Hvað er heilsuhagfræði?

Hagfræði er vísindagrein sem fjallar um leiðir til ráðstafana á takmörkuðum auðlindum samfélaga. Fræðigreinin skiptist í margar undirgreinar og tengjast viðfangsefnin t.d. náttúruauðlindum, peningamarkaði og vinnumarkaði. Heilsuhagfræði fjallar um ýmsa þætti er varða heilsu og “heilsuframleiðslu.” Grunnspurningar hagfræðinnar—hvað skal framleiða, í hvaða magni, fyrir hvern og af hverjum—eru ekki síður mikilvægar varðandi heilsu en annað.

 

Heilsa er meðal annars framleidd með heilbrigðisþjónustu og er sú þjónusta skoðuð mikið meðal heilsuhagfræðinga. Þess er almennt krafist að heilbrigðisþjónusta sé ekki bara árangursrík, heldur að virði þess sem fáist fyrir þau verðmæti sem varið er til hennar séu hámörkuð. Þess vegna er heilsuhagfræði mikilvæg við ákvarðanatöku í heilbrigðisgeiranum. Þar má t.d. nefna rannsóknir á fjármögnun heilbrigðiskerfisins og heilbrigðistrygginga, rannsóknir á eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu, markaðsaðstæðum og markaðsbrestum er varða þessa þjónustu, hagkvæmasta magni bólusetninga fyrir samfélagið, muninum á einkareknum og ríkisreknum heilbrigðiskerfum, stærðarhagkvæmni sjúkrahúsa, áhrifum breyttrar aldurssamsetningar þjóða á heilbrigðisútgjöld og margt fleira.

 

Heilsu framleiðum við þó ekki einungis með hefðbundinni helbrigðisþjónustu. Þess vegna skoða heilsuhagfræðingar einnig aðra þætti á borð við samfélagslega áhrifavalda heilbrigðis. Um þessar mundir beinist mikið af rannsóknum heilsuhagfræðinga að offitu, orsökum hennar og afleiðingum, t.d. á vinnumarkað. Ýmis áhættuhegðun hefur einnig verið heilsuhagfræðingum hugleikin í gegnum tíðina. Mikilvægt er t.d. við forvarnir að kunna því góð skil hvernig einstaklingar bregðast við breyttum hvötum í umhverfi sínu og hvaða inngrip breyta hegðun einstaklina mest og minnst. Dæmin eru fjölmörg er varða t.d. neyslu fíkniefnna. Einnig má nefna mikla umræðu meðal heilsuhagfræðinga í Bandaríkjunum um áhrif fóstureyðinga á ýmsa þætti samfélagsins, s.s. ungbarnadauða og glæpi.

 

Það væri langur listi að telja hér upp öll þau svið sem heilsuhagfræðingar fást við, enda eru margir þættir sem varða heilsu. Mismunandi aðgerðir sem hafa ólíkan kostnað í för með sér geta leitt til sömu niðurstöðu. Heilsuhagfræðingar gera talsvert af mælingum á ávinningi úrbótaleiða í samhengi við kostnað viðkomandi leiða. Þá er algengt að mæla hvaða kostnað aðgerðir hafa í för með sér fyrir hvert viðbótarlífár sjúklingsins.

 

Heilsuhagfræði er ung grein á Íslandi og hefur almennt fengið litla umfjöllun í íslensku samfélagi. Þetta hefur meðal annars verið vegna þess að sérfræðinga hefur vantað tilfinnanlega í fagið. Einhver aukning verður þó vonandi þar á, enda er nú hægt er að læra heilsuhagfræði til Mastersgráðu við Háskóla Íslands. Það er einnig nýjung á haustinu 2006 að almennustu námskeið námsins eru áhugasömum aðgengileg í gegnum Endurmenntun Háskóla Íslands.

 

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir,

Heilsuhagfræðingur