Hugtakið tilfinningagreind

Fá hugtök sálarfræðinnar hafa vakið eins mikinn áhuga hjá almenningi og hugtakið tilfinningagreind. Kemur margt til. Orðið tilfinning vekur mismunandi viðbrögð, enginn efast um að maðurinn hafi tilfinningar en menn hefur lengi greint á um hvaða hlutverki þær gegni og hversu mikilvægar þær eru. Sama má segja um hugtakið greind sem hefur löngum verið tengt við vitsmunalega hæfileika, skýra hugsun, skynsemi og rök. Hugtakinu greind fylgir oftar en ekki ákveðið mat á hæfileikum manna og umræða um greind og mælingar á henni vekja oft tilfinningaleg viðbrögð. Það má því segja að orðið tilfinningagreind sé sett saman úr tveimur orðum sem ýta við fólki og vekja mismunandi viðbrögð. Margir telja mikilvægi tilfinninga gömul sannindi, heilbrigða skynsemi, og benda á að það hafi aldrei leynt sér að maður sem er hálærður á bókina geti verið algjör rati í mannlegum samskiptum. Það fari heldur ekki alltaf saman að vera góður í fræðunum og geta miðlað kunnáttu sinni til annarra, né að ganga vel í skóla og starfi síðar meir. Það er einkum bók Daníels Goleman (1995) Emotional Intelligence: Why it Can Matter More Than IQ sem hefur vakið þennan almenna áhuga. Hún kom út í íslenskri þýðingu árið 2000 og ber heitið Tilfinningagreind: Hvers vegna er tilfinningagreind mikilvægari en greindarvísitala? Titill bókarinnar og umræður um þá fullyrðingu sem hann felur í sér hafa vakið tilfinningaleg viðbrögð hjá þeim sem vilja halda fast í hina hefðbundu skilgreiningu á greind sem vitsmunalegt fyrirbæri.

Goleman, sem er sálfræðingur og blaðamaður, byggir umfjöllun sína á rannsóknum annarra fræðimanna, bæði sálfræðinga og taugalífeðlisfræðinga. Hann túlkar niðurstöður sumra þeirra á dramatískan hátt og fullyrðir gjarnan meira en margir þeirra telja sig geta staðið við. Vinsældir bókarinnar hafa talsvert skyggt á fræðimennina sem fyrstir settu fram hugtakið tilfinningagreind í kjölfar rannsókna sinna en það voru þeir John Mayer prófessor í sálarfræði við New Hampshire háskólann og Peter Salovay prófessor í sálarfræði viðYale háskóla. Það er því ekki úr vegi að leita í smiðju til þeirra og fá þeirra sýn á hugtakið tilfinningagreind. Mayer er, ásamt fleirum, ritstjóri að bókinni Emotional Intelligence in Everyday Life: A Scientific Inquiry sem kom út 2001. Í fyrsta kafla bókarinnar sem hann ritar og ber heitið leiðsögn um vettvang tilfinnningagreindar gerir hann grein fyrir þróun rannsókna á þessu sviði og leggur áherslu á mikilvægi þess að menn átti sig á að til eru mismunandi skilgreiningar á tilfinningagreind. Taflan sem hér fylgir er stuttur útdráttur af umfjöllun Mayers um þróun rannsókna á þessu sviði frá aldamótum til dagsins í dag (Ciarochi, Forgas, Mayer. 2001, bls. 5-6).

1900-1969
Greind og tilfinningar eru aðskilin, þröng svið
Greindarrannsóknir: Athygli beindist að greindarmælinum og þróun greindarprófa. Rannsóknir á tilfinningum: Í brennidepli var spurningin hvort kæmi á undan lífleðlisfræðileg viðbrögð eða sjálf tilfinningin. Margir litu á tilfinningar sem menningarbundið fyrirbæri, að mestu afsprengi sjúkdómafræði og sem einstaklingsbundið og óeðlilegt næmi. Í þróun greindaprófanna var áhersla fyrst og fremst lögð á málfærni. Nokkrir sálfræðingar reyndu að skilgreina félagsgreindgsl milli tilfinningar og hugsunar. Hugtakið tilfinningagreind en það féll ekki í frjóan jarðveg því litið var á greindgsl milli tilfinningar og hugsunar. Hugtakið tilfinningagreind sem vitsmunalegt fyrirbæri.
1970-1989
Undanfarar
Rannsóknir á hugarstarfi og tilfinningalífi þróaðar til að kanna á hvern hátt tilfinningar hefðu áhrif á hugsun. Fram komu ýmsar kenningar um áhrif tilfinninga, m.a. var talið að dapurt fólk kynni að vera raunsærra og nákvæmara en aðrir og að geðsveiflur ýttu undir sköpunargáfu. Rannsóknir á tjáskiptum án orða þróuðust, m.a. á tjáningu tilfinninga með sviðbrigðum og látbragði. Í rannsóknum á gervigreind milli tilfinningar og hugsunar. Hugtakið tilfinningagreindveltu menn fyrir sér hvernig tölvur gætu skilið og ályktað um tilfinningalega þætti í sögum. Í kenningu sinni um fjölgreindir milli tilfinningar og hugsunar. Hugtakið tilfinningagreind skilgreindi Gardner sjálfsþekkingargreind sem felur m.a. í sér hæfileika til að skynja og tákngera tilfinningar. Raunvísindalegar rannsóknir á félagsgreind milli tilfinningar og hugsunar. Hugtakið tilfinningagreind leiddu í ljós að hún skiptist í félagslega færni, samhygð, jákvæð félagsleg viðhorf, félagslegan kvíða og tilfinningasemi. Í heilarannsóknum var farið að aðgreina tengsl milli tilfinningar og hugsunar. Hugtakið tilfinningagreind kom stöku sinnum fram.
1990-1993
„Fæðing“ tilfinningagreindar
Mayer og Salovay gáfu út röð rannsóknargreina þar sem þeir settu formlega fram kenningu um tilfinningagreind. Samtímis renndu niðurstöður heilarannsókna styrkari stoðum undir þá kenningu.
1994-1997
Útbreiðsla og vinsældir meðal almennings
Metsölubók Golemans um tilfinningagreind vakti miklar umræður. Fjöldi persónuleikaprófa var gefinn út undir nafninu tilfinningagreind.
1998-
Rannsóknir á tilfinningagreind. Farið að hagnýta kenninguna í stofnunum, s.s. í skólum og hjá fyrirtækjum
Fræðilegar umbætur á hugtakinu tilfinningagreind og nýjar aðferðir þróaðar til að mæla það. Fræðigreinar sem eru ritrýndar af öðrum fræðimönnum birtast í ritum og bókum.

Skilgreining Mayers og Salovays á tilfinningagreind er svohljóðandi:

Tilfinningagreind vísar til hæfni í að viðurkenna tilfinningar og tengsl þeirra og til að byggja rökhugsun og lausnaleit á þeim grunni. Tilfinningagreind felur í sér hæfni til að skynja tilfinningar, samlaga þær, skilja upplýsingar sem þær veita og hafa stjórn á þeim (sama rit, bls. 9).

Golemann bætir við þessa skilgreiningu og í hans meðförum felur tilfinningagreind í sér fimm atriði: að þekkja eigin tilfinnningar… að hafa stjórn á tilfinningum…að hvetja sjálfan sig… að þekkja tilfinningar annarra…að vera fær í samskiptum (Goleman 1995, bls. xii). Skilgreining Golemans er víðari og felur í sér aðra eiginleika en tilfinningar, þ.e. áhugahvöt og félagsleg samskipti. Reuven Bar-On sem einnig hefur rannsakað tilfinningagreind skilgreinir hana á líkan hátt og Goleman:

Tilfinningagreind er fylking af hæfileikum, færni og getu sem er ekki vitsmunaleg en hefur áhrif á hæfni einstaklingsins til að takast á farsælan hátt á við kröfur og þrýsting frá umhverfinu (Reuven Bar-On, 1997). Þannig þróuðust tvenns konar skilgreiningar: a) sú upprunalega um greind sem snertir tilfinningar og afmarkaða hæfni og b) blönduð nálgun sem tengir greind tilfinninga við aðra færni og eiginleika eins og vellíðan, áhugahvöt og samskiptafærni (Ciarochi, Forgas, Mayer. 2001, bls. 9).

Þótt rannsakendur á sviði tilfinninga hafi gagnrýnt Goleman fyrir að túlka frjálslega niðurstöður rannsókna þeirra draga þeir ekki í efa að skrif hans hafi haft gífurleg áhrif á viðhorf manna og umræður um mikilvægi tilfinninga. Oft hefur reynst nauðsynlegt að ögra og vekja sterk viðbrögð til að vekja fólk til umhugsunar. Í vestrænni menningu er sterk hefð fyrir því að líta á tilfinningar og greind sem aðskilin fyrirbæri, jafnvel andstæð eins og orð Bertrands Russell breska heimspekingsins bera vitni um:

„Það eru aðeins gáfurnar sem vernda geðheilsu mína. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að ég tek greindina fram yfir tilfinningar.“

Þessi hefð hefur verið ríkjandi í skólakerfinu og almennum samskiptum manna og hún á sér djúpar rætur. Enn setja margir jafnaðarmerki milli tilfinninga og gönuhlaups (láttu ekki tilfinningarnar hlaupa með þig í gönur) og ætla þeim jafnvel bústað í hjartanu þar sem vitsmunirnir ráði ríkjum í heilanum. En hvað skyldi Halldór Laxnes hafa átt við þegar hann lýsir móður sinni með eftirfarandi orðum? Hafði hann hugboð um að til væri tilfinningagreind?

„Hún var með öllu laus við tilfinningasemi, líklega af því hvað hún var mikil tilfinningamanneskja…“ (Í túninu heima, bls. 99)

En nú er öldin önnur og 21. öldin hefur af mörgum verið kölluð öld heilans þar sem tækni til að rannsaka mannsheilann hefur fleygt óðfluga fram. Þótt ótal margt sé enn á huldu um þetta stórkostlega líffæri ber að nýta þá vitneskju sem þegar er komin fram og hefur verið staðfest (sannað sig). Tilfinningar og vitsmunir eiga bæði samastað í heilanum, hafa helgað sér sín svæði og vinna náið saman. Lítið líffæri í randkerfi heilans, möndlungurinn, er miðstöð tilfinningahugans. Möndlingurinn er sérhæfður í tilfinningamálum, geymir tilfinningalegar minningar og ástríður. Hann gerir kleift að greina persónulega merkingu daglegra atburða, sem ýmist vekja ánægju, umhyggju, spennu eða reiði. Tilfinningarnar byggja ekki aðeins á randkerfinu (möndlungnum) heldur einnig á nýberkinum – sérstaklega ennisblöðunum sem eru á bak við ennið. Þessi hluti tilfinningahugans er fær um að endurmeta aðstæður og takast á við þær á árangursríkan hátt. Hann starfar eins og stjórnstöð sem áætlar og skipuleggur aðgerðir til að ná settu marki. Allar upplýsingar til heilans fara í gegnum möndlunginn þar sem tilfinningalegt gildi þeirra er greint áður en þær eru sendar til heilabarkarins til meðhöndlunar. Möndlungurinn og nýbörkurinn virðast vera fullkomnir samherjar, hinn vökuli vörður sem varar við hættu og hinn yfirvegaði skipulagssnillingur sem velur hvað er skynsamlegast að gera. Hraði og áreiti nútímalífs virðist þó oft rjúfa þessa samvinnu, t.d. þegar menn gefa sér ekki tíma til að leyfa möndlungnum að senda skilaboð áfram til úrvinnslu heldur láta frumstæð viðbrögð möndlungsins – að hrökkva eða stökkva – ráða og hnefinn fer á loft áður en hugsun fær að komast að og meta hvað sé rétt viðbragð.

Áhrif tilfinninga á nám og starf

Hefðbundinn aðskilnaður tilfinnninga og starfsemi hugans hafði í för með sér skólakerfi sem átti fyrst og fremst að sinna fræðslu. En börn geta ekki skilið tilfinningar sínar eftir fyrir utan skólann fremur en líkama sinn. Þroskað fólk veit að vellíðan hefur áhrif á nám og starf. Í vellíðan felst að hafa jákvæða sjálfsvitund sem byggist á samspili þess hvernig einstaklingur metur sjálfan sig, hvernig hann skynjar sig, hvernig hann vill vera og hvernig hann telur að aðrir meti hann. Sjálfsvitundin, jákvæð eða neikvæð, hefur síðan áhrif á gæði þeirra samskipta sem einstaklingur á við aðra. Mótun persónuleikans felst, ásamt líffræðilegum þát tum, í reynslu af samskiptum við aðra, margvíslegum áhrifum samfélagsins og meðvitaðri og ómeðvitaðri merkingu sem einstaklingur skynjar og nemur úr umhverfi sínu. Það er því ekki af engu sem margir þeirra sem hafa tileinkað sér fjölgreindakenningu Howards Gardner telja að sjálfsþekkingargreind og samskiptagreind séu mikilvægustu greindir mannsins, en jafnframt þær sem við höfum vanrækt mest. Í þessu samhengi má nánast setja jafnaðarmerki milli þeirra og skilgreiningar Golemans á tilfinningagreind.

Upplýsingasamfélag nútímans kallar á breytt viðhorf til þekkingar og færni. Atvinnurekendur leita eftir starfsfólki sem býr yfir sjálfsöryggi, frumkvæði og samskiptafærni. Þekking gefur sérfræðingum, stjórnendum í fyrirtækjum og kennurum í skólum ekki lengur sama vald og áður og nú eru gerðar kröfur til þeirra um hæfni í mannlegum samskiptum. Goleman skrifaði aðra bók 1998, Working with Emotional Intelligence, þar sem hann fjallar um hvernig þjálfa megi starfsmenn og stjórnendur til að þeir geti betur uppfyllt þessar kröfur. Hann setti einnig á fót stofnun, ásamt Eileen Rockefeller Grönvald, The Collaborative to Advance Social and Emotional Learning (CASEL) til að efla og þróa félags- og tilfinningatengt nám í skólum á öllum skólastigum (www.CASEL.org)

Sérfræðingar og rannsakendur á sviði kennslufræði sem byggist á heilarannsóknum halda því fram að tilfinningar séu kveikja og orkugjafi náms. Undanfarna tvo til þrjá áratugi hefur átt sér stað ör þróun og framleiðsla á námsviðfangsefnum undir heitinu lífsleikni þar sem markmiðið er að styrkja félags- og tilfinningatengda hæfni nemenda. Rannsóknir á tilfinningum og tilfinningagreind hafa gefið þessari námsgrein nýtt vægi og fært vísindaleg rök fyrir mikilvægi hennar. Eitt af hlutverkum CASEL er að meta gæði námsefnis á þessu sviði og leiðbeina kennurum og skólastjórnendum um hvernig megi standa að verki. Eitt af því námsefni sem hátt er metið er svokallað Lions Quest efni sem hefur staðið íslenskum grunnskólum til boða frá 1990 undir heitinu Að ná tökum á tilverunni (Ciarochi, Forgas, Mayer. 2002, bls.137). Í lífsleikniefni af þessum toga er lögð áhersla á að kenna nemendum að hlusta á aðra, að tjá sig skýrt og skilmerkilega, að greina og skilja tilfinningar, hafa stjórn á þeim, að taka ákvarðanir, meta kosti þeirra og galla og greina afleiðingar. Afar mikilvægur þáttur í þjálfun barna í þessari færni er að foreldrar, kennarar og aðrir fullorðnir sem skipta máli í lífi þeirra séu góðar fyrirmyndir. Ef hlustað er á börn eiga þau auðveldara með að læra að hlusta á aðra, ef tilfinningar þeirra eru viðurkenndar og rætt um þær, læra þau að skilja eigin tilfinningar og annarra.

Erna sem er þriggja ára er bæði þreytt og svöng þegar pabbi hennar sækir hana í leikskólann. Á leiðinni heim koma þau við í búð til að kaupa í matinn. Í búðinni hefur þess verið gætt að hafa úrval af sælgæti í augnhæð barna og Erna sér strax eitt og annað sem hana langar í og fer að háöskra þegar pabbi hennar segir: “NEI! Hættu þessari frekju – það er ekki nammidagur í dag.”

Góð fyrirmynd hefði sagt: “Ég veit að þú ert þreytt og svöng og þig langar í eitthvað gott. Við skulum flýta okkur heim svo ég geti gefið þér að borða.”

Nonni er að klæða sig og mamma hans er orðin stressuð því hún er að verða of sein í vinnuna: “Ertu ekki kominn í skóna ennþá! Þú ert alltaf að gaufa og gera mig seina…”

Góð fyrirmynd: “Þú átt bara eftir að fara í skóna og þá erum við til.”

Það eru í raun engin ný sannindi að börn sem búa yfir tilfinningahæfni, sem hafa stjórn á eigin tilfinningum og bregðast rétt við tilfinningum annarra hafi forskot á mörgum sviðum lífsins, hvort sem um er að ræða fjölskyldu- eða jafningjatengsl, skólann, íþróttir eða annað sem þau sækjast eftir í samfélaingu. Hins vegar hafa komið fram ný sannindi um hvernig megi stuðala að því að fleiri börn öðlist þessa hæfni. Í skólum hefur lengi verið kennt um ýmsa líkamsstarfsemi, s.s. meltingarkerfið og blóðrásina, en fram til þessa hefur ekki verið kennt markvisst um starfsemi hugans sem er þó einmitt sú starfsemi sem við getum haft mótandi áhrif og stjórnun á. Hvað felst í því að vera maður og hvernig verður maður meira maður í þeirri merkingu sem Páll Skúlason heimspekingur leggur í menntun.

„Að menntast er þá að verða meira maður – ekki meiri maður – í þeim skilningi að þær gáfur eða þeir eiginleikar sem gera manninn mennskan fái notið sín, vaxi og dafni eðlilega.“ (Pælingar,bls. 305)

Heimildir

Bar-On, R. 1997. The Emotional Quotient Inventory: Technical Manual. Toronto: Multi Healh System.
Ciarochi, Joseph, Joseph P. Forgas, John D. Mayer ritstj. 2001. Emotional Intelligence in Everyday Life. Philadelphia: Psychology Press.
Goleman, D. 1995. Emotional Intelligence: Why it can matter more than IQ? London: Bloomsbury Publishing.
Goleman, D. 1998. Working with Emotional Intelligence. New York: Bantam Books. Halldór Laxnes. 1975. Í túninu heima. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Páll Skúlason. 1987. Pælingar. Reykjavík: ERGO sf.