Hvað er HVP ?

Hvað er HPV-smit? 

Kemur það mér við?
 Hvað er HPV- smit?
 HPV-veiran getur valdið kynfæravörtum og krabbameini
 Forvörn er mikilvæg gegn alvarlegum afleiðingum HPV- veirunnar
 Hvernig er leghálssýni tekið?
 Hvar er leghálssýni tekið?

HPV-veira (Human Papilloma Virus)
HPV er veirusýking sem getur borist á milli fólks og valdið kynfærasjúkdómum.
Veiran hefur marga stofna og yfir 100 undirflokka. Sumir þeirra valda vörtum á
kynfærum, öðru nafni Condyloma, en aðrir flokkar veirunnar geta leitt til þróunar
leghálskrabbameins. Hvernig berst HPV- smit?

 

 

Veiran berst í flestum tilfellum á milli fólks við samfarir um leggöng. Smit getur einnig borist við munn- og endaþarmsmök og ekki er hægt að útiloka smit með beinni snertingu. Langflestir smitast af HPV- veiru án þess að vita af því eða fá einkenni og líkaminn vinnur sjálfur bug á sýkingunni.

 

 

Kynfæravörtur og krabbamein

Talið er að um 80% kvenna smitist einhvern tímann af HPV og um 45-50% stúlkna yngri 25 ára hafi
veiruna í sér. Í 92% tilfella myndar ónæmiskerfi líkamans mótefni sem eyðir veirunni á næstu 18
mánuðum eftir smit. Hægt er að greina nýlegt smit með því að taka strok frá leghálsi konu eða
getnaðarlim karlmanns. Það er sjaldan gert því það þjónar litlum hagnýtum tilgangi.

Ákveðnar tegundir HPV geta valdið kynfæravörtum hjá konum og körlum. Aðrar geta valdið
leghálskrabbameini og enn aðrar geta valdið krabbameini á skapabörmum, í leggöngum, á
getnaðarlim, í hálsi og öndunarvegi. Vitað er að HPV- veirur, sem smitast við samfarir, eru forsendur
fyrir myndun frumubreytinga á leghálsi og eru þá ákveðnir stofnar algengari en aðrir. Leggja ber
áherslu á að HPV- smit er mjög algengt og er undantekning að það leiði til leghálskrabbameins.

Kynfæravörtur
Kynfæravörtur, öðru nafni Condyloma er kynsjúkdómur og orsakast af HPV.
Einkennin eru ljósbleikar eða húðlitaðar vörtur á og eða við kynfæri og
endaþarmsop. Þær geta líka borist í munn, kok og stundum jafnvel á raddbönd og
þá oftast við munnmök. Venjulega er yfirborð vartanna líkt blómkáli sem vex í
klösum. Vörturnar geta líka verið óljósari svo sem flatar eða hrufóttar og fylgir
oftast bólgin húð og kláði. Hjá konum er oft erfitt að uppgötva vörturnar ef þær eru í leggöngum eða á
leghálsi. Vörturnar geta birst vikum eða mánuðum eftir kynferðislegt samneyti við sýktan einstakling
eða jafnvel verið einkennalausar. Ef vörturnar eru ómeðhöndlaðar geta þær horfið, haldist óbreyttar
eða breiðst út.

 

Rannsóknir hafa staðfest að mikill fjöldi karlmanna er sýktur af HPV- veirunni. Á
göngudeild húð og kynsjúkdóma, greindust um 260 karlar með kynfæravörtur árið
2007 samkvæmt upplýsingum frá þeim. Mikil aukning er á kynfæravörtusmiti,
bæði hjá konum og körlum, þegar skapabarmar eða svæði umhverfis kynfæri eru
rökuð. Ástæða þess er að við rakstur verður oft rof í húð sem auðveldar veirusmit.
Umhugsunarvert er að tíðni kynfæravarta fer vaxandi í aldurshópnum 15-18 ára.

Leghálskrabbamein
Talið er að HPV- smit sé alltaf undanfari leghálskrabbmeins. En veirusmit þarf ekki að leiða til
leghálskrabbameins. Talið er að fleiri samhliða þættir auki hættu á að fá leghálskrabbamein og hafa
reykingar og önnur kynsjúkdómasmit t.d klamydia ásamt fjölda rekkjunauta verið nefnd í því
sambandi. Þó þarf reyndar ekki nema einn rekkjunaut til að smitast.
Einkenni leghálskrabbameins koma fyrst fram þegar meinið er komið á nokkuð hátt stig. Hins vegar er
hægt að greina forstig þessa krabbameins sem eru frumubreytingar og bregðast við þeim og koma
þannig í veg fyrir myndun krabbameinsins. Þess vegna er mikilvægt að konur komi á tveggja ára fresti
í leghálsskoðun og þéttar ef þær eru í eftirliti vegna frumubreytinga.

Forvörn gegn alvarlegum afleiðingum HPV- veirunnar – Frumustrok
Eins og áður hefur komið fram er HPV- smit algengast meðal yngri kvenna. Þess vegna er mikilvægt
fyrir konur sem hafa byrjað kynlíf að koma í leghásskoðun frá 20 ára aldri.
Með frumustroki frá leghálsi er unnt að finna þær konur sem eru í hættu að fá leghálskrabbamein eða
hafa sjúkdóminn &aacute ; algeru byrjunarstigi (hulinstigi). Sannað er að leghálskrabbamein byrjar með
vægum forstigsbreytingum sem þróast síðan í misalvarlegar forstigsbreytingar og að lokum í
krabbamein. Þegar litið er á heiminn allan er leghálskrabbamein annað algengasta krabbamein kvenna.
Það er langalgengast meðal kvenna í þróunarlöndum og þar sem fátækt er mikil. Það er þó staðreynd
að tíðni HPV- veirusýkinga er að aukast meðal yngri kvenna á Vesturlöndum. Það er dýrmæt og
mikilvæg forvörn fólgin í því að ungar konur mæti reglulega í krabbameinsleit svo unnt sé að greina
forstigsbreytingar og meðhöndla áður en krabbamein myndast. Reglubundin leghálsskoðun er
heilsuvernd sem skiptir afar miklu máli. Skipuleg leit að leghálskrabbameini á Íslandi á undanförnum
áratugum hefur borið mjög góðan árangur þannig að tíðni leghálskrabbameins hefur lækkað um 68%
og dánartíðni um 87%.
Hvernig er leghálssýni tekið?
Tekið er yfirborðsstrok frá leghálsinum með bursta og spaða, læknir tekur sýnið í
kvenskoðun og hjúkrunarfræðingur er einnig viðstaddur skoðunina. Skoðunin tekur
stutta stund og er sársaukalaus.
Hvar er leghálssýni tekið?
• Á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík. Sími: 540 1900
• Hjá kvensjúkdómalæknum og á heilsugæslustöðvum.
Höfundar eru: hjúkrunarfræðingar á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.
Grein eftir: Ásdísi Káradóttur og Sigríði Þorsteinsdóttur