Hreyfing og heilbrigði barna og ungmenna

Miðvikudaginn 21. mars stendur Íþróttakennarafélag Íslands fyrir ráðstefnu um hreyfingu barna í skólum landsins. (upplýsingar á www.isisport.is/ikfi) Markmiðið ráðstefnunnar er að vekja athygli á bágri stöðu hreyfingar og heilbrigðis í mörgum skólum landsins og benda á ýmislegt sem betur mætti fara í þeim efnum.

Markmið okkar eru fyrst og fremst að börn og ungmenni eigi kost á því að hreyfa sig í um 30 – 40 mínútur daglega í skólastarfi sínu til þess að þroskast eðlilega og halda líkama sínum og andlegri heilsu í eðlilegu horfi. Einnig þarf samhliða því að auka fræðslu um heilsutengt efni t.d. í formi lífsleikni.

Í þessum pistli mun ég fara yfir nokkur atriði er tengjast hreyfingu og heilbrigði barna í skólastarfi. Hér er um hugleiðingu höfundar um þetta mikilvæga efni að ræða sem vonandi upplýsir ykkur um mikilvægi og hlutverk hreyfingar í lífi barna og ungmenna.

Almennt

Maðurinn er skapaður til að hreyfa sig og þarf að nota líkamann til að þroskast og dafna. Markviss hreyfing er ein helsta forsenda góðrar heilsu en hefur einnig mikil áhrif á starfshæfni og vellíðan.

Það ætti að vera alþjóð ljóst að góð heilsa þjóðarinnar og þá ekki síst barna og ungmenna er auðlind sem seint verður metin til fjár. Nú eru blikur á lofti varðandi heilsu ungmenna og hafa ýmsar rannsóknir bent til þess að ýmsir kvillar og sjúkdómar séu að aukast meðal yngra fólks. Það má leiða líkum að því að í allmörgum tilfellum megi rekja þessa vágesti til hreyfingarleysis og annarra lífsvenja í lífi ungmenna.

Afleiðing þjóðfélagsbreytinga síðustu áratuga hafa leitt til hreyfingarleysis sem getur leitt til þess að hjarta og blóðrásarkerfið veikist, stoðkerfið veikist einnig og hætta á að álagsmeiðsli geri vart við sig eykst. Afleiðing hreyfingarleysis birtist yfirleitt hjá börnum og unglingum í lélegri samhæfingu, stirðleika, litlu úthaldi og óæskilegri líkamsreisn og þyngd. Það skal tekið fram að stór hluti íslenskra ungmenna lifir heilbrigðu lífi og hreyfir sig reglulega en lífsvenjur og þ.m.t. hreyfingarleysi eru tvímælalaust vandamál sem þarf að bregðast við á einhvern hátt.

Skólaíþróttir, líkams- og heilsurækt

Skólinn er mikilvægur hlekkur í fyrirbyggjandi heilsugæslu en einnig vettvangur tjáningar og sköpunar.

Reynslan hefur sýnt að þeir sem stunda íþróttir, líkams- og heilsurækt reglubundið í æsku eru líklegri en aðrir til að gera slíkt hið sama á fullorðinsárum. Það er því mikilvægt, með jákvæðri kennslufræðilegri nálgun, að vekja áhuga hjá nemendum á reglubundinni hreyfingu. Þessu samfara er einnig nauðsynlegt að auka þekkingu þeirra á starfsemi líkamans og að vinna markvisst að eflingu þrekþátta, efla hreyfanleika og styrkja líkamsreisn nemenda. Mikilvægt er fyrir hvern nemanda að læra að þekkja eigin líkama og skynja möguleika hans til tjáningar og sköpunar. Nauðsynlegt er að fjölbreytt hreyfinám, þar sem samþætting námsgreina og vinna með tónlist og tjáningu, fái ákveðið vægi í kennslunni. Þessir þættir efla sjálfstraust og styrkja sjálfsmynd hvers einstaklings. Börnum er eðlilegt að tjá sig með líkamanum. Leikur með söng og dansi, leikræn tjáning og sköpun þarf að vera hluti af kennslu skólanna, hvort sem þessi atriði eru tekin fyrir í kennslustundum skólaíþrótta, öðrum námsgreinum eða skipulögð sem samþætting tveggja eða fleiri námsgreina.

Íþróttir eru vel til þess fallnar að efla félags-, tilfinninga- og siðgæðisþroska nemenda. Leikir og samvinnuverkefni gera þær kröfur til nemenda að þeir temji sér aga og tillitssemi. Þeir læra einnig að vinna með öðrum og hvetja félaga sína til dáða. Þá verða mörg verkefni eða leikir ekki leystir af hendi nema með sameiginlegu og samstilltu átaki.

Mikilvægt er að tengja fræðilega innlögn um íþróttir – líkams- og heilsurækt við útfærslu verklegra æfinga og leikja. Íþróttakennslan er vel til þess fallin að efla þessa samþættingu. Þessi aðferðafræði hefur einnig þann kost að hún vekur nemendur oft til umhugsunar um gildi íþrótta og vekur áhuga á reglubundinni heilsurækt og íþróttaiðkun.

Gott kennsluskipulag byggist á því að allir nemendur séu virkir, fái nægilega hreyfingu og næg verkefni til að glíma við með tilliti til getu og þroska.

Sérþarfir geta verið af ýmsum toga og stafað af fötlun eða frávikum nemenda. Því þarf sérstaka aðstoð eða úrræði að koma til fyrir þá nemendur sem ekki geta nýtt sér hefðbundna kennslu vegna þroska- og geðraskanna. Til að mögulegt sé að sinna hverjum nemanda er nauðsynlegt á vissum aldursskeiðum að kanna skyn- og hreyfiþroska ásamt líkamsþroska nemenda, s.s. þol, kraft og liðleika. Þannig er unnt að greina ólíkar þarfir og bregðast við vandamálum með aukinni þjálfun og/eða sérkennslu.

Leikskólar

Margir leikskólar hafa tekið markvissa hreyfingu inn í sitt starf og bjóða jafnvel upp á hreyfistundir í íþróttasal. Einnig eru útivist og gönguferðir ríkur þáttur í starfi þeirra. Þó má segja að margir leikskólar geti gert betur og skipulagt starf sitt með markvissari heilsueflingu barnanna í huga. Heilsuleikskólinn Urðarhóll í Kópavogi nýtur nokkurrar sérstöðu meðal leikskóla en þar er markvisst unnið með hreyfiþörf barnanna og mataræði svo dæmi séu tekin.

Í aðalnámskrá fyrir leikskóla segir: ,,Börn hafa ríka þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Í leikskóla ber því að leggja áherslu á hreyfingu barna og hreyfiuppeldi. Öll hreyfing stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan. Leikir sem reyna á líkamann veita barni útrás. Börn eru sífellt á hreyfingu og fara fljótt að tjá sig með hreyfingum. Hreyfing hefur áhrif á heilsu, snerpu og þol. Barn skynjar líkama sinn og nær smám saman betri stjórn á hreyfingum sínum. Í hreyfileikjum öðlast barnið skilning á styrk sínum og getu og sjálfstraust þess vex. Samhæfing hreyfinga, jafnvægi og öryggi eykst. Í hreyfileikjum lærir barnið að meta aðstæður, velja, hafna og þora. Leggja ber áherslu á að barnið læri ýmis stöðuhugtök og átti sig á rými, fjarlægðum og áttum. Ýmsir hlaupaleikir reyna verulega á þrótt barnsins og úthald, örva hjartslátt og blóðrás. Í hvíld og slökun í lok slíkra leikja skynjar barn muninn á spennu og slökun. Með því að fylgjast með hreyfingum barns sér leikskólakennari þroska þess og framfarir. “

Grunnskólar

Í grunnskólum landsins stunda um 40.000 nemendur nám sitt. Samkvæmt viðmiðunarstundaskrá á hver nemandi að fá 3 kennslustundir á viku í skólaíþróttum og er það lágmarksstundafjöldi. Skólaíþróttir eru bæði í senn almenn íþróttakennsla og sundkennsla og er miðað við að ein stund af þessum þrem sé varið til sundkennslu. Jákvæð upplifun íþróttakennslu í skólum getur lagt grunninn að heilsusamlegum lífsstíl hvers nemanda. Með jákvæðri upplifun af skólaíþróttum, þar sem gleði og ánægja ríkir, eykst einnig vinnugleði og vellíðan sem hefur áhrif á allt skólastarfið.

Nokkrar atriði til umhugsunar:

 • Ófullnægjandi tímafjöldi til íþróttakennslu í 42 grunnskólum á Íslandi þ.e. nemendur í þessum skólum fá ekki 3 stundir til hreyfingar á viku.
 • Íþróttakennarafélag Íslands hefur áhyggjur af almennu heilsufari barna og ungmenna, og að hluti af æsku þjóðarinnar verði í raun sjúklingar sem ekki hafa þol, líkamlega færni né styrk til að takast á við verkefni hins daglega lífs.
 • Börn og unglingar læra að nota líkamann þegar þau taka við áreiti frá umhverfinu. Því er mikilvægt að leikir og hreyfinám skipi ekki aðeins veglegt rými í kennslu skólaíþrótta heldur einnig meðan á skóladegi stendur, í öðrum greinum og/eða í frímínútum.
 • Umfjöllun um skólaíþróttir í fjölmiðlum sem oft hefur gefið ranghugmyndir af því starfi sem þar er unnið.
 • Áhugi og metnaður íþróttakennara til að standa vel að sinni kennslu og skapa henni heilbrigða og faglega umgjörð.
 • Ný og metnaðarfull námskrá Skólaíþróttir líkams- og heilsurækt kemur að fullu til framkvæmda á næstunni.
 • Sérkennsla í skólaíþróttum og aðstoð í íþróttasal er víða ekki til staðar þrátt fyrir að þess sé þörf.

Skólaíþróttir er í eðli sínu ekki eingöngu hreyfing og líkamsrækt þó að þar liggi grunnurinn. Til að gefa ykkur betri mynd af markmiðum íþróttakennslu birtist hér punktar úr: Aðalnámskrá grunnskóla, Skólaíþróttir líkams- og heilsurækt.

Lokamarkmið skólaíþrótta:

Skynþroski og Hreyfiþroski

Nemandi

 • efli skynfæri líkamans og samspil þeirra við útfærslu hreyfinga
 • geti stjórnað gróf- og fínhreyfingum
 • finni farveg fyrir hreyfiþörf sína í fjölbreyttum æfingum og leikjum
 • þjálfist í undirstöðuatriðum helstu íþróttagreina sem stundaðar eru hér á landi.

Líkamsþroski og Fagurþroski

Nemandi

 • efli á markvissan hátt líkamshreysti sína og þrek
 • geti nýtt sér stöðluð þrekpróf til að byggja upp eigið þrek og líkamshreysti
 • þjálfist í undirstöðuatriðum almennrar líkamsbeitingar
 • finni farveg fyrir hreyfiþörf sína í útivist, leikrænni tjáningu og sköpun.

Félagsþroski, Tilfinningaþroski og Siðgæðisþroski

Nemandi

 • öðlist áhuga og jákvætt viðhorf til íþróttaiðkunar, líkams- og heilsuræktar
 • geri sér grein fyrir gildi samvinnu í leik og keppni
 • geti tjáð tilfinningar sínar í orði og verki
 • sýni öðrum virðingu og umburðarlyndi í leik og starfi
 • öðlist og styrki jákvæða sjálfsmynd með þátttöku í leikjum, íþróttum, hreyfingu, dansi eða útiveru.

Vitsmunaþroski

Nemandi

 • þekki gildi heilbrigðs lífernis fyrir starfsemi líkamans
 • þekki og tileinki sér þjálfunarleiðir íþrótta og heilsuræktar
 • þekki íslenska íþróttamenningu, s.s. glímu og leiki
 • búi yfir fjölþættum orðaforða sem tengist líkams- og heilsurækt
 • þekki og tileinki sér öryggis- og skipulagsreglur í skólaíþróttum.

Eins og sjá má er hér breiður vettvangur fyrir heilbrigði og þroska nemandans bæði líkaml ega og andlega. Hér er að mestu leyti um virka hreyfingu að ræða en einnig er þörf á bóklegri fræðslu.

Framhaldsskólinn

Á undanförnum árum hefur íþróttakennsla hér á landi tekið breytingum í þá veru að auka skilning einstaklinga á heilbrigðu líferni. Eitt af meginverkefnum íþróttakennslu í skólum er að vera aflvaki til mótunar á heilbrigðu líferni og lífsstíl ungmenna. Flesta þætti í íþróttakennslu framhaldsskóla má tengja lífsleiknihugtakinu. Lífsleikni íþrótta — líkams- og heilsuræktar nær sérstaklega yfir athafnir mannsins sem snúa að líkams- og heilsurækt. Markviss líkams- og heilsuræktarkennsla er því mjög mikilvæg sem hluti af lífsleikninámi og getur haft lykilþýðingu fyrir heilbrigði og lífsvenjur einstaklings þegar fram líða stundir.

Með verklegri og bóklegri kennslu íþrótta — líkams- og heilsuræktar á framhaldsskólastigi er brugðist við þessum þáttum á markvissan hátt.

Mikilvægt er að líta á íþróttir í víðu samhengi þar sem lokamarkmið greinarinnar er m.a. að efla líkams- og heilsurækt meðal nemenda og vekja hjá þeim áhuga á reglubundinni iðkun íþrótta og heilsuræktar. Þá er einnig verið að sækjast eftir því að nemendur fræðist á markvissan hátt um líkams- og heilsuvernd og geti ræktað líkama sinn sér til heilsubótar og ánægju til æviloka. Stefnt er að því markmiði að leggja grunn að ævilangri líkams- og heilsurækt hvers einstaklings. Skipuleggja þarf nám og kennslu í íþróttum með tilliti til ofangreindra þátta.
Kennslu- og aðferðafræði íþrótta — líkams- og heilsuræktar snýst í meginatriðum um tengsl verklegra og fræðilegra þátta líkams- og heilsuræktar. Líkamleg þjálfun hvers og eins hefur forgang en kappkosta skal að auka þekkingu nemenda á grundvallaratriðum í líkams- og heilsurækt samhliða iðkun æfinga og leikja.
Hvetja skal nemendur til að nýta sér upplýsingatækni á fjölbreyttan hátt innan íþróttanámsins. Hér er m.a. átt við að afla sér upplýsinga um líkams- og heilsurækt, nýta tölvu til að skrásetja upplýsingar, vinna að áætlanagerð eins og líkams- og heilsuræktardagbók eða fylgjast með niðurstöðum mælinga milli eða innan áfanga.