Hvað er ófrjósemi?

Par, sem stundar reglulegt, óvarið kynlíf, er sagt þjást af ófrjósemi eftir að hafa reynt að eignast barn í eitt ár án árangurs. Flestir telja að almennt sé rétt að láta þetta eina ár líða áður en parið leitar til læknis út af ófrjósemi. Þó á þessi þumalputtaregla alls ekki alltaf við. Ef konan er orðin 35 ára eða eldri, eða ef hún er með óreglulegan tíðahring er skynsamlegt að leita til læknis eftir um hálft ár. Einnig er rétt að leita læknis sem fyrst ef parið hefur einhverja ástæðu til að ætla að frjósemi þess sé skert.

Óráðlegt er að draga það að leita læknis þegar svona háttar til. Flestir sem berjast við ófrjósemi naga sig í handarbökin vegna þess að þeir áttuðu sig ekki nægilega snemma á því að leita til læknis, heldur héldu of lengi í vonina um að kraftaverkið gerðist. Ekki er sama hvert er leitað. Best er að parið leiti saman til sérfræðings í ófrjósemi. Þeir eru tveir hérlendis, Guðmundur Arason og Þórður Óskarsson

Hver eru fyrstu skrefin?
Þegar leitað er til læknis vegna ófrjósemi er reglan sú að ávallt á að byrja á að senda karlmanninn í sæðispróf. Það er einfalt í framkvæmd, tekur skamman tíma og getur sparað pörum mikinn tíma og fjármuni að þessi rannsókn sé framkvæmd strax, áður en konan er send í flóknar rannsóknir, látin á lyf eða jafnvel í aðgerðir. Hið sama á við jafnvel þótt karlmaðurinn hafi feðrað börn áður. Dæmi eru þess að læknar sem hafa fengið pör í frjósemisvanda til sín dragi þessa einföldu rannsókn úr hömlu (jafnvel í 1-2 ár) sem þýðir að dýrmætum tíma er sóað þar sem frjósemin minnkar með hækkandi aldri. Ef þannig háttar til er skynsamlegt að skipta strax um lækni. Sama á við ef konan er sett í miklar rannsóknir, svo sem kviðarholsspeglun, sterka lyfjameðferð (t.d. með frjósemislyfi) án þess að karlmaðurinn sé fyrst sendur í sæðisrannsókn.

Ef rannsóknir, svo sem blóðprufur, sæðisrannsókn, sónarskoðanir, kviðarholsspeglun eða aðrar rannsóknir leiða í ljós vandamál sem hamla frjósemi parsins er best að leita strax til lækna ART Medica.

Ófrjósemi – Eyðan í hjartanu
Á Íslandi eins og annars staðar er fjölskyldan hornsteinn samfélagsins. Allir þekkja pressuna sem er á ungu fólki um að finna sér maka, giftast og eignast börn í fyllingu tímans. Flestir standa undir þessum þrýstingi og eignast fjölskyldu og heimili. Því miður eru ekki allir svo heppnir að geta látið þennan draum rætast. Um 10-15% para á barneignaaldri á við ófrjósemi að stríða og veruleikinn sem við þeim blasir er oft á tíðum erfið þrautaganga vonar og vonbrigða í hverjum mánuði. Eftir árs barneignatilraunir panta flestir sér tíma hjá lækni þar sem versti grunur parsins er staðfestur. Í kjölfarið fara flestir á biðlista fyrir glasafrjóvgun, en biðin eftir að komast að er að jafnaði í kringum eitt ár. Mikilvægt er að reyna að njóta þess tíma sem biðin varir eftir mætti og reyna að koma auga á jákvæðar hliðar þess að vera barnlaus. Annars getur biðtíminn reynst erfiður.

Áfallið
Ófrjósemi hefur í för með sér gríðarlegt andlegt álag. Rannsóknir sýna að andlega álagið sem fylgir ófrjósemi er svipað því sem fylgir því að vera greindur með krabbamein. Flestir þeir sem greinast með krabbamein njóta skilnings og stuðnings fólksins í kringum sig vegna veikinda sinna en annað virðist oft á tíðum vera uppi á teningnum hjá þeim sem stríða við ófrjósemi. Skilningur á vandanum er mjög takmarkaður, bæði úti í samfélaginu og í heilbrigðiskerfinu. Baráttan við fordóma og skilningsleysi er daglegt brauð. Flestir sem standa í þessum sporum treysta sér því ekki til að segja öðrum frá því að þeir eigi við ófrjósemi að stríða og bera harm sinn í hljóði. Það er sorglegt, því rannsóknir sýna að með stuðningi vina og ættingja minnkar andlega álagið sem ófrjóseminni fylgir og líkurnar á árangri aukast.

Um Tilveru og baráttumál félagsins

Tilvera, samtök gegn ófrjósemi eru samtök okkar, sem berjumst við ófrjósemi. Baráttumál og hugsjónir félagsmanna eru margþætt. Meðal þeirra eru eftirfarandi:

  • Við viljum sjá að lögum um tæknifrjóvgun (lög nr. 55 frá 1996) sé framfylgt þannig að fólk sem þarf á tæknifrjóvgunum að halda fái faglega ráðgjöf sérfræðinga (félagsráðgjafa eða sálfræðings) samkvæmt 2. grein. Tæknifrjóvgunarmeðferð er mjög krefjandi og erfið andlega jafnt sem líkamlega.
  • Við viljum sjá sanngjarna gjaldskrá á ART Medica, sem mismunar ekki sjúklingum hennar eins og er í dag.
  • Við viljum fá viðurkenningu á rétti okkar sem sjúklinga og fá afsláttarkort eins og aðrir sjúklingar sem þurfa að greiða háar fjárhæðir til heilbrigðiskerfisins.
  • Við viljum opna umræðuna um ófrjósemi á Íslandi sem hefur verið afskaplega lítil og auka skilning almennings á þessu vandamáli. Síðastliðið ár (2005-2006) var þó stórt skref stigið þar sem tveir sjónvarpsþættir helgaðir ófrjósemi voru sýndir á Skjá einum. Þá hefur Vikan birt 7-8 greinar tengdar ófrjósemi og frekari umræða er á döfinni.
  • Við höfum sett upp heimasíðu til að auka fræðslu um ófrjósemi, en nánast ekkert íslenskt fræðsluefni um ófrjósemi var aðgengilegt almenningi áður en heimasíða Tilveru var sett upp.

Nokkur ráð og ábendingar til þeirra sem kljást við ófrjósemi í dag:

  • Allir sem berjast við ófrjósemi eru velkomnir á heimasíðu Tilveru, sem er stuðningsnet okkar sem eigum við þetta vandamál að stríða. Á heimasíðunni er að finna spjallborð þar sem hægt er að ræða við aðra í sömu sporum. Þar hjálpum við hvert öðru, gefum góð ráð og deilum gleði og sorgum.
  • Allir sem undirgangast meðferðir á ART Medica, geta sótt um frádrátt frá skatti í skattframtali sínu vegna óvenju mikils heilbrigðiskostnaðar. Hægt er að fá vottorð frá ART Medica til að sýna fram á kostnaðinn á undangengnu ári. Sjálfsagt er að leggja einnig fram aðrar kvittanir vegna læknisheimsókna og lyfjakostnaðar.
  • Allir sem þurfa að leggja á sig ferðalög vegna meðferða á ART Medica eiga rétt á því að fá hluta hans endurgreiddan. Upplýsingar um málið er hægt að fá hjá ART Medica og hjá Tryggingastofnun ríkisins.
  • Þeir sem ekki hafa aðgang að húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en þurfa að gista þar vegna meðferða geta fengið inni á Rauða kross hótelinu gegn vægu gjaldi eins og aðrir sjúklingar sem þurfa að leggjast í ferðalög vegna sjúkdómsmeðferða.
  • Allir sem eru í launaðri vinnu og fara í tæknifrjóvgunarmeðferðir, geta sótt um styrk frá stéttarfélagi sínu til að fjármagna hluta kostnaðarins. Kynnið ykkur reglur ykkar stéttarfélags um málið. Ef engar reglur eru um þetta atriði, og þótt enginn hafi sótt um slíkan styrk áður er samt sjálfsagt að sækja um styrk. Á heimasíðu Tilveru er að finna nýlegan lista yfir stéttarfélög sem veita styrki vegna tæknifrjóvgana. Athugið þó að verið getur að greiða þurfi skatt af styrkfjárhæðinni.

Að lokum langar okkur að óska ykkur, sem standið í þessum sporum velfarnaðar. Við óskum ykkur alls góðs í ykkar baráttu.

Hólmfríður Gestsdóttir – Formaður Tilveru 1999 til 2003, varamaður 2003-2004

Elín Einarsdóttir – meðstjórnandi 2004-2005, varaformaður 2005-2006,