Hugum að jafnvægi í lífinu

Kulnun í starfi gerist ekki eingöngu hjá eldri starfsmönnum. Samkvæmt könnun sem gerð var í nóvember í fyrra og greint er frá í bandaríska læknatímaritinu Scientific American Mind hefur þriðjungur starfsmanna á aldrinum 25 til 39 ára fundið fyrir kulnun í starfi.

Langvinn streita getur haft alvarlegar líkamlegar afleiðingar; blóðþrýstingur hækkar, aukin hætta er á hjartasjúkdómum og ónæmiskerfið veikist. Mikilvægt er að huga að jafnvægi milli vinnu og einkalífs snemma á ferlinum. Kulnun er andleg og líkamleg ofþreyta sem rekja má til álags í starfi, segir í greininni Burned Out í nýlegu riti Scientific American Mind. Iðulega eru það þeir starfsmenn sem taka á sig æ meiri ábyrgð og líta á starfið sem mikilvægan þátt í því hverjir þeir eru sem veikjast.

Viðhorfsbreytingu þarf til

Meiri vinna, meira álag, minni svefn og óreglulegra líf eru ástæður kulnunar. Því minni áhrif sem einstaklingar hafa yfir því hvernig og hvenær starfið er unnið er einnig áhættuþáttur. Að lokum er fólk komið í vítahring; vegna þreytu annar það ekki starfinu, einbeitingin er horfin og það leggur æ meira á sig til að halda í horfinu. Hollur matur og hreyfing heyra sögunni til og samverustundum með fjölskyldu og vinum fækkar. Smátt og smátt tæmast rafhlöðurnar og viðkomandi getur ekki meir.

Góð ráð um að slaka á og njóta lífsins hafa ekkert að segja fyrir þennan einstakling. Hann á ekki líf fyrir utan vinnuna. Eina ráðið er að breyta viðhorfinu, segja sérfræðingar sem rætt er við í greininni. Þeir þættir sem komu starfsmanninum á toppinn í vinnunni eru einmitt þeir eðlisþættir sem hann þarf að losa sig við. Það getur tekið tíma og þolinmæði.

Við verðum öll að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs og tryggja að við eigum okkar persónulega líf utan vinnunnar. Og svo þetta sem allir þekkja; farðu varlega með líkamann og passaðu að borða heilsusamlegan mat á matmálstímum, stunda hóflega hreyfingu og fá góðan nætursvefn. Það er mikilvægt, segja sérfræðingarnir, að huga að þessu jafnvægi snemma á ferlinum, en ekki bíða þar til það er orðið of seint.

 

Þessi grein birtist á vef VR – Virðing réttlæti  www.vr.is