Hópleit að brjóstakrabbameini hefur reynst árangursrík

Brjóstakrabbamein er langalgengasta krabbamein meðal íslenskra kvenna, með sívaxandi tíðni áratugum saman eins og víða erlendis. Dánartíðni úr sjúkdómnum hefur þó verið allstöðug, bæði vegna bættrar sjúkdómsgreiningar og framfara í meðferð. Undanfarin fimm ár hafa að jafnaði 145 konur greinst með sjúkdóminn á ári, og 16 konur með forstig hans, svonefnt setkrabbamein. Árlega deyja 40-50 konur af völdum brjóstakrabbameins, næstum jafnmargar og úr lungnakrabbameini, sem er yfirleitt mun skæðari sjúkdómur.

Ávinningur af hópleit

Meginforsenda leitar að brjóstakrabbameini er sú, að lífslíkur eru bestar ef meinið finnst snemma, annað hvort sem setkrabbamein eða á fyrsta stigi, aðeins með staðbundinn vöxt í aðlæga vefi. Skipuleg hópleit með röntgenmyndatöku af brjóstum er eina aðferðin sem kemur til greina almennt. Samkvæmt víðtækum rannsóknum erlendis í meira en 30 ár getur hún lækkað dánartíðni úr sjúkdómnum um 30-40% meðal kvenna sem greinast með hann 50-69 ára, miðað við góða þátttöku í leit. Árangur hjá 40-49 ára konum sást ekki eins fljótt, en er nú orðinn marktækur.

Annar ávinningur af því að finna brjóstakrabbamein snemma er að fleiri konum en ella gefst kostur á minni aðgerð, fleygskurði, í stað þess að allt brjóstið sé tekið. Sé geislameðferð beitt eftir fleygskurð eru lífslíkur ekki síðri.

Gildi hópleitar með myndatöku er löngu talið fullsannað, og tugmilljónir kvenna í meira en tuttugu löndum nýta sér hana árlega. Beinn kostnaður við hvert unnið lífár er talinn svipaður og við opnar kransæðaaðgerðir og nýrnaflutning, sem Íslendingar telja sjálfsagða þjónustu, og jafnvel lægri en við lyfjameðferð við of háum blóðþrýstingi.

Brjóstakrabbameinsleit á Íslandi

Kerfisbundin, samþætt hópleit að krabbameini og forstigum þess í leghálsi og brjóstum, sem hófst í nóvember 1987, er umfangsmesta verkefni Krabbameinsfélags Íslands. Leitarstöð félagsins í Reykjavík skipuleggur leitina og stjórnar henni, samkvæmt samningi við heilbrigðisráðuneytið. Leit vegna leghálskrabbameins nær til kvenna frá tvítugu til sjötugs, og frá fertugu býðst þeim einnig brjóstamyndataka á tveggja ára fresti. Sjötugar konur og eldri fá ekki boðunarbréf en eru áfram velkomnar í myndatöku.

Í Reykjavík fara myndatökurnar fram á röntgendeild Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8, en á Akureyri á röntgendeild Fjórðungssjúkrahússins. Einnig er skipulögð leit á 40 heilsugæslustöðvum um land allt. Þangað fer starfsfólk frá Reykjavík með röntgentæki og annan búnað, en filmurnar eru framkallaðar og túlkaðar syðra.

Við rannsóknina er brjóstinu þrýst saman, til að jafna þykkt þess og tryggja myndskerpu. Greiningaröryggi er háð því að þetta sé vel gert, en flestar konur finna ekki mikil óþægindi. Sú breyting hefur orðið með nýjum tækjum að ekki er einungis pressað ofan á brjóstið heldur líka neðan frá, þannig að óþægindi eru oft minni. Hámarksþrýstingur er mun minni en áður tíðkaðist, og viðkvæm brjóst eru pressuð minna en önnur.

Annar tæknibúnaður er einnig í stöðugri þróun. Með nýjum filmukerfum hafa myndgæði aukist, og geislun hefur minnkað mjög frá því fyrir þremur áratugum. Jafnvel við endurteknar myndatökur eftir fertugt er hætta á brjóstakrabbameini vegna geislunar talin hverfandi lítil, og óþarfi að hræðast hana fremur en ýmsar hættur daglegs lífs.

Viðbótarrannsóknir

Tveir röntgenlæknar skoða myndirnar, til að auka öryggi. Við minnsta grun um illkynja breytingar eru kona boðuð aftur til myndatöku. Oftast er brjóstið einnig þreifað og ómskoðað. Stundum er einnig tekið stungusýni, en slíkum ástungum hefur fækkað mjög síðan ómskoðun brjósta var hafin árið 1994.

Oft reynist eingöngu um að ræða óheppilega legu brjóstvefja á myndunum, þannig að með viðbótarmyndum er grun um krabbamein eytt. Sama gildir um niðurstöður stungusýnis. Einstaka konur koma í eftirlitsmyndatöku eftir nokkra mánuði. Aðeins örlítill hluti kvenna þarf á skurðaðgerð að halda, annað hvort til frekari greiningar eða meðferðar.

Sjálfskoðun brjósta

Röntgentæknar leggja sig fram að ræða við konur sem koma í myndatöku. Eru þær m.a. hvattar til að mæta reglulega, á tveggja ára fresti, í stað þess að láta líða 3-4 ár eða jafnvel lengra á milli. Þá eru konur hvattar til að þreifa sjálfar brjóst sín mánaðarlega. Leitarstöðin hefur gert stutt kennslumyndband um brjóstaskoðun, sem er sýnt bæði þar og í ferðum um landið og konur ættu að gefa sér tíma til að horfa á. Einnig geta þær æft sig í að þreifa brjóstlíkan, sem inniheldur mismunandi gerðir „hnúta".

Í Leitarstöðinni er einnig starfrækt móttaka þar sem allar konur geta pantað tíma, ef þær hafa fundið eitthvað athugavert í brjósti. Rétt er að leita þá strax læknis, jafnvel þótt stutt sé liðið frá síðustu myndatöku. Sum krabbamein finnast ekki við hópleit, og meðferð þeirra á ekki að dragast að óþörfu. Flestir hnútar eru raunar góðkynja, en greining er nauðsynleg og óþarfi að ala með sér áhyggjur.

Léleg þátttaka í hópleit – orsakir

Heildarþátttaka í hópleit að brjóstakrabbameini á Íslandi, miðað við tvö undanfarin ár hverju sinni, var í fyrstu um 65% og hefur síðan minnkað í 61%. Hún þyrfti að vera minnst 70-75% til að teljast viðunandi. Óregluleg mæting margra kvenna, oft með mun lengra bili en tvö ár, er skýring að hluta. Þyngst vegur léleg aðsókn á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík lökust með 55%), Akureyri og Reykjanesi. Annars er aðsókn úti um land yfirleitt góð og víða ágæt, allt upp í 88%. Í Svíþjóð er þátttaka yfir 80% í heild, í Finnlandi nær 90%.

Furðu vekur hve margar íslenskar konur nýta sér illa eða ekki þessa mikilvægu heilbrigðisþjónustu, sem er fremur aðgengileg og mikið niðurgreidd af almannafé. „Hvað eru konur í Reykjavík eiginlega að hugsa?" varð einni landsbyggðarkonu að orði.

Auk framtaks- eða andvaraleysis geta skýringar á lélegri þátttöku m.a. verið hræðsla við geislun eða óþægindi í myndatökunni. Oft er þó sennilega um annað að ræða, t.d. ótta við að eitthvað finnist við rannsóknina.

Sannað er og almennt vel þekkt, að hafi náinn ættingi konu fengið brjóstakrabbamein er hún í aukinni hættu að fá það líka. Konur án slíkrar ættarsögu halda sumar að þátttaka í hópleit sé óþörf, sem getur reynst örlagaríkur misskilningur. Meira en 80% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein eiga enga nána ættingja með sjúkdóminn.

Aðgæslu þörf

Nokkrar eðlilegar myndatökur í röð gefa ekki heldur aukið öryggi upp frá því, eins og sumar konur halda, þannig að síðan megi láta líða lengra á milli skoðana eða láta þær vera með öllu. Þvert á móti eykst hætta á brjóstakrabbameini með aldrinum, sem er raunar helsti áhættuþátturinn. Fullt gagn af hópleit fæst aðeins með áframhaldandi reglubundinni mætingu, svo að mein nái ekki að stækka óþarflega lengi og dreifa sér.

Ekki má heldur treysta eingöngu á reglubundna skoðun brjósta, hvort heldur er hjá lækni eða sjálfskoðun, þótt hvatt sé til hennar jafnframt hópleit. Liðlega helmingur krabbameina sem finnast í leitinni eru dulin, þ.e. alls ekki áþreifanleg, og eru batahorfur við þau almennt betri. Setkrabbamein, með nær fullkomnar batahorfur, eru yfir 20% meina sem greinast í hópleit og finnast yfirleitt ekki við þreifingu.

Margar konur fara í leghálssýnistöku og oft um leið í brjóstaskoðun hjá eigin lækni. Nauðsynlegt er að þær fari einnig reglulega í myndatöku, en misbrestur hefur viljað verða á því. Konur sem fara í leghálsskoðun utan Leitarstöðvar eru ekki síður velkomnar í brjóstamyndatöku en aðrar, þótt einhverjar kunni að halda það.

Sjálfsagðar forvarnir

Fyrir utan lágt þátttökuhlutfall hefur árangur leitarinnar verið vel sambærilegur við önnur lönd hvað snertir aðra mælanlega þætti, svo sem fjölda fundinna krabbameina (miðað við þátttöku), næmni leitarinnar, hlutfall setmeina og önnur spágildi varðandi batahorfur, einkum smæð æxla.

Í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins er stöðugt hugað að leiðum til að bæta þjónustuna, svo að hópleitin verði jákvæður hluti forvarna hverrar konu, og auka aðsóknina á annan hátt, m.a. með betri fræðslu, endurskoðun boðunarbréfa, veggspjöldum og auglýsingum. Besta leiðin gæti þó falist í jákvæðri umræðu almennings, karla sem kvenna, og hvatningu lækna og annars starfsfólks heilsugæslu til þessarar mikilvægu heilsuverndar, sem snertir í raun fjölskyldur, starfsfélaga og vini allra sem greinast með sjúkdóminn. Því er ekki að leyna, að þátttakan í leitinni er okkur starfsfólkinu vonbrigði, en við erum líka þakklát þeim fjölda kvenna sem sinnir henni reglubundið og væntum hjálpar þeirra við að snúa hinum.

Bylting framundan

Nú stendur yfir alger bylting röntgentækni, sem felst í stafrænni myndgerð og er óðum að taka við af filmutækninni á almennum röntgendeildum, einnig hérlendis. Vegna mikilla krafna um myndgæði var lengi vel ekki unnt að nýta stafræna tækni við brjóstamyndatökur, en nú er þeim kröfum fullnægt og fyrstu tækin komin á markaðinn. Þau eru margfalt dýrari en hin gömlu, jafnframt því sem umbylta þarf öllu vinnuumhverfi (úrlestur og samanburður mynda á sjónvarpsskjám, geymsla mynda í tölvum með gífurlegu rými, og loks flutningur þeirra og annarra gagna um tölvunet, jafnvel milli landshluta eins og verður t.d. við hópleitina í Noregi).

Ýmsir erfiðleikar fylgja þessari þróun fyrir utan mikinn stofnkostnað, sem gæti þó fljótlega lækkað. Kostirnir munu þó yfirgnæfa til lengri tíma litið. Filmur og framköllunarefni verða t.d. að mestu úr sögunni, með þeirri ofnæmishættu starfsfólks og öðrum vandamálum sem þeim fylgja. Mestu máli skiptir þó, að sjúkdómsgreining í brjóstum ætti að verða enn öruggari en áður, bæði vegna möguleika röntgenlækna á umbreytingu myndanna við úrlestur, og ekki síður vegna sérstakra tölvuforrita til sjálfvirkrar merkingar á þeim stöðum á myndunum sem þarfnast sérstakrar athugunar.

Jafnframt þarf að hyggja að öflun nýrrar ómsjár fyri r röntgendeild Krabbameinsfélagsins, einkum vegna hraðrar tækniþróunar á því sviði. Þá er víða farið að nota segulómskoðun til rannsókna á brjóstum í völdum tilvikum, og skapaðist sú aðstaða á Landspítalanum við Hringbraut snemma á árinu 2006.