Hugleiðingar um fæðinguna

Að fá slökunarnudd á mjaðmir, spjaldhrygg, mjóbak, axlir, hnakka og gagnaugu, eða jafnvel alls staðar, finnst sumum konum notalegt. Þetta á þó ekki við um allar konur. Sumar vilja ekki láta koma nálægt sér, ekki snerta sig, ekki láta tala við sig, ekkert, þær vilja fá að vera í friði með öllu. Samt vilja þær hafa einhvern hjá sér, en sá má ekki láta á sér kræla, má helst ekki hreyfa sig, hvað þá hósta, hnerra eða snýta sér! Það er ekki alltaf auðvelt að gera fæðandi konu til hæfis og stundum erfitt fyrir aðstandanda að taka því en við þessu er ekkert að gera. Hins vegar er það mikilvægur þáttur í góðri fæðingaraðstoð að virða tilfinningaþrungin viðbrögð fæðandi konu. Hún er að vinna stórbrotið og flókið verk, sem ekkert má trufla. Einbeitingin tekur hana að fullu og öllu í fang sér bæði andlega og líkamlega og leggur undir sig krafta hennar og orku alla. Í mörgum tilvikum getur hún hvorki skilið neitt annað eða sinnt neinu öðru á meðan.

Í lok þessara hugleiðinga minna um að finna til vil ég draga saman í stuttu máli það sem ég hef verið að reyna að segja. Hreyfðu þig í fæðingunni ef það hentar þér, eða kúrðu sem fastast í rúminu þínu ef þér finnst það betra. Dansaðu ef það hentar þér, segðu ekki orð ef það hentar þér, eða talaðu stanslaust ef þig langar til þó þú fáir engin svör. Vertu eins og þú sjálf vilt, það gilda engar reglur nema eitthvað komi upp sem réttlætir það að aðrir skipti sér af því hvernig þú vilt hafa það.Vertu á fjórum fótum ef það hentar þér, á hliðinni eða hangandi á einhverjum ef það hentar þér. Hlustaðu á slökunartal eða tónlist ef það hentar þér, rokk eða sinfóníu, hvað sem er. Dansaðu og taktu lagið, syngdu uppáhaldssönginn þinn, notaðu öndunina, þindaröndun, maga-, yfirborðs- eða hraðöndun! Allt sem þú getur gert til þess að þér líði betur, allt sem þér finnst gott og gilt er leyfilegt. Ef þú ert svöng, fáðu þá eitthvað að borða, þó þú sért ekki þyrst drekktu samt eitthvað sem þér finnst gott! Njóttu þess að láta dekra við þig, ef ekki núna, þá hvenær? Ég bara spyr!

Sjáðu hvað þú getur gert til þess að láta þér líða betur og mundu að það virkar allt á fæðinguna. Gangi þér svakalega vel og eitt enn: Þó ég leggi áherslu á að konur eigi að fæða á eigin forsendum, kemur það sannarlega ekki alltaf af sjálfu sér. Það þarf að tala saman, skoða, skeggræða og íhuga, skoða inn á við! Það er deginum ljósara að þrátt fyrir góðan ásetning geta fyrirfram ákveðnar hugmyndir og ákvarðanir um fæðinguna og átökin sem henni fylgja farið lönd og leið, geta hreinlega rokið út í veður og vind, þannig að sú sem ætlaði að dansa með stæl liggur sem fastast í rúminu og lætur ekki mjaka sér til eins eða neins, hvað sem hver segir. Sú sem ætlaði að syngja kemur ekki upp hljóði, sú sem ætlaði að fæða standandi með spegil á gólfinu, liggur í hnipri í rúminu og harðneitar að hreyfa sig og sú sem ætlaði að fæða á fjórum fótum fæðir í lokin í yndislegri fósturstellingu, og enginn fær því breytt. Mundu að þú ert prinsessan, þú ert drottningin, þú ert sú sem ræður, meðan það er ekki út í hött. Ef svo fer, ber þér að hlusta á það sem við þig er sagt og þér er ráðlagt.

Notaðu tímann vel. Notaðu allt sem þér getur dottið í hug til þess að láta þér líða betur og njóttu fæðingarinnar sem mest og best. Notaðu það sem ég hef sagt og það sem þér hefur dottið í hug og reyndu með öllum tiltækum ráðum að losa þig við óöryggið. Óöryggi skapar spennu, vanlíðan og óþægindi. Að búast við sársauka framkallar sársauka. Að slaka á, ná tökum á sjálfri sér, vera sátt við sjálfa sig, er góð vörn gegn kvíða, spennu og sársauka. Konur eru fæddar til að fæða börn og hafa gert það í þúsundir ára, frá örófi alda. Ekki efast um það eitt augnablik að einnig þú ert svo sannarlega fær um að ganga með barn, fæða barn og ala upp barn. Það er innbyggt!

Úr bókinni Upphafið