Hvað er lífsleikni?

Hugtakinu lífsleikni er ætlað að vísa til enska heitisins „life skills“. Á ensku er gjarnan talað um „life skills education“ Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir lífsleikni þannig:

Lífsleikni er geta til að laga sig að mismunandi aðstæðum og breyta á jákvæðan hátt. Sú geta gerir okkur kleift að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs (Life Skills Education in Schools, WHO 1997).

Hugmyndafræði WHO um lífsleikni byggir m.a. á kenningu Bandura um félagslegt nám. Kenningin grundvallast á því sem við vitum um það hvernig börn og unglingar læra af fólki sem er í kringum það, með því að fylgjast með hvernig aðrir hegða sér og hvaða afleiðingar hegðun hefur. Í félagsnámskenningunni er nám talið vera virk öflun, úrvinnsla og uppbygging reynslu. Það er þessi áhersla á virka úrvinnslu einstaklingsins á raunveruleikanum sem er kjarninn í hugmyndafræði líflsleiknikennslu þar sem notast er við virkar, nemendamiðaðar kennsluaðferðir.

Samkvæmt WHO er ákveðinn kjarni færniþátta sem nauðsynlegt er að kenna eða þjálfa. Þessir kjarnaþættir eru: Að taka ákvarðanir, að leysa mál, skapandi hugsun, gagnrýn hugsun, góð tjáskipti, góð samskiptahæfni, sjálfsvitund, hæfileiki til að sýna samhygð, takast á við tilfinningar, takast á við álag og streitu.

Nánari skilgreiningar á kjarnaþáttum færni í lífsleikni:

Að taka ákvörðun felur í sér að vinna á uppbyggilegan hátt að ákvörðunum sem skipta máli í eigin lífi. Ákvarðanir sem börn, unglingar og fullorðnir taka geta sett mark sitt á allt líf þeirra.

Að leysa mál er færni sem hjálpar okkur að vinna á uppbyggilegan hátt að lausn vandamála í eigin lífi. Vandamál sem ekki er gefinn gaumur eða tekið er á geta valdið andlegri og líkamlegri streitu.

Skapandi hugsun skiptir miklu máli fyrir bæði ákvarðanatöku og lausn vandamála með því að auðvelda okkur að kanna valmöguleika og afleiðingar af gerðum okkar eða aðgerðaleysi. Skapandi hugsun hjálpar okkur að líta lengra en reynsla okkar nær, og jafnvel þó að ekki sé um vandamál að ræða sem þarf að leysa eða ákvörðanatöku, getur skapandi hugsun hjálpað okkur að bregðast á sveigjanlegan hátt við ýmsum aðstæðum í daglegu lífi og laga okkur að þeim.

Gagnrýnin hugsun er hlutlæg greining á upplýsingum og reynslu. Hún vegur og metur forsendur skoðana, hugmynda og viðhorfa og leitar að traustum rökum. Hún hjálpar okkur að koma auga á og skilja ýmis öfl sem hafa áhrif á hugsun okkar og reynslu.

Góð tjáskipti þýða að við getum tjáð okkur, með orðum og án orða miðað við kringumstæður hverju sinni. Til dæmis að geta tjáð langanir okkar og skoðanir eða þá að biðja um ráð þegar þess gerist þörf.

Góð samskipti fela í sér að komast í gott samband við þá sem við þurfum að eiga samskipti við. Það er mjög mikilvægt fyrir andlega og félagslega vellíðan að geta stofnað til og viðhaldið vinsamlegum tengslum við aðra. Það skiptir einnig máli að geta bundið endi á tengsl við aðra á uppbyggilegan hátt.

Sjálfsvitund felur í sér að viðurkenna sjálfan sig, persónuleika, styrkleika og veikleika, það sem maður vill og vill ekki. Þróun sjálfsvitundar getur hjálpað við að greina þegar við erum undir álagi eða þrýstingi. Sjálfsvitund er líka forsenda góðra tjáskipta og tengsla við aðra og þess að geta sýnt samhygð.

Samhygð er hæfileiki til að ímynda sér hvernig líf annarrar manneskju er, jafnvel við framandi kringumstæður. Samhygð getur hjálpað við að taka öðrum sem eru ólíkir okkur og bætt þannig félagsleg samskipti, til dæmis þegar um er að ræða ólíkar þjóðir. Samhygð styrkir umhyggju fyrir velferð annarra og umburðarlyndi, t.d. gagnvart þeim sem eru minni máttar eða eiga við erfiða sjúkdóma að stríða.

Að takast á við tilfinningar felur í sér að viðurkenna eigin tilfinningar og annarra, gera sér grein fyrir hvaða áhrif tilfinningar hafa á hegðun og vera fær um að bregðast við tilfinningum á viðeigandi hátt. Sterkar tilfinningar eins og reiði eða hryggð geta haft neikvæð áhrif á líðan okkar ef ekki er brugðist við þeim á réttan hátt.

Að takast á við álag og streitu felur í sér að þekkja streituvalda í lífi okkar og hvernig þeir hafa áhrif á okkur. Það auðveldar hegðun sem gerir okkur kleift að hafa stjórn á streitustigi okkar sem þýðir að við bregðumst við til að draga úr streituvöldum, til dæmis með því að breyta umhverfi okkar eða lífsstíl. Eða lærum að slaka á svo að spenna sem skapast vegna óhjákvæmilegrar streitu orsaki ekki vanlíðan.

Þetta hugmyndafræðilega líkan sýnir hvernig færniþættir lífsleikni tengjast þekkingu, viðhorfum og gildum og jákvæðri hegðun sem byggt er á, og eru þannig liður í að fyrirbyggja hegðun sem hefur neikvæð áhrif.

Líkan: Þekking tengd færni (sem er fyrir hendi eða hefur nýlega verið þjálfuð), sem aftur er tengt ákveðnum viðhorfum og nýjum eða styrktum jákæðum viðhorfum geta í sameiningu stuðlað að jákvæðri félagsleg ri hegðun og komið í veg fyrir vanda.

Lífsleikni gerir okkur kleift að yfirfæra þekkingu – það sem við vitum – og viðhorf og gildismat – það sem okkur finnst, við álítum eða trúum – yfir í viðbrögð í formi raunverulegrar getu – eða hvað skal gera og hvernig.

Það ber hins vegar að leggja áherslu á að lífsleikni er ekki hegðun í sjálfu sér, heldur eru færniþættir lífsleikninnar geta til að hegða sér á ákveðinn hátt innan þess svigrúms sem félagslegar og menningarlegar takmarkanir setja einstaklingnum.

Undir ofangreinda grunn- eða kjarnaþætti má telja ýmsa aðra færni sem gæti talist mikilvægt að þjálfa í fari eða lífi nemenda allt eftir aðstæðum og skilyrðum á hverjum stað. Þó verður að gera greinarmun á því hvort verið er að kenna/þjálfa eiginleika (viðhorf og gildi) annars vegar eða færni hins vegar en eiginleika má þjálfa með því að kenna færniþætti. Dæmi: Sjálfstraust og þolinmæði eru eiginleikar sem má styrkja með því að þjálfa sjálfsvitund annars vegar og samhygð hins vegar.

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla 1999, á námsgreinin lífsleikni að efla alhliða þroska nemandans. Það felur m.a. í sér að hann rækti með sér andleg verðmæti, líkamlegt heilbrigði og sálrænan styrk. Að hann efli félagsþroska sinn, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Auk þess er greninni ætlað að styrkja áræði, frumkvæði, eðlislæga sköpunargáfu og aðlögunarhæfni nemandans til að takast á við áskoranir og kröfur í daglegu lífi (bls. 6). Kjarni námsgreinarinnar er annar af tveimur flokkum sem kallast sjálfsþekking, samskipti, sköpun og lífsstíll. Hann felur í sér markmið mannræktar og sjálfsþekkingar og markmið sem stuðla eiga að frumkvæði, sjálfstæðri, skapandi og gagnrýninni hugsun, samskiptafærni, aðlögunarhæfni og siðviti til að taka ákvarðanir í síbreytilegum veruleika.

Skólinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki við að veita börnum þekkingu og búa þau undir að verða ábyrgir og umhyggjusamir einstaklingar. Þetta er viðurkennt af allflestum. Til að ná settu marki á þessum sviðum þarf að beina athyglinni að lífsleikni (félagslegri og tilfinningalegri færni) og menntun af alúð og með samfelldum og kerfisbundnum hætti. Efling lífsleikni er lykilþáttur í því að hjálpa ungu fólki til að forðast fíkniefni, ofbeldi, ótímabært kynlíf og aðra neikvæða hegðun (Elias o.fl. 1997).

Heimildir Aðalnámskrá grunnskóla 1999, lífsleikni.

Elias, M. J. o.fl. (1997). Social and Emotional Learning. Guidelines for Educators. Association for Supervision snd Curriculum Development. Alexandria, Virginia.

Weisen, R. B. o.fl. (1997) Life Skills Education in Schools, Introduction And Guidelines to Facilitate the Development and Implementation of Life Skills Programmes.WHO/MNH/PSF/93.7a. Rev 2. Programme on Mental Health World Health Organization. Geneva.