Hugleiðing sjúkraþjálfara um MS

Þegar ég útskrifaðist fyrir allmörgum árum sem sjúkraþjálfari taldi ég mig hafa góða fræðilega undirstöðuþekkingu og þó nokkra verklega þjálfun til að takast á við þetta nýja hlutverk. Ekki vantaði mig áhuga og vilja til að leggja mitt af mörkum til áframhaldandi þekkingar og þroska. Þegar á fyrsta ári í starfi fóru að renna á mig tvær grímur. Hvernig gat staðið á því að sjúklingar með, að því er virtist, sömu sjúkdómseinkenni (sömu greiningu) brugðust svo mismunandi við meðferðinni? Stundum gekk allt eins og eftir bókinni. Sjúklingurinn losnaði við einkennið sem hafði hrjáð hann/hana og mér fannst ég bara nokkuð vel lukkuð sem sjúkraþjálfari. En stundum gekk hvorki né rak. Einkennið sat sem fastast og versnaði jafnvel í meðferðinni og ég fór að efast um færni mína í starfi. Mér var stundum óskiljanlegt hvers vegna ég gat hjálpað einum en öðrum ekki. Stundum hvarf einkennið meira að segja án þess að mér fyndist ég hafa gert neitt! Var allt sem sýndist? Ég veit að ég er ekki ein um þessa reynslu en við tölum ekki mikið um þennan þátt í starfi okkar, það er óskilgreinda eða ósýnilega þáttinn.

Sjúkraþjálfarar hafa yfirleitt góða fræðilega þekkingu á líkamanum og starfsemi hans. Hlutverk okkar snýst meðal annars um að meta ástand líkamsbyggingar, vöðva, liðbanda og liðamóta. Geta greint ákveðin stoðkerfiseinkenni og kunna leiðir til úrbóta. En hvað með líkamsímynd og vitund, hugsanir og skilning. Hver er afstaðan til sjúkdóma og heilsu?

Er minnkaður sveigjanleiki í hreyfingu vandamál af „mekanískum” toga eða getur það verið merki um minnkaða getu til að vera sveigjanleg/ur í öðru samhengi, til dæmis í samskiptum. Er hokið bak merki um slappa vöðva, leti, lélega líkamsvitund, áhyggjur, sorg eða hvað? Snýst vandamálið um læsingu í liðamótum eð læsingu í lífinu? Eða hvort tveggja og er samspil þar á milli? Það er ekki alltaf nóg að losa um annan liðinn ef hinn situr áfram fastur.

Er einkennið skammvinnt eða langvinnt og hvers eðlis? Ég tel reyndar að ein af hindrunum okkar í starfi sé sú að við erum iðulega að meðhöndla langvinna verki og vandamál eins og um skammvinn einkenni af augljósum toga sé að ræða. Einkenni getur átt sér mismunandi orsakir. Til dæmis geta verkir í herðum eða baki verið afleiðing af líkamlegu ofálagi í eitt eða fleiri skipti, misræmi í líkamsbyggingu og vöðvastyrk og/eða tilfinningalegu álagi, áhyggjum og streitu. Það er afgerandi fyrir meðferðina að geta greint orsök og eðli vandamálsins.

Hvað og hvernig skoða ég? Hvaða þekkingarramma miða ég við? Að hverju er ég að leita og hvernig túlka ég það sem ég finn? Getur verið að ég sjái ekki skóginn fyrir trjánum? Sé ég manneskjuna bak við einkennið og hvernig mæti ég henni? Er ég reiðubúin/n til að hlusta, líka á það ósagða? Það er mikilvægt að geta sýnt persónulegan, einlægan áhuga og umhyggjusemi fyrir vandamálum sjúklings, án þess að gera þau að sínum eigin vandamálum. Rannsóknir á samskiptum lækna og sjúklinga sem gerðar hafa verið á síðustu árum benda eindregið til mikilvægi þess að sjúklingur og reyndar báðir aðilar séu ánægðir með samskiptin. Það sem virðist mikilvægt fyrir sjúklinginn er fyrst og fremst að finna að læknirinn geti sýnt einlægan skilning og umhyggju, ekki aðeins sem vísindamaður heldur ekki hvað síst sem manneskja. Stundum er þetta kallað að hafa „læknandi viðmót.”

Ég geri ráð fyrir að margir, ef ekki flestir, líti á sjúkraþjálfara sem aðila sem getur lagað og helst „fjarlægt” stoðkerfisvandamál og sem betur fer getum við það oft. En við erum iðulega að vinna á mörkum efnis og anda og sjúkraþjálfarar hafa einstakt tækifæri og möguleika til að vinna heildrænt vegna hinnar miklu nálægðar og snertingar sem meðferðin krefst. Að hreyfa líkamann er líka að hreyfa við manneskju. Líkaminn geymir alla reynslu og oft koma upp hugsanir og minningar hjá sjúklingnum, sem í meðferðinni birtast sem tilfinningaflæði og þörf fyrir að tala. Sjúkraþjálfarinn verður oft trúnaðarmaður sjúklings. Þetta er hluti of starfi okkar hvort sem við viljum eða ekki og við þurfum að vera meðvituð um það og efla þekkingu okkar og faglega færni á þessu sviði.

Það er ekki síður hlutverk okkar og fagleg skylda að upplýsa og fræða til að geta hjálpað sjúklingi að finna og skilja samhengi andlegrar og líkamlegrar líðan. Það getur gefið viðkomandi einstaklingi betri möguleika á að skilja einkennið, hætta að hræðast það og jafnvel finna sér leiðir til að hindra eða minnka það varanlega. Þannig getum við opnað leið og veitt einstaklingi stuðning til aukins þroska og skilning á sjálfum sér og öðrum.Jú, ég hef þurft að spyrja margra spurninga í starfi mínu sem sjúkraþjálfari og vissulega oft séð að ekki var allt sem sýndist í fyrstu. Ég hef líka sannfærst betur og betur um að það ósýnilega í starfinu má gera miklu sýnilegra og meðvitaðra. Það er ekki síður nauðsynlegt að hlúa að og beina rannsóknum að þessum hluta starfsins heldur en þeim raunvísindalega. Manneskjan er flókin samsetning efnis og anda og til að skilningur okkar á henni geti orðið heilsteyptur þarf hann að vera grundaður á þessu tvennu í einu.

Verum minnug þess að Hippokrates (ca. 460-375 f.Kr.), faðir læknislistarinnar, lagði áherslu á samspil líkama, sálar og umhverfis og taldi að hlutverk læknis væri að hlúa að hinum læknandi krafti sem sérhver manneskja býr yfir. Þar sem meðferðinni var beint að manneskjunni en ekki sjúkdómnum, varð læknirinn að skoða alla manneskjuna, ekki aðeins sjúka hlutann. Hann mælti með að læknirinn aflaði sér upplýsinga um bakgrunn sjúklingsins, 1íf hans, foreldra og aðra ættingja, starf, skapgerð og sérkenni. Ennfremur venjur sjúklingsins, lífsstíl og athafnir, samtöl hans, hegðun og hugsanir. Hvernig hann tjáir sig, hvernig hann sefur, hvenær og um hvað hann dreymir. Þegar þessir þættir eru ljósir ásamt einkennunum getum við samkvæmt Hippokratesi myndað okkur skoðun.

Birt með góðfúslegu leyfi MS félagsins, vefur þeirra er msfelag.is