Hringja og hnoða

Skyndidauði er oftast skilgreindur sem óvænt dauðsfall sem verður innan klukkustundar frá upphafi einkenna. Nákvæmar tölur um tíðni skyndidauða á Íslandi liggja ekki fyrir en líklegt er að fjöldi þeirra sem deyr skyndidauða utan sjúkrahúss sé milli 120 og 140 á ári. Ef við bætist sá fjöldi sem deyr skyndidauða vegna hjartastopps á sjúkrastofnunum má gera ráð fyrir að þessi tala nái um eða yfir 200 manns á ári. Þetta er sambærilegt við tölur frá nágrannalöndunum.

 

Hjá fullorðnu fólki er hjartastopp orsök skyndidauða í 4/5 tilfella en aðrar orsakir eins og slys eða sjálfsvíg geta einnig átt hlut að máli. Með hjartastoppi er átt við það þegar einstaklingur hnígur niður, er meðvitundarlaus, svarar ekki áreiti og er hvorki með púls eða fullnægjandi blóðþrýsting. Langoftast eru alvarlegar hjartsláttartruflanir frá sleglum (neðri hólfum hjartans) orsök hjartastopps hjá fullorðnum. Þessar hjartsláttartruflanir tengjast stundum bráðri kransæðastíflu en geta einnig sést hjá þeim sem hafa fyrri sögu um slíkt og koma þá jafnvel fram mörgum árum seinna. Sjaldgæfara er að alvarlegar taktruflanir frá sleglum sjáist hjá þeim sem hafa eðlilegt hjarta þótt slíkt geti komið fyrir.

 

Ferill þessara takttruflana er gjarnan sá að uppúr eðlilegum takti byrjar skyndilega svokallaður sleglahraðtaktur sem breytist oft innan fárra mínútna í illvíga takttruflun sem kallast sleglatif. Á því stigi missir sjúlingurinn undantekningalaust meðvitund en hugsanlegt er þó að slíkt hafi gerst fyrr í ferlinu. Mögulegt er að bregðast við þessum taktruflunun með rafstuði og stundum lyfjagjöf. Það er hinsvegar aðeins gerlegt eftir að sjúklingurinn er komin inn á sjúkrahús eða í hendurnar á sérþjálfuðum sjúkra-flutningsmönnum. Sleglatif er mjög orkufrekur taktur og innan fárra mínútna eru orkubirgðir hjartans uppurnar. Það leiðir síðan til svokallaðarar rafleysu sem flestir kannast við sem flata línu á hjartarafsjá. Þegar rafleysa er orðin er gífurlega erfitt að snúa ferlinu við og er þá oft litlu að bjarga.

 

 

Skjót viðbrögð skipta öllu
Íslendingar hafa staðið framarlega meðal Evrópuþjóða hvað varðar árangur endurlífgunar eftir hjartastopp utan sjúkrahúsa. Þannig ná 17% þeirra sem fara í hjartastopp að útskrifast af sjúkrahúsi og í yfir 40% tilfella höfðu vitni reynt grunnendurlífgun. Að vísu hefur ekki verið lagt mat á gæði þeirra endurlífgunartilrauna. Viðbragðstími sjúkrabifreiða á Stór-Reykjavíkursvæðinu er stuttur, að meðaltali tæplega 5 mínútur, og það ásamt vel þjálfuðum áhöfnum sjúkrabifreiða hefur sitt að segja varðandi góða útkomu. Þrátt fyrir að Íslendingar standi vel miðað við ýmsar þjóðir hvað varðar árangur af endurlífgun utan sjúkrahúsa ætti að vera mögulegt að bæta þennan árangur enn frekar.

 

Það skiptir öllu að bregðast við sem skjótast eftir að hættuleg takttruflun hefur gert vart við sig. Líkurnar á að endurlífga sjúkling eftir hjartastopp minnka um um það bil 10% með hverri mínútu ef ekkert er aðhafst. Lykilatriði í meðhöndlun hjartastopps er að hefja þegar í stað grunnendurlífgun og beita rafstuði til að koma á réttum takti á ný. Ef vitni eru að hjartstoppi þarf að hefja grunnendurlífgun tafarlaust eftir að hjálp hefur verið tilkvödd með því að hringja í 112. Sjúkrabifreið kemur síðan á vettvang með hjartarafstuðstæki og annan búnað sem þarf til að hefja sérhæfða endurlífgun.

 

Hvað er grunnendurlífgun?
Grunnendurlífgun felur í sér öndunaraðstoð með munn við munn blæstri og hjartahnoði. Mörgum þykir grunnendurlífgun flókin í framkvæmd, sér í lagi öndunaraðstoðin. Jafnframt er viss tregða hjá þeim sem verða vitni að hjartastoppi að beita munn við munn öndun, sérstaklega við ókunnuga. Þetta hefur á undanförnum árum hvatt til endurskoðunar á því hversu mikilvægur öndurnarþátturinn er í raun við endurlífgun. Nýlegar rannsóknir á sjúklingum, sem lent hafa í hjartastoppi, sýna að útkoman, þ.e. fjöldi þeirra sem nær að útskrifast af sjúkrahúsi, er nokkurn veginn sú sama hvort sem fólk reynir að framkvæma fulla endurlífgun með hjartahnoði og blæstri munn við munn eða framkvæmir einvörðungu hjartahnoð. Árangur reyndist talsvert lakari ef engin tilraun var gerð til grunnendurlífgunar. Í tilraunum, þar sem líkt var eftir aðstæðum hjartastopps á rannsóknarstofum, hefur verið sýnt fram á svipaðar niðurstöður, þ.e. ávinningur af fullri grunnendurlífgun sem hafin er fljótlega eftir hjartastopp er ekki meiri en ef eingöngu er beitt hjartahnoði.

 

Mikilvægi hjartahnoðs er ótvírætt þar sem það getur ýtt undir að blóðflæði sé til hjartans og aukið líkurnar á því að rafstuð geti komið á réttum takti á ný. Jafnframt getur hjartahnoð aukið líkurnar á að viðhalda einhverju blóðflæði til heila, en það dregur á hættu á varanlegum heilaskemmdum ef endurlífgun tekst.

 

Einfaldari endurlífgun
Með hliðsjón af ofansögðu hefur Endurlífgunarráð fjallað um hvort tímabært sé að leggja til breytingar á því hvernig standa skal að grunnendurlífgun þegar fullorðnir verða fyrir við hjartastoppi utan sjúkrahúss. Niðurstaða okkar er sú að við mælum með því að þeir sem ver&et h;a vitni að hjartastoppi, hafa ekki hlotið þjálfun í grunnendurlífgun eða treysta sér ekki til að framkvæma hana, hver svo sem ástæðan er, hefji hjartahnoð tafarlaust eftir að hringt hefur verið í neyðarlínu (112). Hjartahnoð er framkvæmt með því að ýta með báðum höndum á mitt bringubein um 80–-100 sinnum á mínútu. Stefnt skal að því að ýta bringubeini niður um það bil 4–-5 sentimetra við hvert hnoð. Slík viðbrögð eru talsvert einfaldari en full endurlífgun en eru samkvæmt ofansögðu mjög gagnleg og geta stuðlað að mögulegri lífsbjörg. Við viljum hinsvegar ekki banna þeim sem kunna rétt handtök að beita jafnframt blástursaðferðinni, en leggjum þó áherslu á að slík viðbrögð verði ekki til þess að seinka eða draga úr framkvæmd hjartahnoðsins.

 

Ef grunur er um meðvitundarleysi sé af öðrum orsökum en hjartastoppi er ekki fullnægjandi að beita hjartahnoði einu og sér. Hjá börnum innan 12 ára er orsök meðvitundarleysis oftast öndunarstopp frekar en hjartastopp. Sama á við drukknun, slæm asmaköst, hengingar og margar lyfjaeitranir. Af þessu er ljóst að gagnlegt er að kunna að beita munn við munn öndunaraðstoð og því leggur Endurlífgunarráð ekki til að neinar breytingar verði gerðar á kennslufyrirkomulagi í endurlífgun, a.m.k. ekki að svo stöddu.

 

Það skal tekið skýrt fram að tillögur Endurlífgunarráðs um að beita hjartahnoði eingöngu um leið og búið er að hringja á aðstoð eiga fyrst og fremst við þá sem fara í hjartastopp utan sjúkrahúss og í þéttbýli þar sem von er á sjúkrabifreið innan fárra mínútna. Í dreifbýli, þar sem bið eftir aðstoð er yfirleitt talsvert lengri, eru ekki forsendur til að sleppa munn við munn önduraðstoðinni.

 

Ef leikmenn verða vitni að hjartstoppi, eiga fyrstu viðbrögðin að vera þau að hringja í 112 og fá sjúkrabifreið á vettvang sem fyrst. Á meðan beðið er skal hefja hjartahnoð eins og áður er lýst. Þú, lesandi góður, gætir bjargað mannslífi með þessum viðbrögðum. Auðvelt ætti að vera að muna þessi viðbrögð með að hafa í huga orðin hringja og hnoða.

Frá Landlæknisembættinu