Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

Þeim sem gengur vel og líður vel í lífinu eiga það sameiginlegt að hlúa að því sem þeim þykir vænt um. Það er mikilvægt að hafa eitthvað sem manni þykir vænt um, rækta þá væntumþykju og hlúa vel að henni. Það getur verið breytilegt frá manni til manns hvað eða hverja þeim þykir vænt um. Það getur verið fjölskyldumeðlimur, vinur, gæludýr eða jafnvel planta. Eitthvað sem lifir og þarf ást og umhyggju frá öðrum til að geta dafnað. Það gefur lífi fólks tilgang að finna að einhver þarf á umhyggju þess að halda og vita að manns yrði saknað ef maður væri ekki hér á morgun.

 

Flestum þykir vænt um fjölskyldu sína og vini en eru kannski ekki alltaf að segja þeim það. Mörgum finnst óþarfi að segja öðrum í að þeim þyki vænt um þá því þeir hljóti að vita það. En það er ekki óþarfi, það er ómetanlegt að heyra einhvern segja að honum þyki vænt um mann. Jafnvel þótt maður finni fyrir væntumþykju frá einhverjum sakar ekki að heyra það líka.

 

Hvað myndum við gera ef við vissum að þetta væri seinasti dagurinn í lífi okkar? Í hvern myndum við hringja og hvað myndum við segja við þá? Staðreyndin er sú að fæstir vita hvenær þeirra seinasti dagur kemur, ef við ætlum að bíða fram til hinsta dags með að tjá væntumþykju okkar í garð annarra er hætt við að það verði aldrei af því.

 

Það er hægt tjá væntumþykju á margvíslegan hátt, bæði í orðum og gjörðum. Það tekur ekki langan tíma að segja einhverjum að manni þyki vænt um hann. Það er hægt að hringja, skrifa tölvupóst, senda sms eða bréf. Þetta kostar ekki mikið en er ótrúlega gefandi fyrir báða aðila. Þegar við hugsum til þeirra sem okkur þykir vænt um, vekjum við minningar í huga okkar sem veita okkur vellíðan. Á sama hátt veitir það okkur vanlíðan að hugsa um þá sem fara í taugarnar á okkur.

 

Með því að gleðja aðra ræktum við gott sambandi við þá sem okkur þykir vænt um á sama tíma og við stuðlum að okkar eigin vellíðan. Tjáðu einhverjum væntumþykju þína áður en þú ferð að sofa í kvöld og hlúðu þannig að þeim sem þér þykir vænt um.                                             

 

 

 

 

Heilsan í brennidepli – Landlæknisembættið