarlegir. Óbeinar reykingar bitna á öðrum og tvöfalt meiri hætta er á að börn sem eru mikið innan um reyk fái ofnæmi og astma. Reykingar hafa einnig talsverð áhrif á útlitið. Stundum er talað um „reykingamannahúð“, en þeir sem ánetjast láta sér það ekki fyrir brjósti brenna. Alvarlegri skaðsemi reykinga gerist hægt og bítandi og getur tekið mörg ár.

 • Reykingar minnka ævilíkurnar að meðaltali um 7 1/2 ár , þ.e.a.s. þá ævidaga sem maður er við góða heilsu.
 • Fjórði til fimmti hver reykingamaður deyr úr sjúkdómi sem rekja má beint til tóbaksnotkunar.
 • Reykingafólk fær einkum lungnakrabba, hjartaáfall eða lungnaþembu.

Nikótínið getur gert einstaka manni gott, til dæmis andlega sjúku fólki eins og geðklofum og fólki með geðhvarfasýki. Nikótínið virðist geta komið í staðinn fyrir taugaboðenda og draga ögn úr einkennunum.

Tóbak er ekki nýtt af nálinni

Eiginleikar tóbaksplöntunnar voru löngu kunnir áður en Kólumbus flutti plöntuna með sér til Evrópu frá S-Ameríku fyrir rúmum fimm öldum. Þetta var rándýrt nýnæmi, rétt eins og kaffi, og breiddist fljótlega út á meðal hinna efnameiri. Það var tollað eins og lyf og notað til kraftaverkalækninga við heilmörgum kvillum. Þegar á leið varð tóbaksneysla almenn og smám saman, þegar notkun þess sem læknislyfs minnkaði var farið að nota tóbak sem hreint nautnalyf. Tóbak er ekki bara reykt, samanber nef- og munntóbak.

Hverjir reykja?

Hlutfall reykingamanna vex eftir því sem nær dregur þéttbýli.
Einnig er beint samhengi milli reykinga og menntunar.

 • Hæsta hlutfall reykingamanna og flesta stórreykingamenn er að finna í röðum ófaglærðra manna.
 • Lægsta hlutfall reykingamanna er meðal æðri embættismanna.
 • Fólk í heilbrigðisstétt reykir mun minna en en aðrar þjóðfélagsstéttir.

Vitneskja er vörn!

Reykingar að dragast saman á Íslandi

 • Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir Tóbaksvarnanefnd árið 1999 reykja 27% Íslendinga daglega. Árið 1985 var þetta hlutfall 40%.
 • Samkvæmt tölum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins var tóbakssala rúmlega 4% minni fyrstu þrjá mánuði ársins 2000 en á sama tíma árið 1999.
 • Fjöldi Íslendinga hefur sótt hin ýmsu reykbindindisnámskeið sem í boði eru. Sjá nánar: reyklaus.is
 • Meira hefur dregið úr reykingum karla en kvenna (Hagvangur, 1997).
  Sjá: Konur og reykingar.

Hvernig áhrif hefur nikótín ?

 • Níkótín hefur bein áhrif á heilann, það er örvandi og bætir einbeitinguna en er jafnframt róandi.Engin furða er að tóbak njóti almannahylli því áhrif nikótínsins falla að hegðun okkar. Koffín sem er í te og kaffi er örvandi en því fylgir eirðarleysi. Flestir kannast við skjálftann sem fylgir of mikilli kaffidrykkju. Efni sem hafa róandi áhrif eru oftast sljóvgandi líka.
 • Níkótín er mjög vanabindandi – bæði andlega og líkamlega. Það binst svo kyrfilega við níkótín-móttökustöðvar heilans að jafnast á við fíkniefni.

Auk þess hefur níkótínið áhrif á hjarta- og æðakerfið. Níkótin eykur lausn svokallaðra kaletkolamína, m.a. adrenalíns. Áhrifin eru þessi:

 • smáæðarnar dragast saman og hjartslátturinn verður ögn hraðari
 • blóðþrýsingurinn eykst
 • níkótín breytir líka fituinnihaldi blóðsins og eykur magasýrurnar.

Nánari fróðleik um tóbak er að finna í heimildasafni um tóbak.

Hvaða efni eru í venjulegri sígarettu?

Í tóbaki eru fleiri en 3800 mismunandi efnasambönd en aðeins lítill hluti þeirra hefur verið rannsakaður nákvæmlega. Hluti þessara efna, eða um það bil 400 efni, hafa beinlínis skaðleg áhrif á heilsuna. Tóbaksreykur er gerður úr mörgum litlum ögnum og nokkrum gastegundum.

Níkótín – vanabindandi, dregur saman æðarnar og hefur m.a. áhrif á heilann.
Kolsýringur og blásýra – minni súrefnisbinding í blóðinu. Þess vegna reykja íþróttamenn ekki
Tjara – bindur heilmörg krabbameinsvaldandi efni.
Upplausnarefni – m.a. formaldehíð. Hefur bein niðurbrjótandi áhrif á lungnavefinn. Það er ein orsök langvinns lungnakvefs.
Ofnæmisvaldandi efni – t.d. formaldehíð og hídrasín. Hættan á að fá ofnæmi eða astma tvöfaldast – líka með óbeinum reykingum.
Krabbameinsvaldandi efni – m.a. bensen, hídrasín, nítrósamín, þefjandi amínar, benspírin. Í reyknum eru líka nítratgös sem sjálf eru skaðleg og menn telja að þau umbreytist í nítrit og nítrat í lungunum.

Sum efni myndast fyrst við sjálfan brunann. Brennsluhitinn ræðst af því hvort menn sjúga að sér eða ekki og því er efnainnihald tóbaksreyksins mismunandi:

 • aðalreyksúlan er sá reykur sem reykingamaðurinn dregur ofan í lungun
 • aukareyksúlan stígur beint upp af sígarettunni meðan ekki er verið að sjúga að sér – það er reykur þeirra sem reykja óbeint.

Reykurinn sem reykingamaðurinn dregur ofan í sig er því öðruvísi en reykurinn sem börnin hans anda að sér.

 

Áhrif reykinga á ævilíkur

 

 

Margar og miklar rannsóknir hafa verið gerðar sem taka af allan vafa um að reykingar stytti ævina um nokkur ár. Í rannsókn á breskum læknum var fylgst með 40.000 læknum í 35 ár og niðurstaðan varð sú að reykingamenn í þeim hópi lifðu að meðaltali 7 1/2 ári skemur en hinir. Fimmtugur einstaklingur sem gefur reykingar upp á bátinn tvöfaldar möguleika sína á að lifa 15 árum lengur.

Hvað eru óbeinar reykingar?

Óbeinar reykingar er það kallað ef reyklaus maður andar að sér reyk frá öðrum. Nauðugur eða viljandi. Fyrir utan að margir, og reykingamenn þar með taldir, kvarta yfir óþægindum ef þeir eru neyddir til að reykja óbeint, eykur það einnig hættuna á ýmsum sjúkdómum, þótt aukningin sé lítil samanborið við þá sem eru alveg reyklausir. Núorðið er litið á reykingar á vinnustað sem umhverfisvandamál.

 • Börnin líða mest. Ekki eru til nein lög sem vernda börnin í þessu tilliti, hér ræður aðeins tillitssemi foreldra og annarra.

Reykingar og heilsa

 • Almennri heilsu svo sem líkamshreysti, bragð- og lyktarskyni hrakar.
 • Þreytu, slen og höfuðverk má iðulega rekja til reykinga. Heilbrigt líferni er til bóta.
 • Reykingar breyta líka útlitinu. Húð reykingamanna verður grófari en húð þess sem ekki reykir.
 • Reykingar geta auk þess stuðlað að magasári og fleiri sjúkdómum.

Reykingar og sjúkdómar sem tengjast þeim

Hinir eiginlegu sjúkdómar eru faraldssjúkdómar en samhengi þeirra er flókið. En hvað sem öðru líður eru reykingar aðalsjúkdómsvaldurinn í hinum vestræna heimi, og við því má sporna. Sjúkdómarnir herja einnig á aðra en reykingamenn en í minna mæli og þá eru þeir vægari. Helstu banvænu sjúkdómarnir sem reykingar valda eru:

 • Lungnakrabbamein
  – 85% af krabbameini í lungum er beinlínis af völdum reykinga
 • Langvinn lungnateppa (berkjubólga,lungnaþemba, reykingalungu)
  – 80% er án vafa reykingum að kenna
 • Hjartaáfall – um það bil 30 % eru beinlínis af völdum tóbaks.

Áhættan við reykingar

Að auki eru reykingar áhættuþáttur á öðrum sviðum og við því er hægt að bregðast:

 • reykingar breyta samsetningu nokkurra efna í blóðinu. Þær auka t.a.m. magn kólesteróls í blóðinu.
 • blóðstorknunarhæfnin breytist líka og reykingar auka hættuna á blóðtappa
 • hár blóðþrýstingur
 • beinþynning
 • fjölmargt fleira má týna til.Sjá greinar á Doktor.is: Reykingar: góð ráð til að hætta.

Börnin bíða líka tjón

Reykingar koma niður á öðrum sem ekki reykja. Ekki síst börnum, ófæddum eða fæddum.

 • Hættan á að fá astma og lungnakvef er tvöfalt meiri hjá börnum sem þurfa að þola óbeinar reykingar .
 • Það er einnig meiri hætta á að fá ofnæmissjúkdóma sem sífellt breiðist út í hinum vestræna heimi.
 • Það fylgir því mikil áhætta að reykja á meðgöngu. Sjá nánar: Reykingar á meðgöngu – áhrif reykinga á fóstur.

Ráðstafanir sem hægt er að grípa til !

Áhættan ræðst af magni skaðlegra efna. Skaðsemin vex í réttu hlutfalli við reykmagnið. Því er strax bót að reykja minna.

 • Greinilegt er hvernig húðin frískast þótt ekki sé nema eftir fimm mánaða reykbindindi.
 • Ef reykingum er hætt fyrir 35 ára aldur geta lungun hreinsað sig að verulegu leyti, og tíu árum eftir að reykingum er hætt er hættan á að fá lungnakrabba, lungnakvef og blóðtappa í hjarta ekki meiri en hjá þeim sem aldrei hafa reykt.

Það er aldrei of seint að hætta!

Reyklaus.is

Krabbameinsfélagið

Beinvernd