Hnakkaþykktarmæling

Hnakkaþykkt
Hnakkaþykkt er svart svæði (vökvi) undir húð á hnakka fóstursins. Öll fóstur hafa einhvern vökva á þessu
svæði á þessum tíma meðgöngu. Það þarf ekki að vera annað en tímabundin bjúgsöfnun og eðlilegt lífeðlisfræðilegt fyrirbæri. Ef hnakkaþykkt er hins vegar aukin umfram mörk sem sett eru miðað við meðgöngulengd og aldur móður, aukast líkur á að fóstrið geti verið með litningagalla, hjartagalla eða önnur vandamál.

Tölvuforrit
er notað til að reikna líkur á litningaþrístæðu 21 (Down’ s heilkenni) ásamt líkum á þrístæðum 13 og 18 , og er miðað við aldur móður, meðgöngulengd og hnakkaþykkt. Niðurstaða fæst strax að lokinni ómskoðuninni og eru gefnar annars vegar líkur miðað við aldur móður eingöngu og hins vegar miðað við aldur móður, aldur fósturs og hnakkaþykkt þess.

Næmi rannsóknarinnar er talið vera allt að 80%, það er að segja að finna megi allt að 80% litningagalla ef þær konur sem reiknast með auknar líkur fara í litningarannsókn.

Lífefnavísar í blóði móður
Með mælingum á lífefnavísum (þungunarhormónum , PAPP-A og beta HCG) má reikna líkur á litningagöllum á sama hátt. Þannig að ef lífefnavísar og hnakkaþykkt er notað saman (samþætt líkindamat ) eykst næmi rannsóknarinnar í um það bil 90%.

Niðurstaða úr líkindamati
Ef líkur á litningagalla reiknast ekki auknar, en sett mörk eru við 1/300 er ekki ástæða til litningarannsóknar, þar sem hún felur í sér hættu á fósturláti.
Ef hins vegar líkur reiknast auknar stendur til boða litningarannsókn sem er annað hvort fylgjusýnataka eða legástunga og er metið í hverju tilfelli hvað á betur við.

Athygli er vakin á því að samþætt líkindamat (hnakkaþykkt og blóðprufa) gefur einungis tölfræðilegar líkur á tilvist litningagalla en er ekki greining og þýðir ekki að fóstrið sé með litningagalla. Til að staðfesta litningagalla þarf litningarannsókn.

 

Þessi grein er fengin af vef Landspítala Háskólasjúkrahúss