Hvað er beinþynning?

Alþjóðlegi Beinverndardagurinn

Alþjóðlegi Beinverndardagurinn er haldinn ár hvert. Markmið dagsins er að vekja athygli á þeim þáttum sem geta stuðlað að beinþynningu og um leið að undirstrika þá þætti sem geta komið í veg fyrir sjúkdóminn síðar á ævinni, því bein gisna með aldrinum, bæði hjá konum og körlum.

Hvað er beinþynning?

Bein eru lifandi vefur sem byggir styrk sinn að stórum hluta á kalki. Beinin byrja að myndast strax á fósturskeiði en ná fullum vexti um 25 ára aldur og eru í stöðugri endurnýjun.

Við beinþynningu verður rýrnun á beinvef og styrkur beina minnkar, beinin verða stökk og hætta á brotum við minnsta átak eykst. Beinþynning er algengust í hryggjarliðum, lærleggshálsi og beinum í framhandlegg og upphandlegg. Beinþynning er alvarlegt heilsufarsvandamál hér á landi eins og víða annars staðar og fer vaxandi með auknum fjölda aldraðra.

Léleg bein eru ástæða beinbrota hjá 1200 Íslendingum á ári hverju. Í flestum tilvikum má koma í veg fyrir beinþynningu og beinbrot af völdum hennar með fyrirbyggjandi aðgerðum. Með beinþéttimælingu geta einstaklingar fengið vitneskju um þéttleika beina og hvort viðkomandi sé með beinþynningu. Hægt er að fá slíka mælingu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi.

Allir, bæði konur og karlar, eiga á hættu að verða fyrir afleiðingum beinþynningar síðar á ævinni svo að hver og einn þarf að huga að vernd beina sinna allt frá barnæsku.

Áhættuþættir

Beinþynning gengur í erfðir. Það er staðreynd að þriðja hver kona á Íslandi og áttundi hver karlmaður eiga á hættu að fá beinþynningu einhvern tímann á ævinni.

Ef móðir eða faðir hafa fengið beinþynningu eru miklar líkur á því að afkomendur fái sjúkdóminn. Meðal annarra þátta sem stuðla að beinþynningu má nefna:

  • Aldur
  • Líkamsþyngd –smábeinóttar konur eru í meiri hættu en aðrir
  • Hreyfingarleysi
  • Reykingar
  • Óhófleg neysla kaffidrykkja og áfengis

Að auki má nefna að aðrir sjúkdómar og lyf geta haft áhrif á kalkbúskap líkamans og á þynningu beina.

Forvarnir

Mikilvægt er að huga að beinheilsu strax á unga aldri og þar skiptir hollt mataræði miklu máli. Mælt er með kalkríku fæði og nægjanlegu D – vítamíni. Flestar mjólkurvörur innihalda mikið kalk og D-vítamín fæst meðal annars úr lýsi og hvers konar fiskmeti auk þess sem húðin myndar D-vítamín fyrir tilstuðlan sólarljóss.

Regluleg hreyfing eykur jafnvægi, stuðlar að sterkum beinum og minnkar líkur á byltum. Síðast en ekki síst er best að forðast reykingar og neyta áfengis í hófi.

Beinvernd

Beinvernd eru landssamtök áhugafólks um beinþynningu, jafnt leikra sem lærðra. Samtökin voru stofnuð 12. mars 1997 í Reykjavík.

Markmið Beinverndar er fjórþætt:

  • Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli.
  • Að standa að fræðslu meðal almennings og heilbrigðisstétta á þeirri þekkingu sem á hverjum tíma er fyrir hendi um beinþynningu og varnir gegn henni.
  • Að stuðla að auknum rannsóknum á eðli, orsökum og afleiðingum beinþynningar og forvörnum gegn henni.
  • Að eiga samskipti við erlend félög á svipuðum grundvelli.

Stofnandi Beinverndar er Ólafur Ólafsson, fv. landlæknir,  formaður er dr. Björn Guðbjörnsson, læknir og verndari félagsins er Ingibjörg Pálmadóttir fv. heilbrigðisráðherra. Stjórn Beinverndar skipa átta manns  auk tveggja varamanna.

Nánari upplýsingar má finna á beinvernd.is